15.5.2009 | 16:27
Valdið betur til þess sem gaf það.
Lýðræðisþjóðfélagið byggist á því að valdið til að stýra málum þjóðarinnar komi sem beinast frá þjóðinni sem hafi um það úrslitavald í hvívetna hverni valdi hennar sé beitt og hverjir geri það.
Það er rétt hjá forsetanum að fram að þessu hafi mál bjargast að þessu leyti betur en á horfðist.
En úrbóta er þörf því með núverandi ágöllum er ekki eins víst að þetta sleppi eins vel næst.
Það er og verður vaxandi undiralda í þjóðfélaginu og við henni verður að bregðast.
Jafna þarf atkvæðisrétt og auka vægi þjóðaratkvæðagreiðslna.
Rétta þarf af hallann á milli framkvæmdavaldsins annars vegar og löggjafar- og dómsvaldsins hins vegar, til dæmis með því að ráðherrar megi ekki jafnframt vera þingmenn.
Auka þarf vægi, sjálfstæði og vald þingnefnda og skýra betur hlutverk og valdsvið æðsta embættis þjóðarinnar. Innleiða siðbót í þjóðfélaginu með skýrum siðareglum á þeim sviðum þar sem valdið liggur.
Síðast en ekki síst þarf að tryggja rétt þeirra milljóna Íslendinga, sem eiga eftir að lifa í landinu,gegn ofríki núverandi kynslóða sem með óafturkræfum aðgerðum geta gengið stórlega á rétt, frelsi og hag afkomendanna.
Allt þetta var á stefnuskrá Íslandshreyfingarinnar fyrir tveimur árum en þá ríkti þvílík "gróðæris"-stemning í þjóðfélaginu að ofangreint komst ekki að.
![]() |
Þjóðin tók valdið í sínar hendur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.5.2009 | 12:02
Óperuhúsin og Þingvellir.
Nú þarf í eitt skipti fyrir öll að nota rétta tækni til að finna út hvar hinn íslenski allsherjargoði stóð til að segja upp lögin, - og nota það til þess sem kalla mætti hljómburðarfornminjafræði. Það eru nefnilega ófundnar fleiri minjar á Þingvöllum en gripir sem eru að finnast nú.
Hvað tengir óperuhús heimsins við Þingvelli? Jú, á þessum samkomustöðum skiptir það höfuðmáli hvort þeir, sem þar eru saman komnir, heyri í ræðumönnum, heyri og sjái það sem fram fer.
Ég hef komið á hinn forna þingstað Gulaþing við Gulafjörð í Noregi þar sem stóð fyrirmynd hins íslenska Alþingis. Þar komu menn saman í skeifulaga rjóðri sem hallaði í áttina að staðnum, þar sem menn fluttu mál sitt. Aðstæður voru ekki ósvipaðar þeim sem eru í samkomuhúsunum í Stykkishólmi og á Ólafsvík.
Ég er ekki viss um að búið sé að rannsaka nógu vel hvar allsherjargoði stóð á Þingvöllum og hvar áheyrendur hans stóðu þegar hann sagði upp lögin svo að allir heyrðu.
Það var örugglega ekki á þeim stað sem lýðveldið var lögtekið 1944 vegna þess að við þá athöfn voru öll lögmál um hljómburð brotin, forseti Alþingis sneri sér út yfir þingheim á svæði sem hallaði niður frá honum án þess enduróms sem verið hefði ef hann hefði snúið sér í átt til þingheims í brekkunni fyrir ofan hann undir hamravegg Almannagjár.
Lögfesting lýðveldisins fór fram á stað sem hafði enga vörn gegn vindum eða regni, sem taka verður tillit til á Íslandi.
Tillaga mín er þessi: Fáum einn eða fleiri af bestu hljómburðarsérfræðingum heims, söfnum saman fólki sem aðhefst svipað og gerðist á þingi forðum og finnum út hvar og hvernig þing var háð, miðað við þær upplýsingar og rannsóknir sem hægt er að styðjast við.
![]() |
Fornminjar koma í ljós á Þingvöllum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.5.2009 | 01:51
Þjóðarfjallið.
Flaug í dag frá Egilsstöðum um Hraunaveitu, Kringilsárrana til Akureyrar.

Flaug framhjá Herðubreið, þjóðarfjalli Íslendinga og tók meðfylgjandi myndir, sem njóta má betur með því að tvísmella á þær hvora um sig, fyrst einu sinni og bíða, og eftir að hún hefur birst smella einu sinni aftur til að stækka myndina.
Herðubreið myndaðist eins og fjöldi eldfjalla á Íslandi, undir ísaldarjökli á svipaðan hátt og gerðist í Gjálpargosinu norður af Grímsvötnum 1996, en þar grófst eldfjallið í ís eftir gos.
Herðubreið er það mikið eldfjall að tindur þess stóð upp úr ísnum svo að þar myndaðist fallegur eldgígur í lok myndunar fjallsins.
Er varla nokkur slík fjöll önnur að finna í heiminum á jafnmiklu sléttlendi og Herðubreið stendur.
Í gróðurvininni Herðubreiðarlindum við hraunjaðar norðaustan fjallsins speglast fjalladrottningin fallega á góðviðrisdögum í lindunum. Þessu er reynt að lýsa í tveimur erindum ljóðsins "Kóróna landsins."
Í ísaldarfrosti var fjallanna dís /

fjötruð í jökulsins skalla /
uns Herðubreið þrýsti sér upp gegnum ís, /
öskunni spjó og lét falla. /
Er frerinn var horfinn var frægð hennar vís, /
svo frábær er sköpunin snjalla. /
Dýrleg á sléttunni draumfögur rís /
drottning íslenskra fjalla.
Að sjá slíkan tind /
speglast í lind /
og blómskrúðið bjart /
við brunahraun svart!
Ég er að klára vorferðir á tvö svæði, sem ég vil þyrma og varðveita ósnortin, Þótt þegar sé búið að vinna mikil spjöll á þeim báðum.
Annars stækkun Kelduárlóns sem verður gersamlega óþörf, enda lónið óþarft.
Hins vegar að bjarga heimsundrinu Leirhjúki-Gjástykki.
Jakob Björnsson orðaði draumsýn sína um virkjanir á gervallri orku landsins þannig, að óþarfi væri að láta neina á eða hver óhreyfðan, því að menn gætu verið ánægðir með að fjöllin yrðu áfram hin sömu, Bláfjall, Búrfell og Herðubreið, þótt Skjálfandafljóti yrði veitt í Kráká og Laxá, Laxárdal sökkt og nú síðast öll hverasvæðin færð í búning Heillisheiðarvirkjnar, 6-7 að tölu.
Mikið eigum við nú ótrúlegum rausnarskap og örlæti virkjanafíklanna að þakka að þeir skuli lofa okkur að halda Herðubreið ósnortinni !
ara verið?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)