Munaði mikið um 0,3%.

Reglur um fjárstuðning ríkisins til stjórnmálastarfsemi kveða á um það, að framboð verði að fá 2,5% atkvæða til þess að fá stuðning áfram eftir kosningar. Frjálslyndi flokkurinn fékk 2,2% og dettur því alveg út að þessu leyti.

Ég tel þetta mark of hátt og er þeirrar skoðunar að hvert það framboð sem fær sem svarar atkvæðimagni til eins þingsætis eigi bæði að fá það þingsæti og styrk í hlutfalli við fylgið, rétt eins og öll hin framboðin fengu þingsæti fyrir hver 1,57% heildaratkvæða eða hver 3000 atkvæði.

Frjálslyndi flokkurinn fékk um 4000 atkvæði á landsvísu.

Ef þessi hefði verið raunin hefðu formenn stjórnmálaflokkanna ekki þurft að vera með saknaðarhjal í sjónvarpinu í gærkvöldi og segja að mikil eftirsjá væri af Guðjóni.

Það þarf að breyta fjárstuðningslögunum í báða enda, ef svo má segja, veita framboðum sem tekst að bjóða fram stuðning strax fyrir kosningar og vera með skynsamlegar reglur gagnvart framboðum sem lögðu í kostnað fyrir kosningar á þeim forsendum að fá fylgi til næsta kjörtímabils.

Styrkjamálið á dögunum sýndi glögglega að nauðsyn er að fjárstuðningur til framboða og flokka komi ekki frá fyritækjum sem geta með því myndað óheppileg tengsl við framboðin.


mbl.is Miðstjórn Frjálslynda flokksins kölluð saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég hlakka til.

Ég hlakka til að sjá það sem á eftir að koma frá hendi hins frábæra rithöfundar og listamanns, Davíðs Oddssonar. Þetta hefði hann átt að fara út í miklu fyrr.

Davíð er margt til lista lagt og er mikill hæfileikamaður á listasviðinu. Nú verður gaman. Ég óska honum alls hins besta.


mbl.is Davíð segist ætla að skrifa smásögur og planta trjám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlustum á Ömma frænda.

Ögmundur Jónasson er skeleggur baráttumaður fyrir hugsjónum sínum. En hann er líka sjóaður stjórnmálamaður og á að baki langa reynslu í mannlegum samskiptum. Var þar af leiðandi kallaður Ömmi frændi þegar hann var formaður Starfsmannafélags RUV.

Það hefur oft komið í ljós að hann vill leita að leiðum til að forðast vandræði og ná farsælum lausnum, - leysa ágreiningsmál þannig að eins góð sátt verði um niðurstöðuna og unnt er ná.

Í báðum stjórnarflokkunum er að finna menn af þessu tagi og nú reynir á sem flestir þeirra leggi sig fram til að leysa þetta mál og höggva á þann hnút, sem ég hef lýst í bloggi hér á undan þessu með notkun á orðunum pattstöðu og gíslingu, sem mál sé að linni. Hlustum á Ömma frænda og aðra slíka.


mbl.is Þjóðin verður að ráða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arfur Kvennalistans.

Athyglisvert var að sjá línurit yfir hlut kvenna á þingi í kosningasjónvarpinu. Þar sást glögglega að fjölgun kvenna á þingi byrjar 1983 þegar Kvennalistinn bauð fyrst fram. Síðan hækkar þetta hlutfall hægt og bítandi, þótt tvívegis komi bakslag og nær hámarki nú, þjóðinni til mikils sóma að mínu mati.

Loksins stöndum við jafnfætis þeim þjóðum sem lengst eru komnar á þessari braut.

Kvennalistinn var merkilegt stjórnmálalegt fyrirbæri í fleiri efnum en kvennabaráttunni. Hann setti fram mörg nýmæli í stjórnmálastarfsemi. Þau hristu upp í stjórnmálunum og gerðu mörg hver gagn þótt sum orkuðu tvímælis, eins og til dæmis það að þingmenn mættu ekki vera nema tvö ár í einu á þingi.

Það held ég að hafi verið alltof róttæk aðgerð þótt sjálf hugsunin hafi verið rétt, að hamla gegn skaðlegri slímsetu í áhrifastöðum.

Það eru 26 ár síðan Kvennalistinn kom fram. Stundum tekur tíma að ná góðum málum fram, allt of langan tíma, og lengi vel held ég að jafnréttisfólk hafi dæst yfir því hve hægt gekk. Nú vil ég senda brautryðjendunum frá 1983 árnaðaróskir með það að geta horft með ánægju á árangur baráttu þeirra, þótt seint sé.


mbl.is Fagna jafnari kynjaskiptingu á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það var líka gjá í Helguvíkurmálinu.

Ríkisstjórnarflokkarnir eru nýbúnir að brúa gjá í erfiðu máli. Það var Helguvíkurmálið. Gjáin var brúuð á þann veg að Vinstri grænir stóðu fastir á sínu og greiddu atkvæði gegn tillögu Össurar Skarphéðinssonar.

Einn þingmaður Samfylkingar var líka á móti og annar sat hjá. Málið fór á þennan veg vegna þess að þingmeirihluti var með málinu, óháður stjórnarmeirihlutanum.

Nú virðist þingmeirihluti vera með því að láta reyna á aðildarumsókn að ESB. VG er á móti. Eini hugsanlegi þingmeirihlutinn á móti ESB-aðild fælist í ríkisstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn ætti aðild að en hver sá flokkur sem færi í stjórn með Sjálfstæðismönnum, lemstruðum eftir verðskuldaða refsingu, myndi skjóta undan sér báða fæturna.

Ein leiðin til að brúa gjána í ESB-málinu er að afgreiða málið út úr flokkafarvegi og láta þingmeirihluta vísa málinu beiknt til þjóðarinnar. Það verður að rjúfa pattstöðuna sem þetta mál setur öll íslensk stjórnmál í, - koma íslenskum stjórnmálum úr þeirri gíslingu sem málið hefur haldið þeim í um árabil.


mbl.is Óbrúuð gjá í ESB-máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvær tölur utan skekkjumarka. Óþarfa yfirlýsingar.

Allar tölurnar í síðustu skoðanakönnunum fyrir kosningar voru innan skilgreindra skekkjumarka nema tvær, fylgi VG og fylgi Framsóknar hjá Fréttablaðinu.
Ætli það teljist bara ekki furðu gott.

VG hefur alltaf fengið minna í kosningum en í könnunum en skekkjan var öllu meiri nú en venjulegt hefur verið.

VG var með nokkuð stöðugt fylgi lengst af í könnunum. Skýringin gæti verið sú að flokksmenn höfðui vit á að rugga bátnum ekki neitt og sigldi framboðið að því leyti til lygnari sjó en hin framboðin.

Í eina skiptið sem bátnum var ruggað gerðist það með yfirlýsingum Kolbrúnar Halldórsdóttur um Drekann og andsvari Steingríms J. Sigfússonar auk sterkrar yfirlýsingar hans um ESB á síðasta degi baráttunnar.

Það var í eina skiptið sem rót komst á þau í kosningabaráttunni og athyglin beindist sérstaklega að vandræðagangi og misræmi í þeirra röðum. Úr því að vel gekk fram að því skil ég ekki hvers vegna var farið að koma róti á umræðuna um flokkinn svona seint í baráttunni.

Engin brýn þörf var á þessum yfirlýsingum, nema þá viðbrögðum Steingríms við orðum Kolbrúnar um Drekann. Sú yfirlýsing var nauðsynleg, einkum með tilliti til fylgis hans í eigin kjördæmi.

Ég hitti fylgismenn VG á Akureyri daginn fyrir kosningar og þeir voru slegnir eftir þessa óvæntu uppákomu. Með sterkum yfirlýsingum sem ekki var brýn þörf á, var tekin óþarfa áhætta, miðað við hagsmuni framboðsins, hvort sem það var skýringin á þessum fylgismismun eða ekki.

Þeir sem andmæla því að þetta hafi haft að segja, benda á stöðugleikann í Norðausturkjördæmi. En það kjördæmi hafði algera sérstöðu allan tímann hvað það snerti að persónufylgi Steingríms J. stóð þar eins og klettur úr hafinu og með andsvari sínu við yfirlýsingu Kolbrúnar setti hann undir hugsanlegan leka þar.


mbl.is Kannanir langt frá kjörfylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband