28.4.2009 | 22:20
Fáfræði og óskhyggja um stefnuskrár í umhverfismálum.
Umsagnir fréttamanna og bloggara í dag sýna magnaða fráfræði og óskhyggju um stefnuskrár stjórnarflokkanna í umhverfismálum. Fréttamenn spyrja hvort SF þurfi ekki að gefa eftir gagnvart kröfum VG í umhverfismálum.
Jóhönnu Sigurðardóttur tókst að skjóta því að á ská í lok viðtals í dag að Samfylkingin legði líka mikinn áhuga á umhverfismál. Það hafði engin áhrif á bloggara sem áfram telja um mikinn stefnumun að ræða.
Hvernig væri nú að frétta- og blaðamenn og bloggarar létu af þrálátu áhugaleysi sínu á umhverfismálum og kynntu sér stefnuskrár þessara tveggja flokka? Enginn hafði áhuga á því eftir landsfund SF en nú er áhugi á að blása upp ímyndaðan stefnumun.
Ég starfaði í umhverfisnefnd SF á nýlegum landsfundi hennar. Samþykkt stefna Samfylkingarinnar hefur grænkað. Við fengum tekið upp að stefna að grænu hagkerfi og jafnrétti kynslóðanna (öðru nafni sjálfbær þróun).
Þetta er mjög mikilvægt. Sjálfbær þróun er þróun (starfsemi, framkvæmdir nýting) sem ekki sviptir komandi kynslóðir frelsi um að velja sér sína þróun. Sem sagt: Engin óafturkræf umvhverfisspjöll. Samþykkt var að hætta ágengri orkuöflun. Það þýðir í raun byltingu í nýtingu háhitans.
Felld var tillaga virkjanasinna um að Ísland sækti um undanþágu frá mengunarkvótum svo að hægt væri að reisa fleiri álver. Fulltrúar frá íslandshreyfingunni og Framtíðarlandinu lögðust þarna á sveif með öflugum grænum samherjum í SF og réðu með þeim úrslitum í þessu mikilvæga máli.
Samþykkt var viljayfirlýsing um að Vatnajökulsþjóðgarður yrði stækkaður til suðvesturs allt að Mýrdalsjökli svo að allt hið ósnortna eldvirka svæði norðan Suðurjökla yrði friðað. Það fellir sjálfkrafa út einar 5-6 fyrirhugaðar virkjanir á því svæði, Markarfjótsvirkjun, Reykjadalavirkjun, Torfajökulsvirkjun, Bjallavirkjun, Skaftárveitu og jafnvel Hólmsárvirkjun. Enginn fréttamaður tók eftir þessu.
Að sumu leyti gengur nýsamþykkt stefna SF lengra í græna átt en nýsamþykkt stefna VG.
Ég hef tekið eftir því að margir innan VG tóku ekki eftir þessu, en þetta er mjög mikilvægt fyrir VG.
Þá segja menn: En SF gaf eftir varðandi Fagra ísland og gefur aftur eftir núna.
En ég spyr á móti: Eftir hverjum á SF að gefa núna? Kröfum VG um fleiri álver?
Í ríkistjórninni 2007 gerði Sjálfstæðisflokkur stóriðjuna að úrslitaatriði. Samfylking gaf eftir því að Sjálfstæðismenn gátu hvort eð er ráðið þessu í krafti meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á þingi.
Formaður Framsóknar setti strax ofan í við Kolbrúnu Halldórsdóttur á fyrsta starfsdegi hennar í minnihlutastjórinni og gerði það ljóst að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks réði í raun úrslitum í stóriðjumálum, þar með talið í Helguvíkurmálinu.
Hingað til hefur meirihluti þessara gömlu slímsetuflokka ráðið úrslitum í stóriðjumálum, sama hvaða stjórn hefur setið að völdum.
Nú er 86 ára tímabili lokið þar sem annar hvor eða báðir þessara flokka stóðu að öllum stjórnarmyndunum.
Það er eins og margir hafi enn ekki áttað sig á því hve óhemju mikilvægt þetta er.
Þegar fréttamenn elska að benda á ósætti og átök um stefnur stjórnarflokkanna verða þeir að gæta sín á því að stefna flokkanna sé mismunandi í raun.
Hún er það ekki núna og því um ekkert ágreiningsefni að semja um varðandi umhverfismál. Eða það skyldi maður ætla.
![]() |
Áframhaldandi viðræður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.4.2009 | 16:46
Ekki nógu fínt að segja gríma.
Það er ekki nógu fínt að nota orðið gríma. Hallærislegt þegar afi og amma töluðu um að notaðar hefðu verið gasgrímur í heimsstyrjöldunum.
Nei, "mask" skal það kallast sem fólk gæti notað gegn svínaflensunni ef marka má orðaval í útvarpinu nú rétt áðan.
Læknar munu væntanlega hætta að nota grímur við uppskurði og nota hér eftir maska. Aðeins enskan er nógu fínt mál rétt eins og outlettin eru miklu söluvænni verslunarfyrirtæki en önnur.
Æðstu leiklistarverðlaun þjóðarinnar eru kennd við grímu. Þannig orðaval er greinilega ekki "in" og við verðum að fara að búa okkur undir það að verðlaunin verði ekki nógu fín nema þau beri enskt heiti, til dæmis "Mask prize" eða eitthvað svipað því.
Það hlýtur að koma að því. Þykir nokkur bíómynd boðleg nema með ensku heiti?
![]() |
Tvö óstaðfest tilfelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.4.2009 | 14:02
Tvöföld harmsaga?
Ég heimssótti Keikó til Noregs skömmu áður en hann dó og gerði um hann sjónvarpspistil. Hann var að vísu orðinn gamall en það duldist ekki að honum leið ekki vel. Hann var daufur og auðséð að hverju stefndi.
Keikó varð tvívegis fórnarlamb ígrips mannanna inn í hina villtu náttúru. Hann var það ungur þegar hann honum var rænt úr eðlilegu umhverfi sínu að erfitt er að átta sig á því hvort honum leið verulega illa í fangavistinni í Mexíkó þegar hann var búinn að laga sig að henni.
Hann hafði vanist aðstæðum þar og líklega gleymt því að mestu hvernig það var að vera frjáls í hafinu.
Nú er ljóst að það hefði verið skást fyrir velferð hans að láta hann óáreittan innan um mennina.
Menn hefðu mátt segja sér að það væri rangt að "frelsa" hann og flytja hann til fjarlægs lands. En það þarf víst alltaf að sannreyna alla hluti, hversu augljósir sem þeir kunna að vera.
Tónlistin er öflugt verkfæri, - lag Michels Jacksons um hvalinn "Willy" er gott dæmi um það.
En það má þó segja að Keikó hafi ekki lifað og dáið til einskis. Örlög hans ættu að verða mönnum lexía og koma í veg fyrir að eitthvað þessu líkt gerist aftur.
![]() |
Rangt að frelsa Keikó" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.4.2009 | 09:51
Enn erfiðara en 1918.
1918 voru engar flugsamgöngur á milli landa. Til Íslands sigldu tiltölulega fá skip á hverju ári. Samt kom spánska veikin hingað rétt eins og svarti dauði 1402.
Tímarnir eru gerbreyttir og Ísland er ekki meira eyland en önnur lönd í þessu tilliti. Flensan er farin af stað og verður ekki stöðvuð. Spánska veikin, sem var inflúensa, lagði fleiri í gröfina á heimsvísu en féllu í heimstyrjöldinni fyrri.
Margt er líkt með tímunum nú og fyrir 90 árum. 1917 var dýpsti kreppudalur sem komið hefur á íslandi, dýpri en í heimskreppunni miklu. Ofan á það bættist spánska veikin árið eftir auk hafísvetrarins mikla og Kötlugoss.
En það er alltaf ljós í myrkrinu. Fullveldið 1918 var langstærsta skref Íslands í sjálfstæðisbaráttunni, einkum vegna þess að þá var í fyrsta skipti tryggt að hægt væri eftir ákveðinn tíma hægt að rifta sambandinu við Dani endanlega.
Ónæmisbakteríu þróast hraðar en varnir við þeim. Börn okkar og barnabörn fá mikið verkefni að glíma við.
Það hefur líklega alltaf verið tálsýn að maðurinn gæti sigrast á öllum sjúkdómum. Þeir hafa fylgt öllu lífi frá örófi alda og við það verður að sætta sig og reyna með baráttu að fá það besta út úr því lífi sem okkur hefur þó verið gefið milli vöggu og grafar.
Okkur er áskapað að berjast fyrir lífinu og taka þann slag með þökk fyrir það að hafa fengið að lifa. Ekki er enn vitað hve skæð svínaflensan verður. 1918 fór ungt fólk verr út úr veikinni en gamalt en ekki hefur komið í ljós núna hverjir eru veikastir fyrir.
Á okkar tímum getur heilbrigðiskerfið tekið mun fastar og markvissara á í varnaraðgerðum en 1918, þótt ekki verði hægt að stöðva faraldurinn.
![]() |
Of seint að hindra útbreiðslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)