20.2.2009 | 14:16
Munið þið eftir "fíkniefnalausu Íslandi árið 2000" ?
Ég er mikill áhugamaður um aukið öryggi í umferð og hef barist fyrir notkun bílbelta í meira en 30 ár. Ég er líka bindindismaður og vil ekki sjá fíkniefni, hvorki áfengi né dóp. En þegar lagt var upp með það fyrir rúmum áratug að stefnt yrði að fíkniefnalausu Íslandi árið 2000 (gott ef það var ekki Framsóknarflokkurinn sem gerði það) fannst mér það grátbroslegur barnaskapur.
Það þýðir ekki að það sé ekki hægt að stórfækka banaslysum í umferðinni þannig að þau verði brot af því sem nú er. Þar má ná miklum árangri með forvarnarstarfi, eftirliti og almannavilja. Minna má á, að nú líður hvert árið af öðru án banaslyss í flugvélum hér á landi.
En mér finnst það barnaskapur að halda að hægt sé að útrýma banaslysum frekar en öðrum slysum á sama tíma og nú á að skera niður útgjöld til forvarna við trog vegna kreppunnar. Reynum að setja okkur raunhæf markmið.
![]() |
Banaslysum í umferðinni verði útrýmt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
20.2.2009 | 14:05
Tilefni til uppstokkunar á orkuvinnslunni.
Þegar ég vann að umræðuþætti um Kröfluvirkjun 1978 komst ég að því að þær aðferðir, sem Guðmundur Pálmason hafði lagt til að hafðar væru við að nýta háhitasvæði, höfðu verið settar til hliðar og vaðið áfram í orkuvinnslunni á Kröfusvæðinu í trássi við þær. Það var hið raunverulega Kröfluhneyksli en féll í skuggan af meintu hneyksli í samskiptum við Mitsubishi sem aldrei var sannað neitt misjafnt um.
Á þessum tíma var vaðið áfram á ofurhraða í virkjun Kröflu vegna áherslu þingmannanna fyrir norðan á að alls ekki mætti fá þangað rafmagn um "hundinn að sunnan" eins og hugsanleg raflína norður var kölluð. Upphaflega höfðu menn ætlað að æða áfram í raforkuöflun nyrðra með ótrúlega stórkarlalegum fyrirætlunum um svonefnda Gljúfurversvirkjun, sem mývetnksir bændir stöðuðu með dínamitsprengingu við Miðkvísl.
Síðustu ár hefur verið vaðið hraðar áfram í virkjun háhitasvæða en nokkru sinni fyrr, þvert ofan í þá stefnu sem Guðmundur Pálmason lagði upp með á sínum tíma og gegn aðvörunum reyndra manna á borð við Jóhannes Zoega, fyrrum hitaveitustjóra í Reykjavík.
Þegar lesin eru verk og ummæli Braga Árnasonar, Sveinbjörns Björnssonar, Stefáns Arnórssonar og Gríms Björnssonar blasir við að með núverandi tækni endist jarðvarmninn á Reykjanesskaganum aðeins í um hálfa öld.
Samkvæmt ágiskunum í ritum Braga Árnasonar mætti nýta svæðið frá Nesjavöllum út að Reykjanestá á endurnýjanlegan og sjálfbæran hátt með því að virkja aðeins þriðjung af því afli sem nú á að pumpa upp úr þessum svæðum.
Það mætti gera á á tvo mismunandi vegu: Annars vegar þann að virkja aðeins þriðjung svæðanna í einu, fimmtíu ár í senn, en Bragi giskar á að það taki 2x50 ár, eða öld fyrir svæðin að jafna sig eftir oftöku á borð við þá sem nú er.
Hins vegar mætti hugsa sér að taka aðeins þriðjung þeirrar orku sem nú er pumpað upp úr svæðunum þannig að geti öll verið í stöðugum rekstri á sjálfbæran hátt til framtíðar.
Í stað risaálvers ætti núað staldra við og fá í staðinn fyrirtæki sem nota miklu minni orku með engri mengun og betur launuðum störfum.
Oftökustefnan í virkjununum er af sama toga og ofvöxtur bankakerfisins var á sínum tíma, byggð á skammtímagræðgi og tillitsleysi gagnvart komandi kynslóðum. Áframhald á sömu braut lyga um endurnýjanlega orku er ekki bara skammarleg fyrir þjóðina heldur mun hún koma okkur í koll fyrr eða síðar. Nú er lag til að standa að þessu eins og menn.
![]() |
Álver í Helguvík í óvissu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2009 | 00:47
Bjóðum bara lægra lægsta verð, ekki satt?
Þegar efnahagssamdráttur áranna 1991-95 skemmdi fyrir fyrirætlunum um álver á Keilisnesi sáu íslenskir ráðamenn þess tíma leið út úr því.
Þeir létu bara gera glæsilegan bækling sem Andri Snær Magnasson afhjúpaði áratug síðar á eftirminnilegan hátt. Bæklingur þessi var sendur til allra stóriðjufyrirtækja sem líkleg þóttu til að falla fyrir efni hans, sem var ómótstæðilegt: "Lægsta orkuverð og sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum sem engar áhyggjur þarf að hafa af."
Þetta var pottþétt og hreif. Á Íslandi var tryggt að ekki þyrfti að gefa seljendunum, íslensku þjóðinni, upp orkuverðið. Það varð að koma álver, hvað sem það kostaði.
Dæmi um það hve skefjalaus og alger krafan var um álver var að samkvæmt Keilisnes-áætluninni átti álverið að rísa hér syðra en aðeins örfáir að fá framtíðarvinnu við Fljótsdalsvirkjun fyrir austan.
Það skipti Austfirðinga engu máli þá. Aðalatriðið var að fá virkjanaframkvæmdir í nokkur ár sem myndu gefa tímabundin atvinnutækifæri, hækka fasteignaverð nógu mikið til að fólk eystra losnaði úr átthagafjötrum, gæti selt hús sín og flutt suður.
En víkjum aftur til aldamótanna. Stóriðjuáformin voru gerð aðlaðandi með loforðum um umhverfisvæna, endurnýjanlega og hreina orku, sem hægt væri að auglýsa um allan heim til að gefa álverum á Íslandi ómótstæðilegan gæðastimpil með tilheyrandi viðskiptavild, sem hægt var að meta til mikils fjár.
Tryggt var að allir æðstu ráðamenn þjóðarinnar myndu nýta hvern einasta fund eða ráðstefnu um málin til að gylla þetta fyrir umheiminum.
Engu skipti þótt staðreyndin væri sú að mestöll orkan, sem í boði væri á Reykjanesskaganum entist aðeins í nokkra áratugi og væri miðuð að meðaltali við 50 ára endingu, sumt styttra, sumt lengra. Þeirri staðreynd yrði drekkt í skálaglamri kokkteilboða og víðtækri auglýsingaherferð um forystu Íslendinga í sjálfbærri þróun.
Fyrst yrði því lofað að álverin í Helguvík og á Bakka þyrftu aðeins að verða 240 þúsund tonn til að standast hagkvæmniskröfur. Þegar búið væri að komast það langt að ekki yrði aftur snúið, myndin talan hækka um 100 þúsund tonn.
Þess vegna heldur Helguvíkurverkefnið áfram að vera álitlegur kostur í augum álfyrirtækjanna. Íslendingar liggja nú afvelta í afleiðingum eigin gróðafíknar og munu lækka orkuverðið eins og þurfa þykir og sætta sig við stærra álver eftir pöntun álfurstanna.
Jón Gunnarsson og aðrir þingmenn kjördæmisins munu hrópa því hærra á framkvæmdir sem minni líkur verði á að þær verði að veruleika. Við verðum að fá álverið, sama hvað það kostar, sama hvað það verður stórt, sama hvað miklu af náttúruverðmætum verður fórnað, sama hvað álverðið verður lágt, sama hve miklu verður að ljúga um hina endurnýjanlegu orku !
Hægt verður að lækka orkuverðið niður í það óendanlega án þess að það vitnist. Það er viðskiptaleyndarmál hvort eð er og því verður aldrei breytt. Tryggt verður að ekki sé hægt að mynda ríkisstjórn á Íslandi nema annar hvor eða helst báðir mestu stóriðjuflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur eða Framsókn verði með úrslitavald í þessum málum þótt Samfylking eða VG sé að forminu til með ráðuneytin sem þetta heyrir undir.
Þetta er svo skothelt !
![]() |
Tap Century 898,3 milljónir dala |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)