"Vindurinn og snjórinn..."

Franskur ofurhugi gekk þvert yfir Vatnajökul þvert ofan í allar ráðleggingar hér um árið og fannst nær dauða en lífi við sunnanverðan jökulinn.

Það var ótrúlegt kraftaverk að hann skyldi lifa þetta af. Hann sagði eftirminnilega setningu þegar hann var spurður hvers vegna hann hefði anað út í þessa vitleysu.

"Það var tvennt sem kom mér algerlega á óvart", stundi maðurinn upp. "Það var vindurinn og snjórinn."

Það sem hann átti við var að vindurinn var svo mikill að ekkert stóðst hann og í lokin tætti hann tjaldið í sundur.
En á meðan að tjaldið var þó heillegt hafði það svo sem ekki breytt miklu. Snjórinn, sem kom honum svona mikið á óvart, var svo fínkornóttur að vindurinn sá til þess að hann smaug hvort eð er inn um minnstu rifur og fyllti tjaldið.

Strax síðastliðinn þriðjudag og miðvikudag var sýnt á veðurspákortum hvernig djúp lægð sem færi í austur fyrir sunnan landið myndi valda miklu norðanáhlaupi hér á landi, sem myndi endast fram á laugardag.

Þetta þýddi með öðrum orðum að óðs manns æði og gagnslaust með öllu væri að leggja á háfjöll, jafnvel á venjulegar lágar heiðar í þessu veðri.

Vindurinn og snjórinn sjá til þess að snjórinn smýgur inn í vélarhús vélsleða, jöklajeppa og snjóbíla. Skyggnið er nákvæmlega ekkert. Hörðustu og vönustu fjallamenn halda kyrru fyrir og láta sig fenna í kaf.

Ég hef verið á ferð með mestu harðjöxlum jöklaferðanna og kynnst þessu. Ísland er eitthvert mesta rokrassgat heims meiri hluta ársins. Íslenskur vindur og snjór eiga enga jafnoka.

"Vindurinn og snjórinn" eiga ekki að koma neinum á óvart á íslenska hálendinu.

Franski ofurhuginn sem mælti þessi orð, týndist að lokum í gönguferð í áttina að Norðurpólnum enda þótt hann hefði kynnst vindi og snjó mesta rokrass heims. Sumir læra aldrei, því miður.


mbl.is Vélsleðum snúið við á Vatnajökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég fylgdist líka með veðurfréttum fyrr í vikunni og sá að þetta norðanáhlaup væri að koma, svo að ég skil hreinlega ekki hvað einn leiðsögumaðurinn var að tala um  þegar hann sagði að spáin hefði ekki sýnt vind?!

Ari (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 03:45

2 Smámynd: Guðrún Olga Clausen

Mikið er ég sammála þér Ómar um fífldirfsku sumra sem halada að þeir séu ódauðlegir. Svo finnst þeim allt í lagi að menn og konur leggi sig í hættu og kostað sé til háum fjárhæðum þegar allt fer í óefni.

Guðrún Olga Clausen, 9.5.2009 kl. 08:41

3 Smámynd: Sigurlaugur Þorsteinsson

Mér finnst þessi frétt bara sýna og sanna en og aftur hversu öflugar björgunarsveitir við eigum og hvet alla til að versla flugelda sína hjá þeim og öngvum öðrum,svo þeirra óeigingjarna starf verði áfram jafn öflugt og þróttmikið

Sigurlaugur Þorsteinsson, 9.5.2009 kl. 14:12

4 Smámynd: TARA

Það er svo satt hjá þér Ómar, að sumir læra aldrei....

Það er alveg ótrúlegt þegar dvergar, eins og við mennirnir erum, þykjumst geta ráðið við risa eins og veðrið er.

TARA, 9.5.2009 kl. 19:07

5 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Ég er ekki alveg sammála Ómar: Það er líka hægt að selja Ísland sem rokrassgat og áhættusvæði fyrir áhættuferðamennsku. Þá verðum við að hafa góðar björgunarsveitir og þær eru líka atvinnuskapandi.

Ásgeir Rúnar Helgason, 9.5.2009 kl. 19:25

6 identicon

Þetta er mikið rétt hjá þér, Ómar, ég man svo vel eftir þessum Frakka sem neitaði að taka tillit til folksins sem í endanum bar ábyrgð á honum - og sem hringdi fyrst í útvarpið þegar hann komst í byggð í staðinn fyrir à láta okkur vita... og greiddi aldrei reikningana sína.  En menn læra seint eða aldrei að náttúran er sterkari þannig að hún verður að minna á sig. En varðandi áhættuferðamennsku, eru ekki björgunarsveitir í sjálfboðavinnu??? Áhættuferðamennsku kallar á tryggingar, er það ekki?

Dominique (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 23:54

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nú eru liðin 17 ár síðan ég kom til vesturstrandar Írlands og ók þar svonefndan Kerry-hring. Veðrið þar þá var svipað og það var á veðurkortinu þessa síðustu daga, - hvass suðvestanvindurinn stóð beint af Atlantshafinu upp á ströndina og öll trén á ströndinni voru lauflaus þeim megin sem sneri að ströndinni vegna saltroksins.

Írar létu vel af ferðamannastraumnum þarna, sem ég undraðist þangað til þeir útskýrðu fyrir mér að markhópar þeirra væru Grikkir, Ítalir og Spánverjar, sem kæmu á þessar slóðir til að standa á ströndinni fyrir framan Atlantshafið og fá saltblandaðar skúrahryðjurnar framan í andlitið.

Þarna var sem sé verið að selja tugþúsundum fólk það sem kallað er upplifunarferðamennska, líkt og gert er á veturna í Lapplandi þar sem Suðurlandabúum er selt fernt: Myrkur-kuldi-þögn- ósnortin náttúra.

Lappland er lengra frá Frakklandi og Spáni er Ísland sem samt er sagt: Æ, það er alltof langt hingað, það er of kalt, það er hráslagalegt, það þýðír ekki að selja Suðurlandabúum annað en heiðskírt veður, logn, hita og skóg, og þá er Hallormsstaðaskógur okkar stóra tromp!

Ómar Ragnarsson, 10.5.2009 kl. 03:15

8 identicon

Er mig að misminna eða er þetta ekki í annað sinn í vor sem hópur á vegum íslenskra fjallaleiðsögumanna lendir í hremmingum.  Voru þeir ekki á ferðalagi á Skessuhorni fyrr í vor í vondu veðri og kona í hópnum slasaðist?

Ásta B (IP-tala skráð) 10.5.2009 kl. 10:17

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þetta er nú ekkert.

Í Skíðadalnum urðu margir úti í stórhríð á vetrin milli bæjar og fjárhúss, enda þótt ekki væru nema örfáir metrar á milli þeirra í sumum tilvikum.

Og allt þetta sómafólk var ekki hægt að jarða fyrr en í júlí, þegar frost fór úr jörðu.

Þorsteinn Briem, 10.5.2009 kl. 15:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband