Athyglisverðar tölur: 3 af 7, 3 af 6 og 4 af 30.

Á ráðstefnu í dag um áhrif kvenna í stjórnmálum var það nefnt að við síðustu kosningar hefðu aðeins verið sjö konur í efstu sætunum framboðslistanna á móti 29 körlum.

Íslandshreyfingin - lifandi land, getur ekki tekið til sín ábyrgð á þessu. Í 3 kjördæmum af 6 voru konur í efstu sætum hjá okkur og jafnræðið var víðtækara en þetta, - konurnar voru í efstu sætum jafnt á suðvesturhorninu og á norðanverðu landinu og listarnir voru fléttulistar niður úr með fullkomnu jafnræði kynjanna á alla lund. 

Í Norðvesturkjördæmi var Íslandshreyfingin eini flokkurinn sem bauð upp á konu í efsta sæti en niðurstaðan varð sú að allir 9 þingmennirnir urðu karlar. 

Af 30 efstu sætunum hjá hinum flokkunum voru aðeins 4 konur í efstu sætum. Í stefnuskrá okkar og málflutningi lögðum við mikla áherslu á jafnréttis-, mannréttinda- og lýðræðismál.

En önnur málefni áttu meira hug þáttastjórnenda og fulltrúa í umræðuþáttum, - þau virtust einfaldlega ekki vera "in" og alla kosningabaráttuna máttum við hafa okkur öll við að koma í veg fyrir að virkjana- og stóriðjumálunum yrði útrýmt úr umræðunum.   


150 milljarða offjárfesting, bara í bílum ?

Dæmi um offfjárfestingar Íslendinga í gróðærinu blasa alls staðar við. Hvergi er til dæmis hægt að skima um utan húss án þess að sjá bíla, sem augljóslega eru jafnvel mörgum milljónum dýrari en sem svarar því að fullnægja þörfum eigendanna.

Það lætur nærri að meðalkaupverð hvers íslensks bíls í gróðærinu hafi verið um 2,5 milljónir króna. Tugþúsundir manna keyptu bíla, sem voru mörgum milljónum króna dýrari en þeir bílar sem þeir gátu auðveldlega komist af með að eiga og margir tóku jafnvel mestallt bílverðið að láni.

Ótal dæmi sýna að lán til íbúðakaupa voru oft höfð svo há að hægt var að láta bílakaup fljóta með í leiðinni sem viðbót. Á tímabili var nánast æpt á fólk að taka lán og veðsetja allt upp í topp. 

Þúsundir manna töldu sér trú um að þeir græddu þeim mun fleiri milljónir sem þeir keyptu sér dýrari bíla, af því að gengi krónunnar var skráð allt of hátt og bílarnir fengust því í raun á allt að 40% afslætti, einkum pallbílarnir, sem verktakarnir alráðu fengu flutta inn með sérstökum fríðindum. 

Þetta var svipað hugarfar og fyrstu áratugina í sólarlandaferðunum þar sem sumir Íslendingar drukku eins og berserkir allan tímann til að "græða" sem mest á lágu vínverði erlendis. 

Ef við gefum okkur að meðakaupverð hvers bíls á Íslandi á núgildandi gengi sé einnni milljón króna hærri en þurft hefði að vera, hefur offjárfesting í bílum numið samtals 150 milljörðum króna!

Á hafnarbökkum standa nú 4000 nýir óseljanlegir bílar og ef meðalverð þeirra er talið um 2,5 milljónir króna er þar um að ræða 10 milljarða króna fjárfestingu sem engum gagnast.

Það væri fróðlegt að reikna út hvað gagnslaus offjárfesting í nýjum húsum nemur mörg hundruðum milljarða króna og áætla hve miklu betur þjóðin væri stödd ef svona stór hluti hennar hefði ekki látið blekkjast af fagurgala snillinganna sem bjuggu spilaborgina miklu til.  

 


mbl.is Laugin kostar 1,8 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engum ertu líkur....

Það eru ekki allir sem fá skeyti á borð við það sem lesið var upp í sjötugs afmæli Jóns Baldvins Hannibalssonar. Það kom frá Litháen þar sem Jón Baldvin er í hávegum hafður sem einhver mesti velgjörðamaður þeirrar þjóðar og raunar þjóða Eystrasaltslandanna.

Það er ekki öllum gefið sem Jóni Baldvini er gefið að ná hámarki fjörs, snerpu og snarprar og leiftrandi hugsunar þegar komið er á vel fram á eftirlaunaaldur. Mannkynssaga geymir nöfn manna, sem þessu hafa áorkað, og nægir að nefna nöfn eins og Winston Churchill, Charles De Gaulle og Konrad Adenauer.

Njörvuð staðalhugsun þjóðfélagsins afneitar hins vegar oft slíkum mönnnum og aldrei var það meira áberandi en þegar bankasápukúlan var blásin sem mest upp og hrein æskudýrkun fór með himinskautum.

Með þessu er ég ekki að segja að ekki sé þörf á frumkvæði, nýsköpun og oft byltingarkenndum og frjóum hugmyndum sem ungt fólk færir venjulega með sér. Þvert á móti má ekki kæfa allar nýjar hugmyndir í fæðingu heldur virkja þennan kraft. En það þarf að gera í jafnvægi kynslóðanna sem bæta hver aðra upp og það er fráleit og skaðleg ályktun að afgreiða alla þá sem komnir eru á eftri ár með lýsingarorðum eins og stöðnun, afturhald, slen og elliglöp.

Hvern mann á að meta eftir verðleikum hans sjálfs, óháð aldri, kyni, þjóðerni, kynþætti eða trúarbrögðum. Ég flutti Jóni Baldvini 24 sekúndna pistil í afmæli hans í gær, svohljóðandi:

Engum ertu líkur.

Engan snilld þín svíkur.

Enginn er hér slíkur

sem á svo frábært kvon.

Þú ert stórvel skaptur.

Þinn er ógnar kraftur.

Þess vegna við spyrjum og það er von,

hvort þinn tími komi aftur, Jón Baldvin Hannibalsson.


Bloggfærslur 22. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband