30.3.2009 | 23:23
Hefði átt að lána honum pólska Fiatinn minn.
Spurningin er hvort hinn pólski þingmaður, sem löggan nappaði undir áhrifum, hefði ekki átt að nota mína aðferð, sem pólski Fiatinn minn, tákn Póllands, ber með sér á númersplötunni.
Orðið "EDRÚ" sést vel ef þið stækkið myndina með því að tvísmella á hana.
Þegar ég varð sextugur gáfu börnin mín þetta einkanúmer á þeim forsendum að ég hefði einhvern tíma sagt að ég myndi ekki vilja hafa einkanúmer á bílnum mínum nema það bæri með sér jákvæðan boðskap.
Þessi gerð af Fiat 126 heitir "Maluch" í Póllandi, en það orð þýðir "Lilli". (Litli bróðir)
Á myndinni er hann á svonefndri Álftadalsleið á norðausturhálendinu með Fagradal og Herðubreið í baksýn.
Þessa leið fara yfirleitt aðeins öflugir jeppar en Lilli fór þetta létt þótt hann sé ódýrasti og næstminnsti bíll á Íslandi.
Fyrirrennari hans, Fiat 500) er sá minnsti, þessi guli á hinni myndinni.
Fiat 500 var framleiddur 1957-75 en "Maluch frá 1972-2000, alls 8,5 milljónir samtals af þeim báðum, einföldustu og ódýrstu bílum Evrópu á sinni tíð.
Bílarnir eru með sama undirvagn, vél og allt kram, en 1972 þótti Fiat 500 orðinn svo púkó og úreltur í útliti að yfirbyggingunni var breytt og gert kantað.
Núna þykir kantaða yfirbyggingin púkó og halló en útlit Fiat 500 er "in", alveg "geggt" flott !
Jafngamlir bílar af þessum gerðum sem jafnmikið hefur verið ekið, seljast þannig að Fiat 500 selst á 4-5 sinnum hærra verð en sá sem átti að vera svo nýtískulegur. Þetta kalla ég "karlmannatísku í stáli", og hún hefur kostað mannkynið margfalt meira en kventískan.
Og þó. Þegar ég sagði þetta við vin minn einn, svaraði hann: "Nei, þetta er konunum að kenna. Við verðum að vera á bílum sem ganga í augun á þeim !
![]() |
Epli urðu þingmanni að falli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.3.2009 | 22:57
"Bölmóðsblús".
Þótt virði Spron sé aðeins brot af því sem það var meðan allt var í hæstu hæðum er ekki öllu lokið. Lífið heldur áfram, jafnvel þótt menn verði að ylja sér við að fara með nokkurs konar bölmóðsblús til að blása út og rífa sig upp í framhaldinu.
Raulaði einmitt inn í dag hjá Vilhjálmi Guðjónssyni lag með nafninu Bölmóðsblús. Set það kannski seinna inn á tónlistarspilarann vinstra megin við bloggið mitt. Blúsinn er reyndar 15 ára gamall að stofni til en var aldrei fluttur opinberlega.
Ef þetta væri tónlistarmynd sæti maðurinn á bömmernum einmana með hundinum sínum og glamrar á gítarinn eftirfarandi:
BÖLMÓÐSBLÚS.
Ég á ekki einu sinni fyrir bús. /
Og ekkert get gert nema raulað minn bölmóðsblús./
Einn ég sit hér í argi og sút /
að því kominn að fríka hreint út. /
Vonlaus glamra, á gítarinn hamra /
á glundrinu dreypandi´af stút. /
En heldur en búsa - úr hálftómum brúsa /
er hollara´að drolla í hrolli með bolla /
og hafa með lafandi, drafandi tungunni bölmóð að blúsa. /
Það er ekkert að gera, ekki baun. /
Þetta´er andleg og líkamleg raun. /
Á minn gamla ég damla í daun /
þegar dáðleysið ýfir mín kaun. /
En heldur en búsa - úr hálftómum brúsa /
er ég sem dóni og róni og kóni í tjóni /
og amlóði´í viðbjóði og bölmóði á bömmer að búsa. /
Ekkert framundan, allt sýnist svart. /
Svekktur, tapsár og finnst það mjög hart. /
Fjandans kreppan, hún kemur við seppa /
sem kreist úr sér spangól fær vart. / (seppinn byrjar að spangóla)
En heldur en búsa - úr hálftómum brúsa.
Vælandi´um voðann og doðann og vaðandi hroðann /
óhemjan er emjandi í kremjandi bölmóði´að blúsa. / (seppi spangólar)
Ég drolla í hrolli - með bolla, /
drafandi, lafandi, vælandi´um voðann /
og doðann - og hroðann /
sem dóni og róni og kóni í tjóni /
svo hvekktur - og svekktur /
og hrekktur og blekktur, nýrekinn og skekinn /
amlóði´í viðbjóði /
en verð bara´að berjast og verjast og herja /
á hangsið - og flangsið /
og harka og skarka og telja´í mig kjarkinn /
sem framast að hamast sem fighter um nætur /
í óðum bölmóði´á bömmer ég brjálaður blúsa!!
Ég á ekki einu sinni fyrir bús !
Og ekkert get gert nema gargað minn bölmóðsblús !!
![]() |
MP banki eignast SPRON |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.3.2009 | 20:06
Mistök að nefna mútur ?
Í löngu viðtali við Guðjón Arnar Kristjánsson nefndi hann orðið "mútur" sem eina af þeim aðferðum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði notað til að ná fólki úr Frjálslynda flokknum yfir til sín.
Guðjón dró þetta orð síðan til baka hvað varðaði það fólk sem nýlega hefur farið úr flokknum en hefði átt að draga þessa fullyrðingu í orðinu "mútur" alveg til baka og biðjast afsökunar á henni vegna þess að svona orð eiga menn ekki að nota um pólitíska andstæðinga sína nema að hafa fyrir því sannanir.
Guðjóns vegna vona ég að notkun þessa eina orðs í löngu viðtali hafi verið fljótfærni af hans hálfu og vona satt að segja að hann dragi notkun þess ákveðið til baka. Annars munu allt of margir draga þá áylktun af notkun hans á þessu orði að þarna hafi ekki verið um mistök að ræða en það er ekki gott, hvorki fyrir hann né flokk hans.
Langflest það fólk sem myndað hefur Frjálslynda flokkinn kom þangað úr öðrum flokkum og margt af því komst á þing. Voru því boðnir gull og grænir skógar fyrir að koma í flokkinn ?
![]() |
Ná fólki frá okkur með mútum eða öðru |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
30.3.2009 | 13:59
Í átt til sjónarmiða Samfylkingar.
Þegar Viðreisnarstjórnin sat á sínum tíma, stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, kom hún því á að barnabætur voru greiddar til allra, óháð tekjum. Nú eru uppi hugmyndir hjá Framsóknarflokki og Litju Mósesdóttur hjá VG um að greiða öllum þeim sem skulda vegna húsnæðis úr ríkissjóði yfir línuna.
Tryggvi Þór Herbertsson hjá Sjálfstæðisflokki hefur líka reifað svipaðar hugmyndir.
Samfylkingin leggst hins vegar gegn þessu á þeim forsendum að á tímum gríðarlegs fjárskorts hins opinbera sé útilokað að greiða fólki fé sem ekki hafi fyrir það þörf. Bjarni Benediktsson setur fram svipuð sjónarmið varðandi bætur úr ríkissjóði.
Það er fróðlegt að sjá að mismunandi sjónarmið um þetta fara ekki alveg eftir því hvort fólk er hægra megin eða vinstra megin í litrófi stjórnmálanna og að það er ekki einhugur um þetta innan flokka.
![]() |
Þarf að auka tekjutengingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.3.2009 | 00:46
Ekki traustvekjandi.
Maður á kannski ekki að dæma menn eftir einu sjónvarpsviðtali en miðað við viðtal við Rick Wagoner sem ég sá í bandarísku sjónvarpi í októberbyrjun síðastliðið haust kemur ekki á óvart þótt Obama-stjórnin hafi krafist þess að hann viki.
Í þessu viðtali vakti þessi maður undrun mína fyrir sjálfumgleði, hroka og vissa veruleikafirringu. Hann virtist enga grein gera sér fyrir orsökum þess hvernig þessi bílarisi, sem bar ægishjálm yfir aðra bílaframleiðendur lungann úr síðustu öld, er nú kominn að fótum fram.
Þegar honum var bent á að lítil, nánast bílskúrsfyrirtæki, virðist vera búin að leysa vandamál varðandi rafbíla og aðrar nýjungar í takt við tímann, sem risafyrirtækið virtist fyrirmunað að geta, gerði hann lítið úr því og hlakkaði yfir því að vegna smæðar sinnar andspænis bílarisanum ættu hinar athyglisverðu nýjungar sem komið hafa fram enga möguleika á að verða raunhæfar.
Á bak við mannalæti Wagoners glytti í það sem marga hefur grunað og stórfyrirtækin hafa verið vænd um, en það er hvernig þau beita stærð sinni og aðstöðu í stjórnkerfinu til að kaffæra alla þá sem gætu ógnað þeim á nokkurn hátt.
Ég var nýlega að sjá tölur úr reynsluakstri á nokkrum "ofurbílum" fyrri tíma og vakti athygli mína að 1948 módelið af Tucker var langsneggsti og hraðskreiðasti bíllinn á sínum tíma og á flesta lund langt á undan sinni samtíð.
Útsendarar stórfyrirtækjanna beittu spillingarkenndu valdi sínu til að koma Tucker á kné. Í stjórnartíð Wagoners hefur GM verið á rangri braut í sama afneitunarstílnum og Bush-stjórnin var og engan veginn í takt við tímann. Afleiðingarnar blasa nú við.
![]() |
Forstjóri GM lætur af störfum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)