"Helst þannig..." Dæmigerður fyrirvari.

Ég var að tala við ágætan mann í kvöld sem sagði alltof algengt að stjórnmálamenn gerðu fyrirvara um sem flesta hluti þannig að á endanum væri oft ekkert að marka loforð þeirra. Hann líkti svona loforðum við stöðvunarskyldumerki þar sem í lögum væru settir ýmsir fyrirvarar um það að bílstjórum væri skylt að stöðva bílinn.

Það birti yfir mér þegar að því var lofað í stjórnarsáttmálanum að leyfa þeim framboðum sem þess óska að taka upp persónukjör á framboðslistum sínum. Á blaðamannafundi í morgun ítrekaði Steingrímur J. Sigfússon þetta.

Ég hef í vetur rökstutt það hve auðvelt þetta væri. Aðeins þyrfti að bæta einni setningu í 82.grein kosningalaga um að þetta væri heimilt og það gæti tekið gildi strax í kosningunum í vor.

En í ræðu sinni í útvarpsumræðum í kvöld slær forsætisráðherra skyndilega varnagla sem setur þetta mál í óþægilega óvissu. Hún segir: "...opnað verður á möguleika þess að taka upp persónukjör í kosningum til Alþingis HELST ÞANNIG AÐ ÞÆR KOMIST TIL FRAMKVÆMDA Í KOSNINGUM Í VOR."

Alveg dæmigerður fyrirvari stjórnmálamanns, sem gefur undir fótinn með það að þótt þetta eigi "HELST" að koma til framkvæmda í vor þá geti hugsanlega ekki orðið af því.

Jóhanna opnar á þann möguleika með orðinu "helst" að þessi ríkisstjórn geti ekki komið í verk að setja eina setningu inn í ein lög.

Einu sinni stóð í umferðarlögum: "Stefnuljós bæri að gefa, einkum þegar..." og síðan kom upptalninga á aðstæðunum þegar gefa ætti stefnuljós. Í praxis varð þessi lagagrein gagnslaus, vegna þess að orðið "einkum" gaf til kynna að þetta væri ekki fortakslaus skylda.


mbl.is Opnað fyrir persónukjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smá leiðréttingar á "Sögu Jóhönnu."

Já, gárungar heimsins jafnt sem innfæddir finna margt til að gantast með varðandi Ísland þessa dagana.

Og rétt skal vera rétt. Tvær smá leiðréttingar vegna Moggafréttar:

Ég var á leið á skemmtun undir Eyjafjöllum en ekki á leið til Akureyrar þegar lagið og textinn "Sagan af Jóhönnu" urðu til í meginatriðum.

Eins og sjá má af hendingunni "Svo ætla ég að segja að sumir ættu að þegja..." hefur þarna slæðst inn villa hjá mér.

Setningin, sem tekin er beint upp úr ljóði Ása í bæ, er auðvitað svona á diskinum og tónlistarspilaranum hér við hliðina á blogginu: "Svo verð ég bara að segja að sumir ættu að þegja...."


mbl.is Gerir óspart grín að Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framhald loftbelgssögunnar.

Ég reyni yfirleitt að láta bloggpistla mína ekki vera of langa og þess vegna vantaði framhaldið á söguna af loftbelgsferðinni.

Það er svona: Átta árum eftir loftbelgsferðina þegar ég hélt að ég væri að verða laus við þessa slæmu en samt ljúfsáru minningu var ég minntur óþyrmilega á hana á óvæntan hátt.

Tímaritið Samúel var þá í aðalgrein sinni með risavaxna forsíðumynd og fyrirsögn um það sem tímaritið kallaði "Stærsta hasssmygl Íslandssögunnar."

Aðeins einn maður sást á þessari forsíðumynd. Það var ég.

Tímaritið hafði komist yfir eina af ljósmyndunum, sem teknar voru áður en flugtaksbrun loftbelgsins byrjaði og á henni var þessi loftbelgur í flugtaksstöðu og ég hélt þar í hann dauðahaldi !

Loftbelgurinnn hafði nefnilega síðar eftiri viðgerð verið notaður sem felustaður fyrir hassið sem smyglað var af loftbelgsmótum erlendis inn í landið !

Önnur viðbót: Eftir að ég hrataði af belgnum kynti flugstórinn gashitavélina sem ákafast en tókst samt ekki betur til en svo að hann lenti á sjónum í Bessastaðatjörn og þar eyðilögðust myndavélarnar sem ég hafði ætlað að nota til að taka myndir í fluginu. Ef ég hefði verið um borð og belgurinn þyngri sem nam minni þyngd hefði hann líklega sokkið með okkur báða þar.

Flugstjóranum tókst að láta belginn lyftast upp úr sjónum en stefndi þá hraðbyri beint á stóra gluggann á Bessastöðum !

Í stað þess að koma svífandi inn um gluggann á 25 hnúta hraða til fundar við forsetann tókst honum þó með naumindum að láta belginn lyftast yfir Bessastaði.

Ég fór til Reykjavíkur og elti loftbelginn á FRÚnni. Á tímabili virtist sem belgurinn myndi lenda á Akrafjallinu en uppstreymið við fjallið kom til bjargar og lyfti honum yfir fjallið. En litlu munaði.

En nú stefndi belgurinn á Skarðsheiði, sem er miklu hærra fjall. Þetta skynjaði flugstjórinn og stýrði í tæka tíð til lendingar í Melasveit.

Ég lenti á Narfastaðamelum þar rétt hjá og sá hvernig belgurinn hvarf handan við hæð. Síðan gaus upp stór eldrauður blossi og mér varð illt við því að nú hugði ég að flugstjórinn mikli væri ekki lengur meðal lifenda.

En þegar við komum að túninu var hann þar sviðinn, meiddur og draghaltur, en belgurinn lá afvelta undir háspennulínu allur brunnin að neðan.

Að öllu þessu eru ótal vitni en sumar sannar sögur eru einfaldlega þannig að ekkert skáld kæmist upp með það að búa slíkt til nema vera vændur um allt of villt hugmyndaflug sem enginn gæti trúað.

Af einhverjum ástæðum er allt líf mitt fullt af svona sögum.


mbl.is Ómar Ragnarsson: „Skelfileg lífsreynsla“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við Steingrímur og Volvoinn eldumst.

Mér er minnisstætt símaviðtal sem ég átti fyrir nokkrum árum við Sigrúnu Magnúsdóttur, kaupfélagsstjóra Kaupfélags Bitrufjarðar, sem tíu árum áður hafði verið eina kaupfélag landsins, sem skilaði hagnaði á þeim tíma sem Sambandið og kaupfélögin hrundu. Þá heimsóttti ég hana, gerði um þetta frétt og hafði heyrt að kaupfélagið væri enn rekið með ágóða, tíu árum síðar.

"Hvernig gengur í þessari fámennu sveit ?" spurði ég."Hefur fólkinu haldið áfram að fækka ?" "Nei svaraði hún", við erum ennþá jafn mörg og enginn hefur flutt burtu á þessum tíu árum."

"Þetta eru góðar fréttir", sagði ég.
"Nei, þetta eru slæmar fréttir," svaraði hún.
"Af hverju ?" spurði ég.
"Af þvi að við erum öll orðin tíu árum eldri," svaraði hún.

Þetta verður eitt aðal vandamál Íslendinga næstu árin. Ungt og miðaldra fólk flytur af landi brott og það eldra verður eftir og heldur áfram að eldast og verða meiri byrði á heilbrigðis- og tryggingarkerfinu sem færra ungt fólk verður að standa undir.

Sífellt eru framleiddir sparneytnari og hagkvæmari bílar og af þeim sökum er ekki gott að flotinn verði eldri. En við búum samt óvenju vel til að halda í horfinu og það er hægt að spara og nota sparneytnari og ódýrari bílana meira í daglegt snatt, jafnvel langferðir.

Ég nota til slíks ódýrasta og minnsta bíl landins, og hef meira að segja farið oft á honum um allt land og líka upp á norðausturhálendið.

Vegna þess að börnin mín vissu að svona akstursmáti hafði verið mér kær í hálfa öld gáfu þau mér einkanúmerið "Edrú" þegar ég varð sextugur.

Hermdu upp á mig þau ummæli mín að ég myndi ekki vilja hafa einkanúmer nema það hefði góðan boðskap að færa. Boðskapurinn "Edrú" er algildur, - gilti til dæmis um efnahagsfyllerí okkar Íslendinga.

Víkjum loks að heiti þessa pistils. Mér finnst umræðan um gamla Volvoinnn hans Steingríms J. Sigfússonar hafa verið á villigötum. Talað um það þetta sé eyðslufrekur og mengandi bíll og að Steingrímur sendi vond skilaboð og sé að hræsna með því að koma á honum til Bessastaða. Venjulega aki hann meira að segja um á dýrum Landcruiser-jeppa.

Þótt ég reyni yfirleitt að vera á pínu-Fíatinum mínum við hátíðleg tækifæri og senda með því víðtæk edrú-skilaboð vil ég skjóta skildi fyrir Steingrím. Volvoinn er ekki brúksbíll heldur nokkurs konar mubla, sem gaman er að gera sér dagamun á. Við hann eru tengdar gamlar og góðar minningar. Við Steingrímur eldumst og okkur þykir vænt um það besta úr fortíðinni.

Bílar af Volvo-gerð voru rómaðir fyrir að vera traustir, vandaðir og öruggir. Notkun slíks bíls við örfá tækifæri skiptir litlu í efnahagsreikningi þjóðarinnar. Hin hversdagslegu not mynda liklega vel yfir 95% kostnaðar, eyðslu og mengunar og eitt og eitt viðhafnartækfæri skipta þar nánast engu. Ég held að margir gagnrýnendur Volvo-uppátækisins hafi kastað úr glerhúsum.

Athöfnin og dagurinn voru mikilvæg í lífi Steingríms, líkt og smókingur eða brúðarkjóll við brúðkaup. Volvoinn litaði gráan hversdagsleikann. Boðorðið "halda skaltu hvildardaginn heilagan" þýðir í raun að við notum vel þau tilefni sem gefast til að gera okkur dagamun en verum að öðru leyti iðin, nýtin og sparsöm í önnum hversdagsins.


mbl.is 235 nýir bílar skráðir í janúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband