"Helst þannig..." Dæmigerður fyrirvari.

Ég var að tala við ágætan mann í kvöld sem sagði alltof algengt að stjórnmálamenn gerðu fyrirvara um sem flesta hluti þannig að á endanum væri oft ekkert að marka loforð þeirra. Hann líkti svona loforðum við stöðvunarskyldumerki þar sem í lögum væru settir ýmsir fyrirvarar um það að bílstjórum væri skylt að stöðva bílinn.

Það birti yfir mér þegar að því var lofað í stjórnarsáttmálanum að leyfa þeim framboðum sem þess óska að taka upp persónukjör á framboðslistum sínum. Á blaðamannafundi í morgun ítrekaði Steingrímur J. Sigfússon þetta.

Ég hef í vetur rökstutt það hve auðvelt þetta væri. Aðeins þyrfti að bæta einni setningu í 82.grein kosningalaga um að þetta væri heimilt og það gæti tekið gildi strax í kosningunum í vor.

En í ræðu sinni í útvarpsumræðum í kvöld slær forsætisráðherra skyndilega varnagla sem setur þetta mál í óþægilega óvissu. Hún segir: "...opnað verður á möguleika þess að taka upp persónukjör í kosningum til Alþingis HELST ÞANNIG AÐ ÞÆR KOMIST TIL FRAMKVÆMDA Í KOSNINGUM Í VOR."

Alveg dæmigerður fyrirvari stjórnmálamanns, sem gefur undir fótinn með það að þótt þetta eigi "HELST" að koma til framkvæmda í vor þá geti hugsanlega ekki orðið af því.

Jóhanna opnar á þann möguleika með orðinu "helst" að þessi ríkisstjórn geti ekki komið í verk að setja eina setningu inn í ein lög.

Einu sinni stóð í umferðarlögum: "Stefnuljós bæri að gefa, einkum þegar..." og síðan kom upptalninga á aðstæðunum þegar gefa ætti stefnuljós. Í praxis varð þessi lagagrein gagnslaus, vegna þess að orðið "einkum" gaf til kynna að þetta væri ekki fortakslaus skylda.


mbl.is Opnað fyrir persónukjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Tók eftir þessu líka. Nú er bara að hamra járnið meðan það er heitt.
Ég óttast hinsvegar að fyrirvararnir varðandi stjórnlagaþingið verði óyfirstíganlegir.

Sæmundur Bjarnason, 4.2.2009 kl. 23:53

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í Verkefnaskrá Jóku, nýju ríkisstjórnarinnar, segir meðal annars:

"Kosningalögum verður breytt með þeim hætti að opnaðir verða möguleikar á persónukjöri í kosningum til Alþingis."

PDF-skrá Verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar.

Þorsteinn Briem, 5.2.2009 kl. 00:35

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í framsögunni felst,
að fegurst Jóka telst,
og ekkert hefur elst,
í öllum fréttum helst.

Þorsteinn Briem, 5.2.2009 kl. 03:10

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rétt er það að það stendur að kosningalögunum verði breytt, en viðbótin "helstl þannig" að það taki gildi í næstu kosningum þýðir að hugsanlega dragist það til þar næstu kosninga að þetta taki gildi.

Ómar Ragnarsson, 5.2.2009 kl. 03:35

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ómar. Þegar Jóhanna Sigurðardóttir segist vilja að eitthvað verði "helst þannig" vill hún að það verði þannig. Og kosningalögunum verður örugglega breytt á yfirstandandi þingi.

Þegar karlmaður segir "það verður þannig" en kona "það verður kannski þannig" er merkingin sú sama. Það er ekki alveg í lagi með konu sem slær einhverju föstu.

Hins vegar eru verkefni þessarar ríkisstjórnar gríðarleg og einungis nokkrar vikur eftir af yfirstandandi þingi, því kosningar til Alþingis verða 25. apríl og trúlega verður ekkert þinghald síðustu 4-5 vikurnar fyrir kosningarnar.

Landsfundur Vinstri grænna verður 20.-22. mars og landsfundur Sjálfstæðisflokksins 26.-29. mars.

Alþingi var frestað 18. mars, um tveimur mánuðum fyrir síðustu alþingiskosningar, 12. maí 2007, en aukaþing var haldið 31. maí til 13. júní 2007.

Þar af leiðandi hefur ríkisstjórnin að öllum líkindum einungis sex vikur til að semja lagafrumvörp og koma þeim í gegnum allar umræður á Alþingi, mestu breytingum í sögu lýðveldisins.

Það verða því trúlega mestu afköst Alþingis, fyrr og siðar.

Alþingi - þingsetutími.


Lög og reglugerðir um alþingiskosningar.

Þorsteinn Briem, 5.2.2009 kl. 05:52

6 Smámynd: Offari

Ég held að þegar Jóhanna segir helst meini hún helst.

Offari, 5.2.2009 kl. 09:51

7 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Þetta mál, eins og önnur tækniatriði í stjórnarskrá á núverandi þing ekkert að vera að vasast í, þó þau virðist góð.

Það er hlutverk stjórnlagaþings að semja nýja stjórnarskrá, þar sem meðal annars yrði tekið á þessu máli.

Gestur Guðjónsson, 5.2.2009 kl. 10:13

8 Smámynd: Sævar Helgason

"Hún segir: "...opnað verður á möguleika þess að taka upp persónukjör í kosningum til Alþingis HELST ÞANNIG AÐ ÞÆR KOMIST TIL FRAMKVÆMDA Í KOSNINGUM Í VOR."

Jóhanna Sigurðardóttir , forsætisráðherra er ekki einræðisforingi- t.d eins og Davíð Oddsson var á sínum tíma. Þá var allt ákveðið af einum manni- jafnvel að lýsa yfir stríði við Íraq . Nú eru tímar víðtækrar samstöðu að renna upp. Forsætisráðherra gerði góða grein fyrir gildi samstöðu og sameiningar þjóðarinnar á þessum válegu tímum. Og er ekki mikilvægast nú að vinna að samstöðu á alþingi ?  Breyting á kosningalögum verður að njóta víðtæks stuðnings á alþingi.  Hvaða flokkur leggur í að skorast nú undan vilja þjóðarinnar - sem er aukið lýðræði ?

Sævar Helgason, 5.2.2009 kl. 10:20

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jóhanna var að greina frá sameiginlegri ákvörðun sem áður hafði verið kynntur fortakslaust af öðrum ráðherra og endutekið meira að segja. Ég er ekki að ásaka Jóhönnu fyrir einræðistilburði heldur að brýna ríkisstjórn hennar í því að framkvæma það sem upphaflega var sagt að væri stefna hennar allrar.

Persónukjörið og afnám 5% þröskuldsins eru einu lýðræðisumbæturnar sem þessi ríkisstjórn getur komið auðveldlega í gegn og látið virka í strax í næstu kosningum með því að setja eina setningu inn í kosningalögin og strika aðra út á öðrum stað.

Þetta er eins fljótvirk og einföld lagabreyting og hugsast getur. Aðeins viljaleysi getur úskýrt það ef þetta verður ekki að veruleika.

Ómar Ragnarsson, 5.2.2009 kl. 11:59

10 Smámynd: Sævar Helgason

 # 9.

Sammála þér. Ómar. 

Sævar Helgason, 5.2.2009 kl. 12:13

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gestur, ég minni á að á sínum tíma var þáverandi þing að "vasast í" að breyta kosningalögunum í þá veru sem þau eru núna og setja á 5% þröskuldinn.

Það er með vilja gert að hafa kosningalögin utan stjórnarskrá svo að ekki þurfi að breyta henni með öllu sem því fylgir til að fá fram aðkallandi breytingar.

Ómar Ragnarsson, 5.2.2009 kl. 13:41

12 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Ég er ekkert ósammála þér Ómar um þetta tiltekna efnisatriði, reyndar ekkert sérstaklega sammála heldur, tel að fara eigi í sem mest persónukjör með landið sem eitt kjördæmi. Svona breyting er bara silkihúfusaumaskapur utanum kosningakerfi sem er í grunninn óhentugt og býður upp á stýrt lýðræði, sem stýrt er af stjórnmálaflokkum, sem svo aftur býður heim spillingarhættu.

Þess vegna tel ég að þetta eigi að takast upp á sem breiðustum grunni á stjórnlagaþingi.

Gestur Guðjónsson, 5.2.2009 kl. 14:52

13 Smámynd: Sævar Helgason

Mikið svakalega er þetta Framsóknarlegt svar hjá þér, Gestur. 

Nú ganga margir óbundnir til kosninga og meta raunverulegan lýðræðisvilja flokkanna - núna- fyrir þessar kosningar. Ekki þokukenndar yfirlýsingar inní framtíðina.

Sævar Helgason, 5.2.2009 kl. 15:34

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

Lög um kosningar til Alþingis nr. 24 /2000:

108. grein. Þau stjórnmálasamtök koma ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa a.m.k. fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu. ..."

Þessi grein í núgildandi lögum getur komið í veg fyrir að til dæmis fern stjórnmálasamtök með 4% atkvæða hvert á landinu öllu fái mann kosinn á Alþingi, samtals 16% atkvæða í kosningunum. Þannig hefðu tæplega þrjátíu þúsund atkvæða í síðustu alþingiskosningum ekki fengið neinn mann kjörinn á Alþingi.

Það er ekki lýðræði, heldur það flokksræði sem hér hefur tíðkast og Alþingi ber skylda til að afnema STRAX, enda munu ný stjórnmálasamtök bjóða fram í alþingiskosningunum í vor og þau gætu fengið innan við 5% atkvæða hvert á landsvísu.

Alþingiskosningarnar 2007.

Þorsteinn Briem, 5.2.2009 kl. 17:43

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

Stjórnarskrá Íslands:

31. grein. Á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu til fjögurra ára. ...

Öðrum þingsætum en kjördæmissætum skal ráðstafa í kjördæmi og úthluta þeim til jöfnunar milli stjórnmálasamtaka þannig að hver samtök fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sína. Þau stjórnmálasamtök koma þó ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa minnst fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu."

Lög nr. 77/1999 um breytingu á 31. grein Stjórnarskrárinnar.

Þorsteinn Briem, 5.2.2009 kl. 18:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband