Lykilsetningar Steingríms og Svandísar.

Svandís Svavarsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon sögðu hvort um lykilsetningar í Sjónvarpsumræðum, sem svara því hvað við taki eftir kosningar varðandi umsókn um aðild að ESB.

Svandís sagði í umræðum í Reykjavík suður að VG byggði á fortíð varðandi áherslur flokksins og fyrirrennara hans á þjóðaratkvæðagreiðslur, allt frá NATO-aðild til Kárahnjúkavirkjunar og að ekki væri aðalatriði hvort atkvæðagreiðslurnar núna yrðu tvær eða aðeins ein.

Steingrímur talaði líka í kvöld um það að rétt væri að láta þjóðina skera úr um þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu og hann sagði líka að slíkur klofningur ríkti milli flokka og innan flokka um þetta mál að engin leið væri að mynda neina ríkisstjórn án þess að skiptar skoðanir yrðu um málið innan stuðningsmanna hennar.

Þetta er lykilatriði því að með þessu er Steingrímur að segja að úr því að svona er í pottinn búið sé auðvitað skásti og raunar eini kosturinn að sækjast eftir meirihlutastjórn Sf og Vg sem muni semja um málið eftir kosningar.

Líklegasta niðurstaðan verður því sú að með því að hamra á því að ekki megi byrja þennan feril í júní fái Vg þar færi á að standa á því atriði og gefa þar með ekki allt eftir af skilyrðum sínum.

Eftir sem áður verði farið að undirbúa umsókn og henni ýtt á flot síðsumars eða næsta haust.


mbl.is Sögulegar kosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fróðlegur ferill tveggja grannþjóða.

Fyrir 1914 var Bretland á hátindi glæsileika heimsveldis þar sem sólin seig aldrei til viðar. Þótt þeir bæru sigur úr býtum í fyrri heimsstyrjöldinni kostaði hún mikla fjármuni og hræðilegar fórnir milljóna manna á besta aldri á vígvölllunum.

Í kreppunni fór landið aftur niður undir botn og ein höfuðástæða þess að friðþægja Hitler var sú að landið hafði ekki efni á að hervæðast. Íslendingar voru 1939 enn verr settir og í raun í eigu Hambrosbanka í Lundúnum. Ástand landanna núna minnir á ástandð 1939.

"Give us the tools and we will finish the job" sagði Churchill við Bandaríkjamenn sem fjármögnuðu styrjöldina fyrir Breta og sendu þeim ógrynni vopna.

Íslendingar græddu á stríðinu og hernámi  Breta og áttu digra gjaldeyrisinnistæður hjá þeim í stríðslok.

Á sama tíma voru Bretar þrotnir að kröftum eftir fórnir stríðsins og urðu að búa við stórfelld höft og vöruskömmtun í mörg ár á eftir, - framleiddu til dæmis að mestu leyti bíla til útflutnings fyrst í stað.

Íslendingar sólunduðu stríðsgróðanum hins vegar á rúmum tveimur árum. Marhall-aðstoðin kom báðum þjóðum til hjálpar og þótt Íslendingar væru eina þjóðin í Evrópu sem græddi á stríðinu fengum við hlutfallslega mestu aðstoðina.

Þegar breska pundið var fellt 1967 felldu Íslendingar krónuna tvisvar á sama árinu!

Enn og aftur eru örlög beggja þjóða samofin. Í stað Hambrosbanka eru komnir Icesafe-reikningar.

Bretar beittu okkur löndunarbanni 1952 þegar þeim mislíkaði við okkur og hryðjuverkalögum 2008.

Nú er rætt um ævintýralega daga í samskiptum þjóðanna í októberbyrjun 2008. Fróðleg verður sú saga sem á eftir að skrifa um stormasöm samskipti þessara grannþjóða.

 


mbl.is Sekkur Bretland enn dýpra en Ísland?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttar tímasetningar ?

Íslensk kosningasaga geymir mörg dæmi um tímasetningar á framsetningu mála rétt fyrir kosningar. Tvö útspil Framsóknarmanna nú lykta af þessu, upprifjun Sivjar á vafaatriðum varðandi flýtimeðferð á flutningi Icesafe reikninga rétt fyrir bankahrunið og uppljóstrun Sigmundar Davíðs um álitsgerð varðandi komandi hrun íslenska efnahagskerfisins.

Oft virkar best að viðkomandi kosningabomba sé þess eðlis að hún sé á réttu róli á kosningadaginn fyrir þann sem sprengir bombuna, þannig að sá sem bomban beinist að nái ekki vopnum sínum og geti ekki þvegið af sér áburðinn.

Kosningabombur Sjálfstæðismanna hafa oft dugað vel. Rétt fyrir borgarstjórnarkosningar 1958 kvaðst útsendari flokksins hafa fundið svonefnda "Gula bók" um húsnæðismál sem átti að hafa verið rituð á vegum vinstri stjórnarinnar sem þá sat til að undirbúa slæma þjóðnýtingu í húsnæðismálum.

Bjarni Benediktsson, ristjrói Moggans, sló þessu upp með risafyrirsögnum.

Vinstri flokkunum vannst ekki tími til að þvo þetta af sér og í kjölfarið fylgdi stærsti sigur D-listans í Reykjavík sem gaf þeim 10 borgarfulltrúa af 15. Kannski hefði sigurinn orðið svona stór hvort eð var, en þó er óvíst um það.

Eftir kosningar varð Gula bókin öllum gleymd og ekkert af því sem hún átti að hafa inni að halda varð nokkurn tíma að veruleika. Þess vegna söng ég um hana í grínsöng um bjargráð stjórnmálaforingjanna síðar það ár á þann hátt að eftir leit að Bjarna Ben hefði ég fundið hann fyrir utan sorpeyðingarstöðina þar sem hann var að fara að henda Gulu bókinni.

Fyrir kosningar 1967 varð mál kaupfélagsstjórans á Fáskrúðsfirði að aðalmáli kosninganna og vegna þess máls fór ég tvívegis með nokkurra daga millibil þangað austur til að skemmta á fundum stríðandi flokka um þetta mál.

Eftir kosningar varð þetta mál strax gleymt og grafið og satt að segja man ég ekki nákvæmlega í hverju málið var fólgið, rámar bara í það tengdist mannahaldi kaupfélagsstjórans, að mig minnir vegna eins starfsmanns.

Nokkrum dögum fyrir kosningar 2007 var ég sakaður í beinni útsendingu í sjónvarpi um að hafa valdið umhverfisspjöllum í friðlandi við Kárahnjúka sem gæti varðað allt að 2ja ára fangelsi.

Þetta var rakið skilmerkilega í fjölmiðlum næstu daga á eftir.

Hálfu ári síðar lauk ítarlegri lögreglurannsókn og skýrslugerð um þetta mál með þeirri niðurstöðu að málið yrði ekki rekið frekar vegna þess að ekkert saknæmt hefði fundist.

Þá var þetta löngu gleymt og engir fjölmiðlar höfðu áhuga á því að fylgjast með því hvaða endi þetta fáránlega mál fékk.

Með þessu er ég ekki að segja að útspil Sigmundar Davíðs og Sivjar eigi ekki rétt á sér. Þvert á móti eru bæði málin mjög áhugaverð. En skyldi tímasetningin vera tilviljun ein?


mbl.is Ræða trúnaðargögn vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband