11.6.2009 | 18:45
Rússnesk rúlletta með mannslíf.
Einn angi sársaukafulls niðurskurðar á ríkisútgjöldum blasir við í samdrættinum hjá Landhelgisgæslunni. Málið er mjög einfalt, - það verður einfaldlega spilað áhættuspil með mannslíf bæði á sjó og landi.
Þetta blasir mun betur við varðandi þyrlureksturinn en á ýmsum öðrum sviðum í öryggis- og tryggingarkerfi landsmanna þar sem niðurskurðarhnífnum verður beitt, til dæmis í heilbrigðisþjónustunni.
Næstu samdráttarár verða að meðaltali tíu dagar á ári sem engin þyrla verður til taks. Enginn veit hvaða dagar þetta verða og hvenær kemur að því óhjákvæmilega, að mannslífi eða mannslífum verður fórnað fyrir sparnaðinn.
Í útreikninginn mæti bæta líkindareikningi á því hve mörg mannslíf eða hlutfall af mannslífum muni missast við þetta.
Hvert íslenskt mannslíf telst vera um 200 milljóna króna virði í beinhörðum peningum. Líkast til gildir um þetta það sama og um nánast allt nú sem fyrr, köldu mati á peningunum einum en ekki hinni andlegu hlið þjáninga og óbeins tjóns vegna missis manna, sem fórnað kann að verða í ískaldri og tilfinningalausri rússneskri rúlletu.
![]() |
Engin þyrla tiltæk í 10 daga á ári |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.6.2009 | 10:13
Spennandi Jón Hreggviðsson í uppsiglingu.
Um miðja síðustu öld náði Brynjólfur Jóhannesson slíkum tökum á túlkun Jónanna í Gullna hliði Davíðs Stefánssonar og nafna hans Hreggviðssonar í Íslandsklukku Halldórs Laxness að minningin um persónusköpun Brynjólfs og samanburður við hana hefur háð öllum leikurum, sem hafa leikið þetta hlutverk síðan.
Mér er ekki kunnugt um að neinn hafi náð að gera jafn vel og Brynjólfur.
Byrnjólfur var fenginn sem gestaleikari til Þjóðleikhússins þegar verkin voru færð upp þar, svo óumdeildir voru yfirburðir hans í sköpun þessara tveggja rammíslensku persóna stórskáldanna.
Á stórhátíð á Þingvöllum sá ég fluttan kafla úr Íslandsklukkunni þar sem Ingvar E. Sigurðsson lék Jón Hreggviðsson og varð hrifinn af túlkun hans, - hafði ekki séð svo góð tök á hlutverkinu í nær hálfa öld.
Það er því fagnaðarefni að Benedikt Erlingsson ætli að gefa Ingvari kost á að ljúka því sem hann byrjaði svo vel á á Þingvöllum og tilhlökkunarefni að sjá hvernig rætist úr. Jón er nú í þeim bestu höndum sem völ er á og spennandi persónusköpun í uppsiglingu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)