Norðmenn gátu gert þetta.

Þaulsætnasti stjórnmálaflokkur landsins er óvanur öðru en að ríkisstjórnin afgreiði mál á fundum og síðan eru þingflokkarnir "handjárnaðir", eins og þa er kallað, - til að fylgja málum fram.

Ráðherraræðið eins og það hefur tíðkast hér á landi.

Ég er sammála Þór Saari að lýðræðislegra sé að leysa flokksbönd og leyfa þingmönnum að vera frjálsum um að taka afstöðu til mála. Komið mál til enda þetta mál búið að flækja íslensk flokkastjórnmál og haldið þeim í gíslingu og pattstöðu.

Þegar Norðmenn sóttu um aðild að ESB var Verkamannaflokkurinn, sem var í stjórn, klofinn um málið. Verkalýðshreyfingin norska var á móti aðild, enda voru flestir flokkar þar meira eða minna klofnir í málinu.

Gro Harlem Brundtland sendi stutt 26 orða bréf til Brussel og síðan var sótt um aðild og greitt um hana þjóðaratkvæði.


mbl.is Afstaðan lýsir skilningsleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Tímabundin höft", - gamalkunnugt stef.

Þegar Íslendingar höfðu sólundað feiknarmiklum gjaldeyrisinnistæðum sínum erlendis á mettíma 1947 þurfti að setja á "tímabundin gjaldeyrishöft" á meðan þjóðin væri að komast í gegnum vandræðin sem hún hafði komið sér í.

Næstu fimm ár á undan varð krónan alltof hátt skráð rétt eins og í "gróðærinu" 60 árum síðar og haldið uppi fölskum lífskjörum og neyslu í kjölfar stríðsins.
Þrátt fyrir mestu hlutfallslegu Marshallaðstoð, sem nokkur þjóð fékk, voru gjaldeyrishöftin slík 1948-1959 að höftin nú blikna í samanburðinum.

Lungann af tímabilinu fram yfir 1990 voru hér meiri höft en í nágrannalöndunum enda krónan lengst af skráð of hátt á sama tíma og verðbólgan gerði íslensku krónuna 2200 sinnum minni miðað við danska krónu en hún hafði verið 1920.

Margt var reynt. 1959 var reynt að fara niðurfærsluleið, lækka allt verðlag í landinu, en auðvitað hélt það ekki nema eitt á, það varð að fella gengið. 1961 hækkaði kaup eftir verkföll um 13% og stjórnin felldi gengið um 13% á móti.

1967 var gengið fellt tvisvar. Hannibal Valdimarsson forseti ASÍ missti út úr sér að gengið hefði verið fellt "hreint og drengilega" og í framhaldi af því söng ég lag úr söngleiknum Mary Poppins:

"Fella gengið hrika-ganta-gríðaryndislega /
gæti kannski sumum fundist hljóma ruddalega /
en Hannibal vill gera þetta hreint og drengilega: /
Fella gengið hrika-ganta-gríðaryndislega!"

Á áttunda áratugnum færðist gengisskrípaleikurinn í vöxt með alls konar tilbrigðum, reynt að fela gengisfallið með því að láta gengið "síga", og nefndist það "gengissig".

Halldór E. Sigurðsson reyndi að breiða yfir gengisfellingar með því að segja að nefna þær "hratt gengissig" eða "gengissig í einu stökki."

Þjóðarsáttin 1989 skapaði fyrsta tækifærið til að koma þessum málum í alemnnilegt horf með því að kæfa verðbólgudrauginn.

Nú er enn erfiðara fram undan en oftast fyrr en hins vegar aldrei eins áríðandi að við Íslendingar komum okkur loksins á svipað ról og aðrar þjóðir með stöðugt efnahagslíf og gjaldmiðil.

Gaman væri ef okkur tækist það á aldar afmæli viðskilnaðarins við dönsku krónuna og upphafs vandaræðagangsins með gjaldmiðilinn.


mbl.is Þaulsetin gjaldeyrishöft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tómlæti um flottasta foss Íslands.

Í öllum fréttaflutningnum af Norðlingölduveitu og áhrifum hennar á umhverfið hefur það verið viðburður ef þess hefur verið getið, að með veitunni er ekki aðeins sótt að Þjórsárerum, heldur vatni veitt burt frá fossaröð í Efri-Þjórsá sem veitir fossaröðinni í Jökulsá á Fjöllum harða keppni um mögnuðustu fossaröð Íslands.

Þegar hafa tvær stórar fossaraðir verið eyðilagðar vegna Kárahnjúkavirkjunar, í Jökulsá á Fljótsdal og Kelduá, en hinar eru næstar á aftökulistanum. Til er áætlun um virkjun Dettifoss þegar friðun verður aflétt af ánni, en það verður ekki síður auðvelt en affriðun Mývatns og Laxár og stórs hluta Kringilsárrana.

Með Norðlingaölduveitu hverfa þrír fossar, Gljúfurleitarfoss, Dynkur og Hvanngiljafoss. Tveir þeir fyrrnefndu eru á stærð við Gullfoss en það virðist litlu skipta fyrir þjóðina, því að þeir eru afskekktir og kostar mikla fyrirhöfn að komast að þeim.

Þegjandi og hljóðlaust hafa 30-40% prósent af orku þessara fossa verið tekin í fimm áföngum með Kvíslaveitu, án þess hafi nokkru sinni verið getið. Sjálfur flutti ég með myndum fjölda frétta af þessum framkvæmdum án þess að gera mér eða þjóðinni grein fyrir því hver umhverfisáhrifin yrðu.

Þetta bitnar sérstaklega á Dynk, sem er einstakur og hef ég ekki séð annan slíkan því að hann er safn um 20 fossa sem falla um sama fossstæðið. Á engan foss sem ég þekki hefur vatnsminnkun eins mikil áhrif því að við það fækkar fossunum um allt að helming og flestir verða að hljóðlitlum bunum.

Vegna þess hve fossarnir sem mynda Dynk eru margir, verður hávaðinn af honum meiri en af öðrum fossum, og hans annað aðalsmerki, en hitt er fjölbreytni fossasafnsins sem hann er mynaður af.

Enginn vandi væri að bæta aðgengi að þessum fossum án mikils kostnaðar, en á því er engin áhugi hjá stóriðjuþyrstri þjóð sem virðíst ekki vilja vita sannleikann um umgengni sína við landið.


mbl.is Vatnsréttindi ríkisins ekki fallin niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband