9.5.2009 | 00:08
"Vindurinn og snjórinn..."
Franskur ofurhugi gekk þvert yfir Vatnajökul þvert ofan í allar ráðleggingar hér um árið og fannst nær dauða en lífi við sunnanverðan jökulinn.
Það var ótrúlegt kraftaverk að hann skyldi lifa þetta af. Hann sagði eftirminnilega setningu þegar hann var spurður hvers vegna hann hefði anað út í þessa vitleysu.
"Það var tvennt sem kom mér algerlega á óvart", stundi maðurinn upp. "Það var vindurinn og snjórinn."
Það sem hann átti við var að vindurinn var svo mikill að ekkert stóðst hann og í lokin tætti hann tjaldið í sundur.
En á meðan að tjaldið var þó heillegt hafði það svo sem ekki breytt miklu. Snjórinn, sem kom honum svona mikið á óvart, var svo fínkornóttur að vindurinn sá til þess að hann smaug hvort eð er inn um minnstu rifur og fyllti tjaldið.
Strax síðastliðinn þriðjudag og miðvikudag var sýnt á veðurspákortum hvernig djúp lægð sem færi í austur fyrir sunnan landið myndi valda miklu norðanáhlaupi hér á landi, sem myndi endast fram á laugardag.
Þetta þýddi með öðrum orðum að óðs manns æði og gagnslaust með öllu væri að leggja á háfjöll, jafnvel á venjulegar lágar heiðar í þessu veðri.
Vindurinn og snjórinn sjá til þess að snjórinn smýgur inn í vélarhús vélsleða, jöklajeppa og snjóbíla. Skyggnið er nákvæmlega ekkert. Hörðustu og vönustu fjallamenn halda kyrru fyrir og láta sig fenna í kaf.
Ég hef verið á ferð með mestu harðjöxlum jöklaferðanna og kynnst þessu. Ísland er eitthvert mesta rokrassgat heims meiri hluta ársins. Íslenskur vindur og snjór eiga enga jafnoka.
"Vindurinn og snjórinn" eiga ekki að koma neinum á óvart á íslenska hálendinu.
Franski ofurhuginn sem mælti þessi orð, týndist að lokum í gönguferð í áttina að Norðurpólnum enda þótt hann hefði kynnst vindi og snjó mesta rokrass heims. Sumir læra aldrei, því miður.
![]() |
Vélsleðum snúið við á Vatnajökli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)