Spennandi Jón Hreggviðsson í uppsiglingu.

Um miðja síðustu öld náði Brynjólfur Jóhannesson slíkum tökum á túlkun Jónanna í Gullna hliði Davíðs Stefánssonar og nafna hans Hreggviðssonar í Íslandsklukku Halldórs Laxness að minningin um persónusköpun Brynjólfs og samanburður við hana hefur háð öllum leikurum, sem hafa leikið þetta hlutverk síðan.

Mér er ekki kunnugt um að neinn hafi náð að gera jafn vel og Brynjólfur.

Byrnjólfur var fenginn sem gestaleikari til Þjóðleikhússins þegar verkin voru færð upp þar, svo óumdeildir voru yfirburðir hans í sköpun þessara tveggja rammíslensku persóna stórskáldanna.

Á stórhátíð á Þingvöllum sá ég fluttan kafla úr Íslandsklukkunni þar sem Ingvar E. Sigurðsson lék Jón Hreggviðsson og varð hrifinn af túlkun hans, - hafði ekki séð svo góð tök á hlutverkinu í nær hálfa öld.

Það er því fagnaðarefni að Benedikt Erlingsson ætli að gefa Ingvari kost á að ljúka því sem hann byrjaði svo vel á á Þingvöllum og tilhlökkunarefni að sjá hvernig rætist úr. Jón er nú í þeim bestu höndum sem völ er á og spennandi persónusköpun í uppsiglingu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Mér er ekki kunnugt um að neinn hafi náð að gera jafn vel og Brynjólfur."

Þú ert gamall íþróttamaður eins og þessi setning ber með sér. Ég trúi samt ekki að Brynjólfur hafi verið að reyna að setja Íslandsmet í leik sínum.

Af hljóðupptökum má heyra að túlkun Brynjólfs á sálinni í Gullna hliðinu var frábærlega skemmtileg, en jafnframt barn síns tíma. Aðrir tímar kalla á annars konar túlkanir, og gildir það um alla klassík. HInn endanlegi Hamlet hefur enn ekki komið fram og heldur ekki hinn óumbreytanlegi Jón Hreggviðsson. Sálin hans Jóns míns verður aldrei söm og mun alltaf taka mið af tíðarandanum.

Sjálfum fannst mér túlkun Jóns Sigurbjörnssonar á sálinni ekkert minna en tær snilld, þegar við settum Gullna hliðið upp fyrir Sjónvarpið árið 1984. En ég get líka tekið undir það að gaman verður að sjá Hreggviðsson Ingvars - mæli þá í leiðinni með Djúpinu í Borgarleikhúsinu, þar sem Ingvar á stjörnuleik.

Ágúst Guðmundsson (IP-tala skráð) 11.6.2009 kl. 17:58

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég var kannski með hugann of mikið bundinn við sýningar á Gullna hliðinu í leikhúsinu og gleymdi sjónvarpinu, sem er dálítið skondið miðað við þennan langvarandi starfsvettvang minn.

Brynjólfur naut þess að geta brillerað bæði í Gullna hliðinu og Íslandsklukkunni. Ég minnist til dæmis enn hins ógleymanlega atriðs þar sem hann krítar liðugt um Ísland fyrir auðtrúa konunni í Árnasafni.

Ómar Ragnarsson, 11.6.2009 kl. 18:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband