"Allir vita það en enginn sér það."

Fyrir hálfri öld fór Brynjólfur Jóhannesson með gamanbrag þar sem hvert erindi endaði á setningunni: "Svona gengur það, svona er það, allir vita það en enginn sér það."

Ég man ekkert af þessum vísum en gerði fyrir mörgum árum texta og lag undir heitinu: "Svona gengur það."
Þetta er fjöldasöngur og ég hef fengið fólk til að syngja þessar tvær línur með mér. Birti hann kannski seinna hér á blogginu.

En þessi setning leiðir hugann að því að ýmislegt viðgengst í þjóðfélaginu án þess fólki finnist taka því að gera neitt í málinu.

Dæmið með ritstjóra og blaðamann New York Times sem vissu um Watergate-málið á undan Washington Post en gerðu ekkert í því er ekkert einsdæmi.

Þetta er nefnilega oft spurningin um það hvað fólk vill raunverulega vita.

Í virkjanamálunum hef ég allan tímann upplifað það að fólk vill helst ekki vita um eðli framkvæmdanna. Og jafnvel þótt sama staðreyndin sé endurtekin gerir fólk ekkert með það. Það er svo miklu þægilegra.

Fyrir nokkrum árum greindi ég frá því hér á blogginu hvernig ég hefði fengið svör frá sérfræðingum í símamálum, sem voru undir rós, rétt eins og svipur heimildarmannsins í Watergate-málinu.

Um leið og síðasti sérfræðingurinn sagði mér að það tilfelli, sem ég hafði borið undir nokkrar sérfræðinga, væri þess eðlis að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af því að þar væri um að ræða símahleranir, sagði hann: "Þú getur verið alveg rólegur yfir því að þetta er ekki símahlerun, því að til þess að þetta geti verið símahlerun þarf aðstöðu, peninga og mannskap."

Einmitt það, já. Og síðan ekki söguna meir.

Það hefur greinilega enginn áhuga á því að gera neitt í þessum málum. Allir vita það en enginn vill sjá það.


mbl.is Vissu af Watergatehneykslinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband