Tíma eytt í þras um tímaþröng.

Alveg er kostulegt að horfa og hlusta á þingmenn þessa stundina eyða tímanum í að þrasa um það hvort þeir séu komnir í tímaþröng í þingstörfum og hvort þeir beiti málþófi eða ekki.
mbl.is Saka sjálfstæðismenn um málþóf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frönsk Þuríður formaður.

Sú var tíð að Íslendingar eignuðust fyrirrennara Sherlock Holmes. Þessi fyrirrennari var raunar raunverulegur en ekki skáldskapur. Þuríður formaður er í mínum huga einhver merkilegasta persóna Íslandssögunnar, - var formaður á báti sem reri frá Stokkseyri á þeim tíma sem útræði frá þeim stað var iðkað við sérlega hættulegar og erfiðar aðstæður.

Þuríður var einstök í hörðum heimi karlaveldis og karlrembu.

Merkilegust var hún þó fyrir það að upplýsa eitt stærsta afbrot 19. aldarinnar, Kambsránið svonefnda um 1930, þegar grímuklætt glæpagengi rændi bæinn Kamb í Flóa að næturþeli og yfirvöld og almenningur stóðu ráðþrota við að upplýsa málið.

Þuríður formaður sýndi þá rannsóknarlögregluhæfileika og glöggskyggni sem valdsmenn og yfirvöld skorti.

Þetta snilldarverk Þuríðar kom úr óvæntri átt og þess vegna ætti enginn að skammast sín fyrir það þótt frönsk Þuríður formaður komi nú með tillögur í snúnu rannsóknarverkefni sem kunna að koma að gagni.

Karlaveldissamfélag 19. aldar þáði hjálp Þuríðar formanns. Í upphafi 21. aldar á auðvitað að þiggja hjálp franskrar konu, hvað annað?


mbl.is Eva Joly ráðleggur ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Agureyri, Reygjavíg og Reygvígingar.

Myndi Keflvíkingum ekki sárna ef landar þeirra bæru nafn bæjar þeirra fram sem "Kefflavik" í stað hins íslenska framburðar "Kjebblavík"? Að sjálfsögðu, - en sem betur fer eru það aðeins útlendingar sem bera nafn Keflavíkur svona fram af gáleysi.

Það færist í vöxt, að hinn letilegi framburður, sem oftast er kenndur við Suðurland en hefur þó fyrst og fremst blómstrað í Reykjavík, dynji í eyrum í ljósvakamiðlum.

Í stað þess að hægt sé að gleðjast einlæglega með Akureyringum þegar íþróttamanna þeirra er getið í fréttum skyggir það á ánægjuna að heyra sífellt talað um Agureyri og Agureyringa.

Það er alltaf dapurleg að heyra andlátsfregnir og þess vegna er það neyðarlegt að manni skuli létta þegar Anna Sigríður Einarsdóttir byrjar að lesa dánarfregnirnar með sínum skýra og fallega framburði englaraddar eftir að búið er að klæmast á Agureyringum og Reygvígingum í íþróttafréttum.


Hagmælska, tónlist ljóðanna.

Allt frá dögum Sigurðar Breiðfjörðs hafa þeir menn, sem löngum hafa verið kallaðir hagyrðingar, átt undir högg að sækja hjá menningarfrömuðum þjóðarinnar. Þeim hefur verið lagt til lasts að láta erfitt og krefjandi ljóðaform skemma fyrir ljóðrænni hugsun.

Oft hefur þessi gagnrýni átt rétt á sér eins og gengur en sú alhæfing, að algerlega órímuð ljóð séu hin eina sanna ljóðlist, hygg ég að sé ekki sanngjörn og mig grunar jafnvel að oft sé hún notuð til að breiða yfir getuleysi viðkomandi til að fella hugsun sína inn í þá tónlist og hljóðfall ljóðanna sem bundið mál er.

Að sönnu hefur ógrynni vísna og kvæða verið hnoð og leirburður, rétt er það, en mörg af bestu skáldum Íslands voru góðir hagyrðingar og höfðu það ljóðaform fullkomlega á valdi sínu þótt þeir veldu við önnur tækifæri að leysa hugsun sína og túlkun undan böndum ríms og ljóðstafa.

Tónlist er oftast túlkun sem bundin er í takt og tóna sem hlíta ákveðnum lögmálum og sem betur fer tíðkast það ekki að tala niður til slíkrar tónlistar á þeim nótum að hún sé óþarft og skaðlegt haft á túlkun og list.

Hákon Aðalsteinsson var einn minn besti vinur, glaðvær og gefandi höfðingi og að honum er mikill missir. Ég gerði eitt sinn um hann þátt á Stöð tvö í þáttaröðinni "Draumalandið." Hans draumaland var hálendið inn af Hrafnkelsdal og átti hug hans allan. Hákon fór því eins og skáldin yfir þúsund árum á fund Noregskonungs og flutti honum drápu um þetta mikla hugðarefni sitt.

Því miður er hinn séríslenski taktur ljóðanna, ljóðstafirnir, aftur á undanhaldi eftir að meistari Megas og fleiri höfðu spyrnt við fótum. Þess vegna er sá missir tvöfaldur fyrir að horfa á eftir Hákoni Aðalsteinssyni, góðum manni og góðu skáldi.


mbl.is Hákon Aðalsteinsson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband