Rétt stefna á röngum tíma?

Það kostar annaðhvort peninga eða útsjónarsemi að koma stefnumálum stjórnmálaflokka á framfæri. Nema hvort tveggja sé.

Þetta kemur mér í hug þegar sagðar eru fréttir af því að rætt hafi verið um fjármuni á fundi Borgarahreyfingarinnar, vegna þess að um síðustu helgi sá ég stóra Morgunblaðsauglýsingu í kaffiteríu Flugfélags Íslands.

Hún sést á mynd hér á síðunni. 

Athygli mína vakti forsíðufyrirsögn með stærsta letri um það að stefna þyrfti að auknu lýðræði til að fjalla"" "allt sem þjóðina varðar".

DSCF5184

Einnig, að undirbúa skyldi aðild að ESB.

DSCF5132

Ég hugsaði með mér: Ansi er Borgarahreyfingin lunkin að fá svona risafyrirsögn í sjálfum Mogganum um mál sín, peningalaus flokkurinn. Hvernig í fjandanum fóru þau að þessu?

Þegar ég gætti betur að var þarna verið að fjalla um þörfina á auknu og beinna lýðræði, meðal annars með þjóðaratkvæðagreiðslum og um það að undirbúningur aðildar að ESB ætti að felast í því að vera með samningsmarkmiðin klár og frágengin ef að því kæmi að talið væri rétt að sækja um aðild.

 

En dagsetning blaðsins vakti undrun mína: 15. apríl 2007. Og nú rifjaðist upp við mig viðtal í viðtalaröð við talsmenn þáverandi framboða sem blaðamaður Morgunblaðsins átti við mig í aðdraganda kosninganna 2007 þar sem ég reifaði fyrir honum stefnumál Íslandshreyfingarinnar um breytingar á stjórnarskránni, stóraukið vægi þjóðaratkvæðagreiðslna, jöfnun atkvæðavægis, nýja kjördæmaskipan, auknu valdi þingnefnda, - að ráðherrar mættu ekki vera þingmenn o. s. frv.

Það rifjaðist líka upp fyrir mér að blaðamaðurinn hafði greinilega tekið þann pól í hæðina að gera þetta að fyrirsögnum sínum vegna þess að engin önnur framboð höfðu þessi mál á oddinum og allir vissu hvaða stefnu Íslandshreyfingin hafðí í umhverfismálum.

Fréttamaðurinn var að leita að einhverju nýju og öðruvísi og fann það og birti. Kannski sést þetta betur með því að smella einu sinni á myndina og síðan aftur. 

Skemmst er frá því að segja að enginn áhugi var hjá almenningi né öðrum stjórnmálaflokkum á þessum málum vorið 2007. Aðeins einu sinni tókst mér í ljósvakaumræðum þessarar kosningabaráttu að fá að minnast á þau.

Á borgarafundi í vor sagði Birgir Ármannsson og trúði því sjálfur að ég hefði aldrei haft neinn áhuga á stjórnarfarsbreytingum fyrr en nú í vor.  

Auðvitað fóru þessi mál fyrir ofan garð og neðan fyrir tveimur árum. Allir voru með hugann við peninga og efnahagsmál og bæði Samfylking og VG minntust ekki á umhverfismál í heilsíðuauglýsingum sínum síðustu vikurnar fyrir kosningar.


mbl.is Lítið um völd og ekkert af peningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Röng hönnun girðinga.

IMGP0017Í blogginu í gær var fjallað um tvær blindar beygjur í gatnakerfi Reykjavíkur. Annars vegar á gatnamótum Birkimels og Hringbrautar og hins vegar á mótum Bolholts og Laugavegar.

Á báðum stöðum snýst vandinn um skerðingu á útsýni ökumanna, sem eru á vesturleið og þurfa að beygja til vinstri eins og sést á myndinni hér við hliðina, sem er tekin frá sjónarhorni bílstjóra sem þarf að beygja upp í Bolholt. 

Þarna sést greinilega að grindverk, sem reist hefur verið á miðri steinsteyptri eyju milli akbrauta byrgir fyrir útsýni til vesturs.

Ökumaðurinn, sem horfir úr bíl sínum til vesturs á erfitt með að fara lengra til að gægjast til vesturs því að þá skagar bíll hans út í götuna og skapar hættu. 

Eins og sést er sérstök gangbraut með gangbrautaljósum þarna rétt fyrir vestan og er með ólíkindum að fólk skuli hafa verið að flækjast þarna yfir götuna.

Hvað um það, hér set ég fram tvennar tillögur til úrbóta og þarf ekki endilega að framkvæma þær báðar.

1. Gera girðinguna betur gegnsæja séð frá þessum stað. Styrkja láréttu teinana og fækka þeim lóðréttu það mikið að það sjáist betur í gegn. Gallin við þetta er samt sá að eftir því sem girðingin horfir beinna við verður erfiðara að sjá í gegnum hana. 

2. Hnika girðingunni til hægri og stytta hana jafnframt eitthvað. Enginn á hvort eð er að vera gangandi á steinsteyptu eyjunni en það myndi muna talsverðu um þessa færslu girðingarinnar eins og vel sést af þessari mynd.

Aðgerð númer 2 er virðist árangursríkari, sýnist mér.  


Stærstu tímamót Sjálfstæðisflokksins.

Á 80 ára afmæli sínu stendur Sjálfstæðisflokkurinn á stærstu tímamótum sögu sinnar.

Hann hóf feril sinn glæsilega og náði í Alþingiskosningum 1933 48% fylgi. Á þeim tíma var flokkurinn í stjórn með Framsóknarflokknum og alla tíð síðan hefur ekki verið hægt að mynda ríkisstjórn á Íslandi nema annar hvor eða báðir þessara flokka ættu hlut að máli.

Ef miðað er við fyrirrennara Sjálfstæðisflokksins hefur þetta ekki verið hægt allar götur frá upphafi núverandi flokkaskipunar 1916.

HIð ægisterka vald, sem flokkurinn hafði áratugum saman varð til þess að á tímabili var til dæmis varla hægt að segja að til væri sá sýslumaður á Íslandi sem hefði komið nálægt vinstri pólitík en langflestir þeirra hins vegar innvígðir hægra megin í litrófinu.

Á þessum 80 árum hefur flokkurinn aðeins verið utan þingræðisstjórnar í 13,5 ár. Í krafti þess tókst flokknum að hreiðra býsna vel um sig í embættismannakerfinu.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur lýst Sjálfstæðismönnum þannig að þeir vildu "græða á daginn og grilla á kvöldin." Af því hefur leitt þörf þeirra fyrir sterka foringja sem þeir gætu treyst fyrir því að stjórna landinu.

Matthildingar með Davíð Oddsson innanborðs kölluðu hann "Sjálfgræðisflokkinn."

En það getur líka reynst hættulegt virku lýðræði þegar kjósendur nenna ekki að taka þátt í því.

Flokkurinn átti lengst af glæsilega foringja. Þótt þeir þjónuðu fyrst og fremst markaðsöflunum höfðu þeir lag á því í því umhverfi samsteypustjórna sem hér var að sinna velferðarkerfinu nægilega mikið til að höfða til kjósenda langt inn á miðjuna.

Ólafur Thors stýrði sjálfstæðimálum vel 1945 og stóð að fyrstu útfærslu landhelginnar 1952. Viðreisnarstjórnin 1959-1971 var einhver besta ríkisstjórn sem hér hefur setið að mínu mati og hefði hugsanlega getað haldið velli 1971 ef ekki hefði komið til fráfall Bjarna Benediktssonar og mistök í landhelgisstefnu stjórnarinnar.

Flokkurinn hafði meirihluta í Reykjavík í 68 ár af þessum 80 og til að halda honum gætti hann þess að reka jafnan nokkuð öflugt félagsmálakerfi í borginni.

Tvö kjörorð flokksins frá fyrri tíð, "gjör rétt - þol ei órétt" og "stétt með stétt" heyrðust hins vegar ekki hina síðustu áratugi.

Á árunum 1982-1999 var Davíð Oddsson glæsilegur foringi flokksins, fyrst í borgarstjórn og síðan í ríkisstjórn.

En 17 ára samfelld sigurganga í æðstu valdastólum er nokkuð sem til dæmis Bandaríkjamenn hafa fundið út að sé engum holl, hversu frábær sem hann er.

Síðustu ofríkisvaldaár Davíðs og slímseta flokksins í ríkisstjórn í 18 ár voru hvorki flokknum né þjóðinni holl og hrunið mikla verður að skrifast mest á það. Nú er fylgi flokksins aðeins helmingur þess sem það var 1933 og flokkurinn hefur fengið verðskuldað frí til að endurhæfa sig, læra af fortíðinni og gera upp við hana til geta orðið að nýju boðlegur valkostur í íslenskum stjórnmálum.

Það er nauðsynlegt fyrir kjósendur að í boði séu flokkar jafnt til hægri sem vinstri sem hægt sé að velja á milli.

Foreldrar mínir voru Sjálfstæðisfólk, móðir mín formaður Hvatar og kona mín gekk 14 ára í flokkinn og var varaborgarfulltrúi hans um langt árabil. Ég steig mín fyrstu spor sem skemmtikraftur úti á landi á héraðsmótum flokksins og skemmti árum saman fyrir hann á þeim og á landsfundum hans í 40 ár.

Ég hef því sterkar taugar til hans þótt ég hafi aldrei kosið hann í alþingiskosningum, - kaus hann þó oftast í borgarstjórnarkosningum. Hef reyndar um dagana kosið fleiri en tvo og fleiri en þrjá flokka í alþingiskosningum.

Ég fékk fjölbreytt pólitískt uppeldi því afi Þorfinnur var mikill verkalýðssinni og Héðinsmaður og afi Ebbi var hægfara krati. Ég vildi kynnst öllu í foreldrahúsum og gerðist því áskrifandi að Þjóðviljanum til mótvægis við Moggann þeirra. Aðhylltist þó ekki utanríkisstefnu kommanna og Sovétþjónkun.

Ég lít á Sjálstæðisflokkinn sem vin minn sem hefur átt við veikinda að stríða og ég óska honum góðs bata og til hamingju með afmælið.

Megi hann verða á ný hlutgengur og öflugur flokkur í íslenskum stjórnmálum, hvort sem er í stjórn eða stjórnarandstöðu.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn áttatíu ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband