Meira en álver.

Gaman er að lesa athugasemd sem komin er fram um áform Bakkavarar um að reisa verksmiðju á Íslandi sem skapi 750 störf. "Til hvers?" er spurt í athugasemdinni. "Það vill enginn vinna í fiski."

Nei, það vilja víst allir vinna í álverum, ekki satt?

Í útreikningum um virðisauka sem starfsemi færir inn í samfélagið hefur komið í ljós að hvert starf í sjávarútvegi skapi nær þrefalt meiri virðisauka en hvert starf í álveri.

Samkvæmt því myndi verksmiðja Bakkavarar skila verðmæti inn í þjóðfélagið sem væri meira en það verðmæti sem öll störf í núverandi álverum landsins leggja til. Engum ómetanlegum náttúruverðmætum yrði fórnað né sótt að dýrmætri ímynd landsins sem skapar mikil verðmæti í ferðaþjónustu.

Komið hefur í ljós í hruninu að í þeim sjávarútvegi sem hér er nú stundaður, er bundinn traustasti grundvöllurinn fyrir verðmætasköpun í þjóðfélaginu hvað snertir gildi framleiðsluvara sem skapa útflutningsverðmæti.

Með verksmiðju, sem vinnur úr fiski, er leitast við að vinna dýrmætari vöru úr hráefninu í stað þess að flytja það óunnið úr landi. Hráefnið kemur beint upp úr auðlindalögsögu landsins í stað þess að kaupa þarf hráefnið erlendis frá til álframleiðslu og flytja það til Íslands um þveran hnöttinn til þess að búa til annað hráefni hér sem flutt er út.

En trúin á álguðinn er svo sterk að fyrirtækið Ríó Tinto sem skilið hefur eftir sig slóð eyðileggingar erlendis og verið lýst í breska þinginu sem saurugasta fyrirtæki heims hefur fengið sérstakan gæðastimpil Íslendinga.

Eftir sem áður er það þó íslenskur mannauður sem er dýrmætasta auðlind okkar ásamt einstæðri náttúru landsins.


mbl.is Verksmiðja Bakkavarar gæti skapað 750 ný störf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband