"Þegar jörðin þiðnar..." - Ný nöfn.

Í Kastljósinu var að enda stórgott viðtal við Björgu Thorarensen um stjórnlagaþing og stjórnarskrá. Fyrir fáum dögum var þetta nafn óþekkt meðað almennings. Þannig er um fjölda fólks sem nú sprettur upp á ýmsum sviðum og lætur að sér kveða. Mér fannst unun að hlusta á Björg.

Að sumu leyti ríkir svipað ástand hér og í austanverðri Evrópu þegar kommúnisminn riðaði til falls.

Hrafn Gunnlaugsson sagði mér eitt sinn frá því að þegar hann hefði verið á ferð í Sovétríkjunum um það leyti sem Glasnost og Perastroika voru að þíða hið helfrosna alræðisþjóðfélag hefði hann spurt heimamenn hvaða skoðun þeir hefðu á því sem væri að gerast.

Hann varð þess áskynja að margra áratuga kúgun hafði leitt til þess að fólk þorði ekki að tjá sig beint, og ef það fikraði sig í átt að því, sagðist það ekki segja neitt frá eigin brjósti um málið en bætti síðan við: "Á hinn bóginn er til rússneskt máltæki sem segir...."

Og í rússneskum máltækjum er úr nógu að moða.

Hrafn lagði sérstaklega á minnið eitt svarið við spurninguna um álit á ástandinu. Svarið var svona: "Ég vil ekkert segja um þetta mál frá eigin brjósti, en hins vegar er til alþekkt rússneskt máltæki sem er svona: Þegar jörðin þiðnar koma ormarnir upp."

Ég vil bæta við þetta og hafa orðtakið svona yfirfært á íslenskar aðstæður:
Þegar jörðin þiðnar koma ormarnir upp og grasrótin blómstar.


Kerfið bjó til hvatann.

Áfengisbannið í Bandaríkjunum bjó til hvata til lögbrota sem skapaði hrikalegt glæpaástand víða í landinu. Al Capone og John Dillinger voru gott dæmi um það. Þess vegna varð að afnema lögin. Þau gerðu ekki ráð fyrir mannlegu eðli.

Ég hef fyrir því heimildir sem segja mér að talsmaður eins bankans laug blákalt í sjónvarpi þegar hann sagði að þjónustufulltrúi, sem fór að hnýsast í gögn viðskiptavinar og kom honum síðan til að fjárfesta í áhættusjóði, hefði gerst brotlegur í starfi. Talsmaður bankans sagði að blátt bann lægi við því að þjónustufulltrúar mættu gera svona.

Þessu var þveröfugt farið. Boðin um að lokka fólk til að breyta sparnaði sínum komu að ofan og þjónustufulltrúum var umbunað fyrir.

Mér sagði nýlega maður einn að þjónustufulltrúi einn hefði ætlað að lokka sig til að færa sparnað sinn með því að segja sér ranglega að hann yrði að gera það.

Hann hefði þrjóskast við og komist að því að þetta væri ekki rétt.

Með ofansögðu er ég alls ekki að alhæfa um þjónustufulltrúa bankanna né það góða og gegna fólk sem vinnur þar "á gólfinu" og hefur nú margt mátt þola atvinnumissi í bankahruninu.

Persónulega kann ég engar aðrar sögur en góðar af þjónustufulltrúm bankanna og hygg ég að svo sé um flesta. En rétt eins og í kvótakerfinu og áfengisbanninu forðum stóðust sumir ekki freistingarnar sem kerfið bauð upp á.


mbl.is Grunur um brot bankastarfsmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...að færa frjókorn frá frjóhnappi frævils að fræni á frævunni."

Ég ætla að leggja fyrir ykkur próf. Prófið þið að lesa ofangreinda setningu á eðlilegum hraða. Ég gat það ekki fyrstu atrennu. Féll á prófinu.

Á hverjum degi göngumst við undir það próf sem lífið sjálft er. Öll veröldin morar í prófum og kröfum um hæfni. Hjá þeim verður ekki komist, hvorki í skólakerfinu né annars staðar.

En prófin og námsefnið þurfa að vera þannig að jafnræðis sé gætt milli nemenda og skólanna innbyrðis.

Aðalatriðið í skólastarfi er að vekja áhuga nemenda og mikilvægi góðra kennara verður seint ofmetið. Það getur skipt öllu máli hvernig námsefni er sett fram og matreitt.

Öll börnin mín hafa einhvern tíma verið kennarar í skólum og bróðir minn og móðir mín gengu samtímis í Kennaraskólann á sinni tíð. Maður er umkringdur kennurum, því að allar fjórar dætur mínar hafa kennaramenntun og þrjár hafa það að aðalstarfi.

Jónína, dóttir mín, sýndi mér nýlega eftirfarandi setningu úr námsefninu. Það varðar æxlun dulfrævinga.

Fyrri áfangi hennar felst í því "að færa frjókorn frá frjóhnappi frævils að fræni á frævunni."
Ég endurtek: "...færa frjókorn frá frjóhnappi frævils að fræni á frævunni."

Prófið þið sjálf að segja þetta á eðlilegum hraða: "...að færa frjókorn frá frjóhnappi frævils að fræni á frævunni."

Dásamleg setning en dæmigerð fyrir margt af því sem börnin okkar þurfa að læra. Síðar meir þegar komið er út í lífið veður nær óskiljanlegur, tyrfinn og oft órökréttur kansellístíll uppi mörgu hámenntuðu og gáfuðu fólki þegar það er komið út úr verksmiðjum skólakerfisins.

Minn magnaði fréttastjóri, Emil heitinn Björnsson, henti einu sinni í mig frétt sem ég hafði skrifað með þessum orðum:

"Nú hef ég eytt tuttugu mínútum af dýrmætum tíma mínum til þess að reyna að leiðrétta og koma einhverri hugsun í þessa óskiljanlegu þvælu, sem þú leggur fyrir mig! Sérðu hvernig fréttin lítur út núna! Ég er búinn að pára hverja leiðréttinguna af annarri út um allt og strika út, bæta við og strika aftur út!

Og þú hefur væntaleg eytt býsna löngum tíma til þessa að vinna þetta verk til einskis. Við hér á fréttastofunni höfum annað og þarfara að gera í tímahraki okkar og mannfæð en að stunda svona vinnubrögð.

Bæði fréttin þín og vinnan mín eru handónýt! Farðu fram og komdu aftur með þessa frétt skrifaða á máli sem fólkið skilur! Og komdu aldrei aftur til mín með annað eins rugl og bull !

Þetta hreif og ég verðð ævinlega Emil þakklátur fyrir þann íslenskuskóla sem hann leiddi okkur fréttamennina í.

Ég geymi enn í huga mér nokkrar gull-bull setningar, sem blaðamenn hafa skrifað og gauka þeim kannski að ykkur síðar. Eins og upphaf þessarar fréttar höfðu þær þó einn kost: Það gat verið skemmtileg ögrun að læra þær utanbókar.


mbl.is Inntökupróf slegin af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband