28.2.2009 | 09:18
Stóra myndin: Íhald og Framsókn í frí !
Sem félagi í fyrsta og eina íslenska stjórnmálaflokknum, sem skilgreinir sig hvorki til hægri né vinstri, set ég þau mál ofarlega sem skipta munu miklu máli fyrir milljónir Íslendinga, sem eiga eftir að byggja þetta land.
Þá liggur beint við að skoða, hverjar eru aðalástæður þeirra verka, sem hafa verið unnin og stefnt er að að vinna og ganga á rétt afkomenda okkar og stangast á við kröfur um sjálfbæra þróun og endurnýjanlega orku.
Eftir kosningarnar 2007 kom í ljós að í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn reyndist Samfylkingunni um megn að standa við kosningaloforð sín um hlé á stóriðjuframkvæmdum þar til búið væri að rannsaka íslensk náttúruverðmæti og forgangsraða þeim. Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem hafði greitt atkvæði gegn Kárahnjúkavirkjun, fékk ekki rönd við reist.
Í því samstarfi sem núverandi ríkisstjórnarflokkar eiga við Framsóknarflokkinn fær VG-ráðherrann Kolbrún Halldórsdóttir heldur ekki reist við því rönd að stóriðjuhraðlestin verði látin bruna áfram. Skilyrði Framsóknarflokksins fyrir því að verja stjórnina falli er að haldið verði stanslaust áfram að herja á íslensk náttúruverðmæti án tillits til afleiðinganna.
Hvað má nú lesa út úr þessu? Jú, einfaldlega það að meðan annar hvor hinna innmúruðu stóriðjuflokka hefur úrslitaáhrif á stjórnarmyndun verður ekki snúið við á þessari óheillabraut.
Eina vonin til þess að hægt verði að spyrna við fótum er að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn fari í endurhæfingu og frí.
Þetta eru þeir tveir flokkar sem með tólf ára slímsetu sinni í ríkisstjórn spillingar, sjálftöku- og oftökustjórnmála bera mesta ábyrgð á efnahagshruninu og skammtímagræðginni, sem því olli og hernaðinum gegn landinu.
Nú er höfuðnauðsyn að þeir fari á varamannabekkinn í minnst fjögur ár, báðir tveir. Ef .það kostar vinstri stjórn verður svo að vera og ég styð það þótt ég telji mig ekki vinstri mann, heldur frjálslyndan miðjumann.
Stundum verður stóra myndin að hafa forgang og það að horfa til framtíðar. Það á við nú.
![]() |
Skýr vinstrisveifla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)