21.5.2009 | 06:14
"Eyjan í lóninu, - griðland fugla" !
Í athugasemd við blogg mitt um íslenska náttúru í gær ræddi sá sem hana skrifaði um það hve það hefði verið mikið til batnaðar á flesta lund sem gerst hefði við Kárahnjúka.
Stíflan væri fögur og nú væri komin eyja í lónið sem væri griðland fugla.
Stíflan er smekksatriði sem ég skal ekki taka afstöðu til en ekki minnist maðurinn á það hve illa útleikinn Kárahnjúkur er fyrir ofan hana þar sem menn hafa neyðst til að sarga í hnjúkinn, - nokkuð sem aldrei var sýnt á myndum af stíflunni sem sýndar voru fyrir virkjun.

Nú er ég búinn að fara alls sjötíu ferðir á þetta svæði á síðustu þremur árum og kannast ekki við það "griðland fugla" sem maðurinn telur vera komið þarna á Sandfelli, en það er eina eyjan í lóninu.
Hef aldrei séð neina fugla á Sandfelli, hvorki síðustu þrjú ár né þar á undan.
Hér með pisltinum fylgja tvær myndir af þessari "eyju". Þar sést að Sandfell er ekki eyja, heldur fell sem stendur allhátt yfir ofan vatnsbakkann sem sést móta fyrir.
Á efri myndinni sést vegur í forgrunni, en þangað nær lónið upp þegar það er orðið fullt í ágústbyrjun, en hinum megin við Sandfell sjást lónið og Kárahnjúkavirkjun.

Sést glögglega það flæmi allt í kringum Sandfell sem er á þurru en raunar hulið snjó eins og er.
Þetta sést enn betur á næstefstu myndinni, þar sem hæsta vatnsborð lónsins markast af svart-hvítri rönd uppi í hlíð fellsins sem er fjöruborð Hálsllóns þegar það er fullt og liggur 45 metrum hærra en það er nú.
Undir snjónum, vinstra megin á myndinni, sést móta fyrir veg sem forðum lá út með Sandfelli vestanverðu og lendir á kafi þegar hækkar í lóninu.
Raunar verður Sandfell ekki eyja fyrr en komið er langt fram í júlí, löngu eftir að fuglar eru búnir að gera sér hreiður annars staðar.
Meira en helmingur lónstæðisins verður á þurru þegar ísa leysir og meira 20 ferkílómetrar lands þá þaktir fíngerðum sandi og leir.
En svo mikil er trú manna á þá landbót sem lónið eigi að vera að sá mæti maður Kristinn Pétursson á Bakkafirði skrifaði um það hve góð áhrif Hálslón ætti eftir að hafa á gróður og raka allt um kring.
Hið sanna er að nú eru menn að setja upp fokgirðingar á svæðum, sem fullyrt var að yrðu ekki í neinni hættu fyrir sandfoki, að ekki sé talað um varnargarðinn 18 kílómetra langa á austurbakkanum, gryfjurnar og allar aðrar ráðstafanir sem menn eiga eftir að sjá í sumar í hinu vonlausa stríði sem þarna verður háð við uppfokið úr þurru lónstæðinu snemmsumars.
En trú þessara manna er mikil, því verður ekki neitað
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)