Jóhanna, hentugur millileikur?

Formennska Jóhönnu Sigurðardóttur er hentugur millileikur og veldur minnstum óróa í Samfylkingunni, sem þarf á stöðugleika að halda fram að kosningum.

Eitt af því sem reyndist óhentugt í fyrri ríkisstjórn var sú úrelta hefð að í tveggja flokka stjórn væri annar oddvitinn forsætisráðherra og hinn fjármálaráðherra. Þetta hefur ævinlega bitnað á þeim flokki sem hafði utanríkisráðuneytið, einkum þó hin síðari árin þegar það embætti hefur haft í för með sér á meiri vinnu ráðherrans út um allan heim.

Það er sama hvað formaður flokks er duglegur, - fjarvera hans erlendis og bundinn hugur við verkefni út á við bitnar ævinlega á starfi hans sem formaður á innanlandsvettvangi. Hann verður meira og minna úr sambandi við grasrótina heima.

Þetta háði til dæmis Halldóri Ásgrímssyni og Framsóknarflokknum á sínum tíma.

Sem betur fer er sá háttur hafður á nú að flokkarnir skipta með sér þessum tveimur valdamestu ráðuneytum í innanlandsmálum. Ef á annað borð ríkir traust á milli samstarfsflokka á slík skipan frekar að efla það traust en draga úr því.


mbl.is Rökrétt að Jóhanna taki við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hringurinn að lokast.

Það er hreint ótrúleg tilviljun að báðir oddvitar fyrrverandi ríkisstjórnar hafi þurft á sama tímabili að horfast í augu við sjúkleika sem hafi haft áhrif á stöðu þeirra og framtíðaráform.

Ég hef áður bloggað um það hve sleginn ég varð við fyrstu fréttir af veikindum Geirs H. Haarde og um óskir mínar honum til handa að hann nái fullri heilsu. Sömu óskir vil ég flytja Ingiibjörgu Sólrúnu.

Ákvörðun hennar veldur hins vegar því að hægt sé að sjá fyrir endann á því að ljúka þeirri hringferð sem íslensk stjórnmál fóru í eftir hrunið mikla. Ef marka má orð Davíðs Oddssonar voru það, auk hans, þrír stjórnmálamenn sem vissu mest um það hvert stefndi, Geir, Ingibjörg og Árni Mathiesen.

Þau létu Björgvin Sigurðsson ekki vita um allt en hann sagði þó fyrstur af sér og tók á sig ábyrgð af því að hafa verið ráðherra viðskiptamála. Áður hafði Geir H. Haarde staðið frammi fyrir hliðstæðri ákvörðun og Ingibjörg Sólrún nú.

Fyrir daginn í dag blasti við öllum að Ingibjörg Sólrún var ein eftir af þeim sem báru mesta ábyrgð á fyrrverandi ríkisstjórn. Línuritið yfir aldursskiptingu fylgismanna Samfylkingarinnar, sem birtist í Morgunblaðinu í dag, er ekki uppörvandi.

Ungt fólk vill breytingar og uppgjör og það stakk auk þess í augu að svo virtist sem það ætlaði að stefna í minnsta endurnýjun hjá Samfylkingunni, sem var þó meðal þeirra þriggja flokka sem báru ábyrgð á hruninu, þótt ábyrgð Sjálfstæðisflokksins væri langmest, - Framsóknarflokksins næstmest eftir tólf ára valdasetu framundir hrun og Samfylkingarinnar minnst.

Almennt geta alþingismenn þó ekki skotið sér undan allri ábyrgð af því að þessir 63 fulltrúar þjóðarinnar virtust ekki með á nótunum að öllu leyti. En VG nýtur þess að vera eini stóri flokkurinn á þingi sem ekki hefur verið í ríkisstjórn fyrr en nú eftir að uppgjörið er hafið.

Seðlabankastjórnin er farin, stjórn Fjármálaeftirlitsins sömuleiðis, og kosningar fengust á dagskrá.

Nú er eftir að loka svipuðum hring hjá þeim í kerfi banka og stórfyrirtækja, sem báru mesta ábyrgðina á hruninu.


mbl.is Ingibjörg Sólrún hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Liðsauki fyrir grænu fylkinguna á þingi.

Í októberbyrjun var nafnið Lilja Mósesdóttir algerlega óþekkt á Íslandi. Svo hélt hún góða ræðu á borgarafundi í Iðnó og stimplaði sig sterkt inn, vel menntuð á því sviði sem við þurfum á að halda kunnáttufólki, hagfræði með hagstjórnarvanda þróunarríkja og ríkja í erfiðleikum sem sérsvið.

Með hruninu hrundi líka kenningin um það að almennileg hagfræði og hagfræðingar þrifust aðeins hjá hægri mönnum.

Efstu menn hjá VG í Reykjavík býður upp á meira mannval en áður. Til skjalanna er komið öflugt fólk sem býður upp á raunhæfan valkost.

Í komandi kosningum þarf græna fylkingin á þingi að eflast. Ég var þeirrar ánægju aðnjótandi síðastliðið sumar að vera með Vinstri grænum og samherjum þeirra á Norðurlöndum á ráðstefnu um virkjanamál í Norræna húsinu, sýna þar uppkast að kvikmynd um þetta efni og halda smátölu.

Ég hef talið mig miðjumann en ekki yst vinstra megin en í umhverfismálum á ég marga góða samherja í öllum flokkum.

Þótt ég sé í ákveðnum stjórnmálaflokki tel ég ekki eftir mér að koma á samkomur hjá hvaða flokki og samtökum sem vera skal til að leggja mitt af mörkum til umræðunnar.

Í gærmorgun var ánægjulegt að heyra frambjóðendur Samfylkingarinnar til prófkjörum kjördæmunum á höfuðborgarsvæðinu svara tíu beittum spurningum um umhverfismál.

Græna netið er meðal nokkurra samtaka í tengslum við Samfylkinginuna sem ekki krefst þess að félagar séu jafnframt flokksbundnir í Samfylkingunni og hún er greinilega að eflast.

Íslandshreyfingin var stofnuð 2007 til að breikka og efla grænu fylkinguna á miðjunni og í átt fram henni til hægri í hægri-vinstri litrófi íslenskra stjórnmála. VG stóð grænu vaktina eins vel og hún gat en þörfin á liðseflngu var mest á miðjunni í átt til hægri til að hnekkja ofurveldi stóriðjuflokkanna sem þá voru í stjórn.

Nú verður að leggja kapp á að þeir nái ekki meirihluta í komandi kosningum.

Óréttlát kosningalög komu í veg fyrir aukningu græns þingstyrks á 2007 og í ljósi reynslunnar, erfiðari stöðu og meiri áhættu á því að gera ógagn nú með framboði sem ekki skilar þingstyrk, er höfuðnauðsyn að efla grænu fylkinguna á miðjunni og draga að henni fylgi þaðan og frá hægri með því að efla græna fólkið í Samfylkingunni.

Fundurinn í gærmorgun lofaði góðu og mér leist mjög vel á marga frambjóðendur, sem ég hafði ekki kynnst áður.
Ég hafði á föstudagskvöld farið á kynningarfund Dofra Hermannssonar og lagt honum lið með smátölu.

Dofri er einn hugsjónamannanna sem lætur ekki sitja við orðin tóm. Hann nam sérstaklega umhverfishagfræði til þess að leggja grundvöll að hugsjónastarfi sínu.


mbl.is Katrín og Svandís efstar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband