26.5.2009 | 13:28
Fréttir gerast þegar þeim sýnist.
Á næsta ári eru rétt 50 ár síðan ég vann í fyrsta sinn við blaðamennsku. Það var á dagblaðinu Vísi. Ýmislegt hefur maður lært á þessari tæpu hálfri öld í bransanum.
Nefna má fjögur atriði:
1. Nú, rétt eins og þá, vekja fréttir af ofbeldi og kynlífi áhuga. Einhver stærsta fréttin að vetrarlagi um 1950 var um að prestur einn utan af landi hefði guðað á glugga að næturþeli hjá konu einni í Þingholtunum og var ekki að því að spyrja að lögregluþjónn, sem var í tygjum við konuna að mig minnir og þótti málið vera sér skylt, réðst þegar til atlögu við prestinn með félögum sínum í löggunni og færði hann til yfirheyrslu niður á lögreglustöð.
Presturinn var síðan látinn laus og málið féll niður, en fólk deildi um það hvort meint brot hans hefði réttlætt það að grípa til svona harkalegra aðgerða gegn honum. Þar með var komin formúla að dúndurfrétt með hæfilegu ívafi af ofbeldi og kynlífi. Og ekki dró það úr að um meintan gerning prestsins er notað máltækið "að guða á glugga."
Í revíu Bláu stjörninnar söng Soffía Karlsdóttir í kjölfar þessa:
"En sértu ennþá ung og dreymin /
er enginn vandi´að fleka heiminn. /
Ef freistingarnar guða á gluggann þinn /
þá gættu þess að hleypa þeim inn.
Hér á mbl.is má sjá að tvær fréttir af kjallaraslysum karlmanna hafa fengið mikla lesningu.
Heyrt hef ég talað um það, bæði almennt og í bloggheimum, að býsna sé skrýtin árátta hjá mbl.is að velta sér upp úr slíkum fréttum og spurt er hvort sams konar fréttir af kvenfólki komi í næstu viku.
Og þá kem ég að atriði númer tvö:
2. Fréttir gerast þegar þeim sýnist. Þetta getur verið hábölvað fyrir fjölmiðlafólk en blaða- eða fréttamaður sem sættir sig ekki við þetta, þyrfti helst að finna sér annað starf því að þetta eðli fréttanna getur verið mjög ergilegt ef menn láta það fara í taugarnar á sér.
Báðar karlmannakjallarafréttirnar á mbl.is eru þess eðlis að þær eru afar fátíðar. Þess vegna eru þær fréttnæmar.
Báðar fréttirnar gerðust þegar þeim sýndist, - ekki eftir beiðini mbl. is. Hvenær sem er hefði hvor þeirra um sig átt rétt á sér að því gefnu að ekki væri mikið annað og merkilegra að gerast á þeim tíma.
Ef maður hefði bitið hest, svo að stórséð hefði á og annar maður bitið hund til bana sama dag, hefði verið út í hött að fara að færa þær til eða sleppa þeim bara vegna þess að þær gerðust á sama tíma. Þaðan af síður að fara að leita uppi einhverjar fréttir af hestum og hundum sem bitu menn í næstu viku.
Þá kem ég að því þriðja sem margir eiga erfitt með að sætta sig við:
3. Mikilvægi frétta fer eingöngu eftir því hvaða fréttir aðrar eru að gerast á sama tíma. Um þetta má nefna ótal dæmi.
Í "gúrkutíð" getur mjög lítil frétt orðið fyrsta frétt. Þegar margir stóratburðir eru að gerast samtímis getur einhver þeirra fallið alveg útbyrðis.
Þetta er auðvitað augljóst en á löngum ferli voru það ekki svo fáar stundirnar sem fóru í það að útskýra fyrir óánægðum aðstandendum jákvæðra og góðra frétta, að því miður hefðu aðrar og stærri fréttir orðið að hafa forgang.
Tímaritið Time ætlaði að hafa forsíðu og aðalpistil blaðsins um Heimaeyjargosið 1973. En Lyndon B. Johnson fyrrverandi Bandaríkjaforseti tók upp á því að deyja síðar sama dag og blaðið hætti við gospistilinn.
20. ágúst 1980 átti stórsýning dansks sirkus að verða fyrsta frétt sjónvarps. Hekla byrjaði að gjósa þennan dag og aldrei var sagt frá sirkusnum.
Daginn sem Hekla byrjaði að gjósa 1991 varð það ekki aðalfréttin þann dag, því að sama dag hófst Flóastríðið.
Þá er það fjórða atriðið:
4. Eðli frétta er betur útskýrt í erlendum heitum um fyrirbærið heldur en í íslenska orðinu frétt. Á ensku "News".
Á dönsku "nyheder." Sem sagt: Eitthvað nýtt, eitthvað sem er sérstakt, óvenjulegt.
Það er ekki frétt ef hundur bítur mann en hins vegar frétt ef maður bítur hund.
![]() |
Skaut sig óvart í kynfærin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.5.2009 | 12:45
Þörf á yfirsýn.
Stærsti gallinn við rekstur ríkissjóðs og margra annarra sjóða og stofnana er sá að einblínt er á kostnað innan þröngs ramma en ekki hugað að áhrifum á aðra þætti eða heildaráhrifum á þjóðfélagið allt. Stundum er dregið úr útgjöldum í einni stofnun eða deild með þeim eina árangri að útgjöld annarrar stofnunar eða deildar eykst.
Þannig væri hægt að leggja niður starfsemi Hjartaverndar eða skerða hana um helming, en ef dæmið yrði reiknað til enda sæist að tjónið af völdum vaxandi hjartasjúkdóma og fjölgandi hjartaáfalla fyrir heilbrigðiskerfið og þjóðfélagið yrði margfalt meiri en nemur ímynduðum sparnaði.
Reiknað hefur verið út að hvert dauðaslys kosti þjóðfélagið ekki minna en 200 milljónir króna og er þá ekkert tillit tekið til andlegra þjáninga. Beint peningalegt tjón af völdum umferðaslysa er talið í tugum milljarða árlega og það þarf því að huga að því hve langt megi ganga í að skerða forvarnir og varúðarráðstafanir án þess að tjónið verði miklu meira fyrir samfélagið allt.
Ekki fer á milli mála að harkalegan og róttækan niðurskurð þarf í opinberum útgjöldum. Þá verður að huga að því hve varasamur flatur niðurskurður getur verið og að því hvaða áhrif á annan rekstur sparnaður á hverju sviði hefur.
![]() |
Umferðarráð varar við niðurskurði fjármagns til umferðarmála |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.5.2009 | 00:29
"Allir vita það en enginn sér það."
Fyrir hálfri öld fór Brynjólfur Jóhannesson með gamanbrag þar sem hvert erindi endaði á setningunni: "Svona gengur það, svona er það, allir vita það en enginn sér það."
Ég man ekkert af þessum vísum en gerði fyrir mörgum árum texta og lag undir heitinu: "Svona gengur það."
Þetta er fjöldasöngur og ég hef fengið fólk til að syngja þessar tvær línur með mér. Birti hann kannski seinna hér á blogginu.
En þessi setning leiðir hugann að því að ýmislegt viðgengst í þjóðfélaginu án þess fólki finnist taka því að gera neitt í málinu.
Dæmið með ritstjóra og blaðamann New York Times sem vissu um Watergate-málið á undan Washington Post en gerðu ekkert í því er ekkert einsdæmi.
Þetta er nefnilega oft spurningin um það hvað fólk vill raunverulega vita.
Í virkjanamálunum hef ég allan tímann upplifað það að fólk vill helst ekki vita um eðli framkvæmdanna. Og jafnvel þótt sama staðreyndin sé endurtekin gerir fólk ekkert með það. Það er svo miklu þægilegra.
Fyrir nokkrum árum greindi ég frá því hér á blogginu hvernig ég hefði fengið svör frá sérfræðingum í símamálum, sem voru undir rós, rétt eins og svipur heimildarmannsins í Watergate-málinu.
Um leið og síðasti sérfræðingurinn sagði mér að það tilfelli, sem ég hafði borið undir nokkrar sérfræðinga, væri þess eðlis að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af því að þar væri um að ræða símahleranir, sagði hann: "Þú getur verið alveg rólegur yfir því að þetta er ekki símahlerun, því að til þess að þetta geti verið símahlerun þarf aðstöðu, peninga og mannskap."
Einmitt það, já. Og síðan ekki söguna meir.
Það hefur greinilega enginn áhuga á því að gera neitt í þessum málum. Allir vita það en enginn vill sjá það.
![]() |
Vissu af Watergatehneykslinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)