Komu að oltnum bíl, - ekki bílveltu, eða hvað ?

Í frétt á mbl.is segir frá því að björgunarsveit hafi ekið fram á oltinn bíl rétt sunnan við Staðarskála. Greinilegt er á fréttinni að bíllinn var á hvolfi þegar að honum er komið og því stenst sú staðhæfing fréttarinnar varla að björgunarsveitarmenn hafi "komið að bílveltu" eða þessi orð: "..óku fram á bílveltu."

Bílveltunni var lokið áður en komið var að bílnum. Bílveltan stendur aðeins yfir meðan bíllinn er að velta en ekki áfram eftir að bíllinn hefur hætt að velta.

Ef björgunarsveitarmenn hefðu ekið fram á mann, sem hefði verið rotaður með kjaftshöggi og legið þar í rotinu, hefð þá verið hægt að segja: "komu að rothöggi?"

Menn koma að oltnum bíl, að bíl á hliðinni, eða bíl á hvolfi en ekki bílveltunni sjálfri, er það ekki?

Orðalagið í fréttinni er angi af þeirri furðulegu árátta að segja "bílvelta varð" heldur en að segja einfaldlega: "bíll valt."


mbl.is Björgunarsveitarmenn komu að bílveltu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt orð í mínum eyrum: "Gærnótt."

Ég er að verða 69 ára gamall og hef farið víða og dvalið hjá fólki fyrir norðan og sunnan mánuðum saman. Í kvöld heyrði ég nýtt orð í sjónvarpinu: "Í gærnótt."

Í meira en 60 ár hef ég ekki heyrt annað sagt um næstu nætur á undan þeim degi, sem miðað er við: "Þetta gerðist í nótt, - um næstu nótt á undan viðkomandi degi, - og "þetta gerðist í fyrrinótt", um næstu nótt þar á undan. Ég minnist þess ekki að nokkurn tíma hafi verið einhver vafi um það hvaða nótt hefur verið átt við 

Ég verð bara að játa hvað ég fylgist illa með og kem upp um fáfræði mína þegar ég spyr: Hvaða nótt er "gærnótt"? Er það síðasta nótt eða fyrrinótt, nóttin þar á undan?

Í staðinn fyrir hvaða orð kemur orðið gærnótt? Er það kannski nóttin á undan gærdeginum?

Hvort eigum við að hætta að segja "í nótt" eða "í fyrrinótt."  

Úr því að orðið er kennt við gærdaginn, hvort er táknar það nóttina á undan gærdeginum eða á eftir gærdeginum?  Hefur hugsanlegt vandamál verið leyst með því að bæta þessu nýja orði í orðaforðann? Eða hugsanlega búið til nýtt vandamál?   

Hvernig stendur á því að skyndilega hefur myndast einhver knýjandi þörf fyrir orð eins og gærnótt eftir að hægt hefur verið að lifa án þess vandræðalaust um aldir?   

 


Fékk Selma kross? Fær Jóhanna Guðrún kross?

Miðað við áhorf í Evrópu á Evróvisionkeppnina er líklegt að mun fleiri hafi vitað um silfur Jóhönnu en silfur handboltalandsliðsins. Á hinn bóginn er hins að gæta að árangur handboltalandsliðsin var einstæðari að því leyti að aldrei áður hefur örþjóð náð svo hátt í flokkaíþrótt á Ólympíuleikum.

Orðunefndin svonefnda fær því snúið úrlausnarefni hvað þetta snertir. Á móti því kemur að þegar litið er yfir nafnalista þeirra sem hafa fengið fálkaorðu sýnist manni þær Selma Björnsdóttir og Jóhanna Guðrún Jónsdóttir standast þær lágmarkskröfur sem kunna að vera gerðar til þessarar orðuveitingar. 


mbl.is Forsetinn sendi Jóhönnu Guðrúnu kveðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verða þau Rybek og Jóhanna heitasti dúettinn?

Þau ummæli féllu frá fulltrúum þáttökulanda þegar þeir skýrðu frá atkvæðum landa sinna í Evróvision í kvöld að Norðmaðurinn væri sætasti strákurinn og Jóhanna sætasta stelpan á sviðinu.

DSCF5149

Kornungir fulltrúar frændþjóðanna lyftu löndum sínum upp í kvöld.

Ekki veitti Íslendingum af því. 

Úrslit kosninganna eins og skrifuð af spennusöguhöfundi, þar sem fulltrúi sigurþjóðarinnar, Norðmanna átti síðasta orð kosninganna: "12 stig - til Íslands!"

Loksins glæta í lífi íslensku þjóðarinnar eftir svartnættið sem kom með bankahruninu í kjölfar silfursætisins í handknattleik á Ólympíuleikunum.

Ég spáði því í blogginu á kosninganóttina eftir að hafa heyrt og séð norska lagið í fyrsta sinn að það gæti ekki annað en sigrað, - hafði þó ekki heyrt nema örfá önnur lög.

Óraði þó ekki fyrir mesta yfirburðasigri í sögu keppninnar.                                      

DSCF5153

Mikið má vera ef einhver umbinn sér ekki möguleika í því að þau Rybek og Jóhanna syngi saman lag í náinni framtíð.

Jafnvel fleiri lög á heilum diski.

Það ætti að geta orðið heitasti dúettinn í Evrópu.  

Árlegt Evróvision-partí elsta barns okkar hjóna var dásamlega skemmtileg samkoma.

Myndirnar lýsa fögnuði gestanna í sumarblíðunni á veröndinni við heita pottinn.

Það var sungið og dansað af fölskvalausri fjöri og gleði.   

  

DSCF5148

Þetta er stórfjölskylda og því sést aðeins lítið brot hennar á þessum myndum.  

Sigur Norðmanna gat ekki komið á betri tíma fyrir þá. Rybek og félögum verður fagnað sem þjóðhetjum þegar þau koma heim á sjálfan þjóðhátíðardag Norðmanna. 


mbl.is Ísland í 2. sæti í Moskvu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband