21.2.2009 | 21:42
Gáttaður á sérfræðingunum - og þó.
Ég verð að segja það þótt ég teljist leikmaður á sviðið fjármálalífs heimsins er ég gáttaður á því að helstu sérfræðingar á því sviði séu gáttaðir á stærð og alvarleika heimskreppunnar.
Kreppan 1930-40 breiddist út frá Bandaríkjunum og hafði gríðarleg áhrif í flestum löndum heims, en auðvitað langmest í þeim löndum sem voru tengdust alþjóðlegu fjármálakerfi þess tíma og heimsviðskiptum.
Núna eru miklu fleiri lönd tengd saman í fjármálakerfi heimsins en var 1930 og á margfalt stærri veg. Þess vegna er eðliegt að kreppan núna verði jafnvel síst minni, enda þótt öflugri ráðum og samræmdari sé hægt að breyta en fyrir tæpum áttatíu árum.
Þótt það þekktist að einstakar þjóðir gætu með öflugum ráðstöfunum alræðiststjórnar stytt kreppuna á sinni tíð, eins og til dæmis Þjóðverjar frá 1934-1939, var það ekki einhlítt.
Ég las til dæmis í fyrra merkilega bók um nasismann og stríð þar sem leidd eru mjög öflug rök að því að sú aðferð Hitlers að vinna bug á kreppunni og atvinnuleysinu með mestu hernaðaruppbyggingu sögunnar gat ekki gengið nema um skammt árabil. Þetta byggðist á ábyrgðarlausum lántökum og fjárfestingum sem gátu ekki staðist á friðartímum til frambúðar. 1937 rak Hitler fjármálaráðherra sinn og fór einn sínu fram eftir það.
En frá upphafi var ljóst að Hitler stefndi ekki að friðartímum, heldur var þetta meðvituð og kaldrifjuð áætlun sem byggðist á stríði sem forsendu og takmarki.
Hrun var óhjákvæmilegt nema að hinn nýi herbúnaður yrði notaður í stríði eigi síðar en 1940 til þess að ná undir Þjóðverja auðlindum og vinnuafli annarra þjóða svo að hægt væri að uppfylla tvö skilyrði hervæðingarinnar, -annars vegar að vopnin yrður notuð og hins vegar að tryggja að hægt væri að borga fyrir hana.
Efnahagslega var heimsstyrjöldin 1939-45 því þegar fyrirsjáanleg eftir að þessi þensla hafði staðið í nokkur ár. Churchill sá hana fyrir í árslok 1935 án þess að geta fært á það pottþéttar sönnur og hann talaði fyrir daufum eyrum, rétt eins og ýmsir sérfræðingar töluðu um íslensku þensluna þegar árið 2006.
Gunnar Tómasson sagði mér, þegar ég hitti hann um daginn, að því miður yrði Obama að leita til séfræðinga sem væru fastir í hinum úreltu og röngu hagfræðikennisetningum sem lýstu frekar trúarbrögðum en vísindum.
Kannski ætti ég því ekki að vera gáttaður á þessum ráðgjöfum. Það er eðlilegt að þeir skilji niðursveifnuna ekkert betur en uppsveifluna á sínum tíma sem þeir trúðu á eins og guðspjöll.
![]() |
Jafnvel sérfræðingar eru gáttaðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.2.2009 | 21:17
Vel að þessu komin.
Á sínum tíma gat ég ekki orða bundist hér á blogginu þegar Þóra Kristín brilleraði í einni af snilldarfréttum sínum á mbl.is. Það gleður mig því mikið að hún skuli hampa þessum verðlaunum.
Ekki er síðra að minn góði vinur RAX skuli vera verðlaunaður ásamt sínum samverkamanni fyrir verk, sem ég vissi vel af nánum kynni við það flókna og víðfeðma verkefni sem íslenskir virkjanakostir eru.
![]() |
Þóra Kristín blaðamaður ársins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.2.2009 | 13:05
Áhættufíknin í forgang í hvalveiðum og loðnuveiðum?
Greinilegt er að margt er óljóst um stöðu loðnunnar nú um stundir. Áhættufíknin sem olli græðgisvæðingunni og hruninu mikla hefur ekki horfið eins og sést best á því að það þykir allt í lagi að setja meira en þriggja milljarða viðskipti með fisk í uppnám með því að heimila hvalveiðar sem gefa aðeins atvinnu í nokkra mánuði og ekki nema brot af þessum fisksölutekjum.
Ég minnist þess ævinlega með hrolli þegar allir helstu aflaskipstjórar loðnuflotans sendu áskorun til sjávarútvegsráðherra, sem mig minnir að þá hafi verið Matthías Bjarnason, þar sem harðlega var mótmælt stöðvun loðnuveiðanna þegar veiðiflotinn elti hana vestur með Suðurlandi í áttina vestur á Faxaflóa.
Skipstjórarnir fullyrtu að enn væri loðna í hundraða þúsunda tonna tali á miðunum.
Síðar kom í ljós að þrátt fyrir stöðvunina lá við nærri að hinir veiðiglöðu skipstjórar hefðu klárað loðnuna upp til agna.
Þótt það kunni að vera að allt í lagi sé að ganga til verks gagnvart loðnunni núna sýnist mér bara alltof mikil óvissa ríkja til þess að taka hana þá áhættu, sem nú virðist í tísku að taka á öllum sviðum vegna slæms ástands.
Og menn virðast reiðubúnir til að taka gríðarlega áhættu gagnvart afleiðingum hvalveiðanna að ekki sé minnst á kröfu Framsóknarmanna og annarra um að sækja nú harðar fram í stóriðjuframkvæmdum en nokkru sinni fyrr.
![]() |
Loðnukvóta strax |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)