Hefði átt að lána honum pólska Fiatinn minn.

IMGP0280DSC00317Spurningin er hvort hinn pólski þingmaður, sem löggan nappaði undir áhrifum, hefði ekki átt að nota mína aðferð, sem pólski Fiatinn minn, tákn Póllands, ber með sér á númersplötunni.

Orðið "EDRÚ" sést vel ef þið stækkið myndina með því að tvísmella á hana.

Þegar ég varð sextugur gáfu börnin mín þetta einkanúmer á þeim forsendum að ég hefði einhvern tíma sagt að ég myndi ekki vilja hafa einkanúmer á bílnum mínum nema það bæri með sér jákvæðan boðskap.

Þessi gerð af Fiat 126 heitir "Maluch" í Póllandi, en það orð þýðir "Lilli". (Litli bróðir)

Á myndinni er hann á svonefndri Álftadalsleið á norðausturhálendinu með Fagradal og Herðubreið í baksýn.

Þessa leið fara yfirleitt aðeins öflugir jeppar en Lilli fór þetta létt þótt hann sé ódýrasti og næstminnsti bíll á Íslandi.

Fyrirrennari hans, Fiat 500) er sá minnsti, þessi guli á hinni myndinni.

Fiat 500 var framleiddur 1957-75 en "Maluch frá 1972-2000, alls 8,5 milljónir samtals af þeim báðum, einföldustu og ódýrstu bílum Evrópu á sinni tíð.

Bílarnir eru með sama undirvagn, vél og allt kram, en 1972 þótti Fiat 500 orðinn svo púkó og úreltur í útliti að yfirbyggingunni var breytt og gert kantað.

Núna þykir kantaða yfirbyggingin púkó og halló en útlit Fiat 500 er "in", alveg "geggt" flott !

Jafngamlir bílar af þessum gerðum sem jafnmikið hefur verið ekið, seljast þannig að Fiat 500 selst á 4-5 sinnum hærra verð en sá sem átti að vera svo nýtískulegur. Þetta kalla ég "karlmannatísku í stáli", og hún hefur kostað mannkynið margfalt meira en kventískan. 

Og þó. Þegar ég sagði þetta við vin minn einn, svaraði hann: "Nei, þetta er konunum að kenna. Við verðum að vera á bílum sem ganga í augun á þeim !  


mbl.is Epli urðu þingmanni að falli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður B Hjartarson

Ég get alveg (alla vega að mestu leiti) tekið undir það með "hinu" ungviðinu að 500 er "geggt" flottur , enda er ég vissulega hlutdrægur , jú fyrsti bíllinn sem ég eignaðist var svona á litinn og hét Fiat 600. Er ég átti hann var ég á vertíð í Þorlákshöfn , ungur og óreyndur bílstjóri og vitlaus eftir því . Man eitt sinn er ég þurfti austur (bjó í Rvk.) , þá var slæm færð er ég kom upp í Lögbergsbrekku , var að stoppa menn er voru að koma að austan (vegna hræðslu) og þeir sögðu mér að detta ekki í hug að fara þetta því ég kæmist þetta aldrei , en ég vildi mæta og átti að mæta um borð og bíllinn fór hvern skaflinn á fætur öðrum , í öðrum gír , með þurrkurnar á fullu , í gegn um (yfir) skaflana fór Fiatinn , afturdrif og vélin afturí .

Hörður B Hjartarson, 30.3.2009 kl. 23:43

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég geymi líka eitt stykki Fiat 600 sem kandídat í bílasafn sem á að heita Örbílasafn Íslands. Fiat 600 vr nefnilega minnsti bíll á Íslandi á árunum 1956-59. Þá tók við NSU Prinz sem var minnstur í þrjú ár og ég varðveiti líka slíkan bíl.

Það er hátt undir þessa bíla og þeir eru því betri í erfiðum aðstæðum sem brattinn er meiri, því að vélin er vel fyrir aftan afturhjólin og þyngdarpunkturinn færist því nær drifhjólunum þegar ekið er upp brekkur.

Ómar Ragnarsson, 30.3.2009 kl. 23:52

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þú ættir nú að fara í heimsreisu á Fiat 500 með Eið Guðnason, fyrrverandi sendiherra í Færeyjum, Ólaf Egilsson, fyrrverandi sendiherra í Rússlandi og Kína, og Davíð Oddsson fyrrverandi forsætisráðherra.

Höfuðið á Ólafi gæti staðið upp úr þakinu og þið gætuð þrasað um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum en Eiður kvartað undan Alzheimersbröndurum Davíðs.

Tveir af Briemsættinni í reisunni.

Getur ekki klikkað.

Þorsteinn Briem, 31.3.2009 kl. 00:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband