3.2.2009 | 23:46
Minnir mig á skelfileg augnablik.
Atvikið þegar nemandinn í fallhlífarstökkinu lenti með deyjandi leiðbeinanda vekur vondar minningar í huga mér.
Ég varð fyrsti farþeginn í loftbelgsflugi á Íslandi 1976 á skelfilegan hátt. Vindurinn var allt of mikill og flugstjórinn sem stóð í körfunni sagði mér að halda henni fastri ásamt aðstoðarmönnum á meðan hann kynti loftbelginn með heitu lofti svo að loftbelgurinn reis smám saman skáhallt upp í loftið vegna vindsins.
Þá hrópaði flugstjórinn: "Þegar ég segi: Sleppa!, - eiga allir að sleppa nema Ómar. Þú heldur takinu, Ómar, og klifrar um borð."
Um leið og allir slepptu nema ég fóru loftbelgurinn og karfan neðan í honum á fleygiferð eftir túninu á Álftanesi, sem við vorum á. Ég komst ekki um borð en hékk á körfunni.
Karfan endasentist eftir túninu með mig hangandi utan á henni og fór í gegnum girðingu og grjórt við Álftanesveginn. Bæði stígvélin mín urðu eftir í girðingunni.
Karfan fór síðan á fleygiferð yfir Álftanesveginn og í gegnum urð og aðra girðingu þar. Enn hékk ég utan á henni.
Það var búið að tilkynna fjölmiðlunum það að þetta yrði fyrsta loftbelgsflug með farþega á Íslandi.
Þá loksins lyftust belgurinn og karfan frá jörðu með mig enn hangandi utan á körfunni. Skyndilega áttaði ég mig á því að ég myndi ekki komast upp í körfuna heldur hanga bjargarlaus utan á henni, nema að flugstjórinn kæmi mér til bjargar.
Ég hafði búist við að flugstjórinn hjálpaði mér en hann var greinilega búinn að gleyma mér eða afskrifa mig og kynti gashitatækið eins og óður væri. Hávaðinn í gastækinu var svo mikill að hann heyrði ekki hróp mín.
Þá kom eitt skelfilegasta augnablikið í lífi mínu þegar ég sá jörðina fjarlægjast þegar belgurinn þeyttist upp á við og áttaði mig á því að ég gæti ekki haldið takinu miklu lengur.
Til allrar hamingju kom niðurstreymi og belgurinn lækkaði flugið á ný en þá tók við önnur skelfing: Karfan byrjaði að snúast og á tímabili virtist svo sem ég yrði öfugu megin á henni, miðað við stefnu belgsins undan vindinum, og að hún myndi skella þannig á jörðinni að hún kremdi mig undir sér.
Enn var heppnin yfir mér. Karfan skalll í jörðina eftir að hafa snúist í heilan hring og ég missti takið, losnaði frá henni og kútveltist í móanum.
Nokkrir blaðamenn urðu vitni að þessum ósköpum og voru fegnir að sjá mig koma haltrandi til baka á sokkaleistunum með blóðuga fætur eftir grjót og gaddavír. Ég er enn með ör á hægri fæti eftir þessar hrakfarir.
Ekki var til setunnar boðið, heldur þeyst af stað og farið á eftir belngum í flugvél. Endalok ferðar belgsins urðu þær að hann flaug á háspennulínu í Melasveit, hálfbrann og skall niður á tún um leið og hann kortslúttaði sveitinni !
Flugstjórinn marðist en slapp óbrotinn.
Eftir á fékk ég þær upplýsingar að svona loftbelg, sem lyft er af heitu lofti, megi ekki taka á loft nema mest 3-4 hnúta vindi. Vindurinn í flugtakinu á Álftanesi var hins vegar 25-30 hnútar !
![]() |
Í fyrsta fallhlífarstökkinu með látnum leiðsögumanni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
3.2.2009 | 23:23
Framsókn tekur tvö ráðuneyti á einum degi.
Ég sagði í Silfri Egils í fyrrdag að Framsókn myndi standa í ríkisstjórnarflugvélinni fyrir aftan flugstjórana Jóhönnu og Steingrím, anda ofan í hálsmálið á þeim og rífa í stýrin.
Framsókn reif tvisvar í stýrin í dag. Fyrst var það kunngjört að hún stjórnaði virkjana- og umhverfismálum og að Kolbrún Halldórsdóttir væri bara ráðherra til málamynda.
Síðan reif hún stýrið af Steingrími í hvalamálinu og gerði honum grein fyrir því að í sjávarútvegsmálum væri hann bara ráðherra til málamynda og að Framsókn réði þar ferð.
Hvorki Steingrímur né Kolbrún höfðu áttað sig á því að Framsókn ræður ríkjum í ráðuneytum þeirra og það verður fyrst að spyrja Birki Jón og Siv, áður en farið er af stað með ákvarðanir eða stefnumótun.
Og nú er spurningin: Hvaða ráðuneyti tekur Framsókn á morgun ?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.2.2009 | 16:23
Kviðdómur þjóðarinnar og ný ákvæði.
Á Íslandi er ekki fyrir sú hefð um kviðdóm sem ýmsar aðrar þjóðir hafa og tryggir þátttöku almennings í stjórnvaldsathöfnum á sviði dómsmála.
Nýr þjóðfundur á Íslandi, 158 árum eftir hinn fyrri árið 1851, gæti markað upphaf að aukinni þátttöku og áhuga almennings á stjórnmálum og stjórnvaldsathöfnum sem er einn af grunnþáttum sanns og heilbrigðs lýðræðis og sáttar í samfélaginu.
Þess vegna skiptir val fulltrúa á stjórnlagaþing miklu máli. Á þinginu þarf að sitja nokkurs konar kviðdómur þjóðarinnar sem ásamt kunnáttumönnum hliðstæðum dómurum erlendis, sem setur okkur þau lög sem hefur vantað svo sárlea
Mikilvægt er að inn í stjórnarskrá séu tekin atriði sem vantar í hana nú en hafa gefist vel í öðrum löndum.
Nefna má ákvæði í finnsku stjórnarskránni sem á að tryggja rétt komandi kynslóða gagnvart því að núlifandi kynslóð hrifsi til sín stundargróða með fyrirsjáanlegum óafturkræfum áhrifum á frelsi og kjör afkomendanna.
Að baki þessara ákvæða er grunnhugsunin um sjálfbæra þróun í ætt við það sem við Íslendingar samþykktum í orði á Ríó-ráðstefnunni fyrir 18 árum en höfum í verkum okkar virt að vettugi.
Sjálfbær þróun eða nýting er sú þróun sem ekki skerðir möguleika komandi kynslóða til vals á sinni þróun eða nýtingu.
Þessi ákvæði í finnsku stjórnarskránni setti það miklar hömlur og tafir á að þar í landi yrði í örvæntingu kreppunnar upp úr 1990 farið í stórvirkjun fyrir verksmiðjurekstur að hætt var við það og farnar aðrar leiðir sem reyndust mun heppilegri þegar upp var staðið, - leiðir nýtingar mannauðs og ósnortinnar náttúru.
Stendur ósnortin náttúra Finnlands þó langt að baki náttúruundrum Íslands.
Víða í löggjöf má finna dæmi um það að það getur gagnast okkur vel sem best hefur gefist hvað snertir stjórnarskrá og stjórnarfari annarra landa. Við eigum að nýta okkur reynslu þeirra af stjórnlagaþingum.
![]() |
Lýðræðisskólinn sem þjóðin nam aldrei við |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.2.2009 | 09:54
Davíð bætist við Jón Baldvin í "Sögu Jóhönnu."
Ummæli Jóhönnu Sigurðardóttur um Seðlabankastjórnina eru auðvitað pólitísk og bætast við pólitíska sögu hennar í laginu"Saga Jóhönnu" sem heyra má spilaða í tónlistarspilaranum við hliðina á þessum bloggpistli og einnig fyrir neðan hann. Jóhanna glímdi á sínum tíma bæði við Davíð og Jón Baldvin og nú er röðin komin að Davíð hjá henni. Hún talar pólitískt vegna þess að stjórn peningamála þjóðarinnar flokkast undir stjórnmál.
Fyrsti Seðlabankastjórinn, Jóhannes Nordal, var ekki stjórnmálamaður og heldur ekki Jón Sigurðsson. En síðan seig á pólitísku hliðina og síðustu yfirbankastjórarnir hafa verið fyrrverandi stjórnmálaleiðtogar og stjórn bankans lituð af slíkum.
Þar að auki hefur stefna bankans síðustu ár verið pólitísk eins og sjá má af þessum fáu dæmum:
Stefna bankans var eitt af því sem olli allt of háu og uppspenntu gengi krónunnar. Afleiðingin varð kaup- fjárfestinga- og lántökuæði vegna þess að allt sem keypt var fékkst með 30-40% raunafslætti. Skuldir heimilanna fjórfölduðust og skuldir fyrirtækjanna þrefölduðust á nokkrum árum. Íslensk heimili urðu þau skuldsettustu í heimi í miðju "góðæri" sem byggt var að mestu úr upphugsuðum verðmætum. Sjávarútvegurinn leið svo fyrir skakka gengisskráningu að hann varð að skuldsetja sig út á ystu nöf gjaldþrots.
Bankinn skellti skollaeyrum árum saman við aðvörunum um að það byði hættu heim að stórauka ekki við gjaldeyrisvarasjóðinn.
Vaxtastefna bankans varð til þess að búa til Daemoklesarsverð jöklabréfanna sem hangir yfir þjóðinni og er eitt af því sem veldur því að við neyðumst til að búa við gjaldeyrishöft.
Bankinn losaði um bindiskyldu bankanna og notaði ekki vald sitt til að krefjast aukins lausafjár þeirra. Davíð Oddsson tafði það eins lengi og honum var unnt að við leituðum til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.
Hann sagði dýrustu setningu Íslandssögunnar, "við borgum ekki", sem spiluð var aftur og aftur á ljósvakamiðlum um allan heim og rústaði í einu vetfangi æru og heiðri þjóðarinnar.
Í báðum dagblöðunum fyrir nokkrum dögum voru rakin ummæli hans síðasta árið, þau borin saman við veruleikann og sýnt fram á að hann virtist lifa í öðrum heimi. Það er þörf á að breyta þeirri pólitík.
![]() |
Yfirlýsingar jaðra við einelti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
3.2.2009 | 09:22
Gott væri að draga Björg í bú.
Ég man ekki hve oft Alþingi hefur kosið nefndir til að endurskoða stjórnarskrána. Nefndin sem endurskoðaði hana fyrir lýðveldisstofnunina gerðir lítið nema að setja forseta í staðinn fyrir kóng. Meira að segja er skylt að flagga fyrir forsetanum á afmælisdegi hans eins og áður var flaggað fyrir kónginum !
Þær stjórnarskránefndir sem hafa verið skipaðar á lýðveldistímanum hafa litlu breytt. Þessi leið verður að teljast fullreynd og komið að því að uppfylla hugsjónir Vilmundar Gylfasonar um uppstokkun á stjórnarskránni með sérstöku stjórnlagaþingi.
Samsetning stjórnlagaþingsins skiptir miklu máli. Ef valið verður á það eftir línum flokkaveldisins gefur það ekki góðar vonir um útkomuna, jafnvel þótt þingmenn og ráðherrar megi ekki sitja á því þingi. Flokkarnir munu væntanlega eiga úr góðu úrvali fyrrverandi þingmanna og ráðherra að velja.
Björg Thorarensen er gott dæmi um þann mikla mannauð sem við eigum á flestum sviðum til að takast á við þau vandamál og úrlausnarefni sem stjórnmálamönnum hefur mistekist að ráða við. Hún er sérfræðingur á sviði stjórnarskráa og okkur veitir ekki af að
Nafn hennar vekur góðar hugrenningar. Ég var í fimm sumur í sveit hjá nöfnu hennar Runólfsdóttur, ömmusystur minni, sem hafði meiri áhrif á mig en nokkur önnur manneskja utan foreldra minna. Ég ætla að blogga um Björg Runólfsdóttur við tækifæri en hún skipar stóran sess í bókinni "Manga með svartan vanga" ef einhver hefur áhuga á að kynnast sögu hennar.
![]() |
Björg kaus að vinna að nýrri stjórnarskrá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)