Tekinn tvisvar vegna óíslenskrar tillitssemi !

Þessa helgi verð ég á ferð með hópi fólks um Þeystareyki, Leirhnjúk og Gjástykki.

Til að undirbúa ferðina sem best og hafa sem besta aðstöðu og tækjakost, ákvað ég að fara norður í jómfrúarferð á aldarfjórðungsgömlum frambyggðum Rússajeppa, sem er ódýrasti húsbíll landsins, og ég hef haft undir höndum.

Á myndunum er hann kominn til Akureyrar, en á tímabili var vafasamt að hann kæmist lengra en í Langadal.  

P1010024

Þessi gamli bíll getur haldið yfir 90 kílómetra hraða á jafnsléttu en þá er hin gamla og slitna vél þanin til hins ítrasta bensíneyðslan eykst og þetta er ekki góð meðferð á bílnum.

Ég ók því yfirleitt á um 75-80 km hraða og gat hvort eð er ekki haldið 90 km hraða upp bröttustu brekkurnar.

Þetta var samt skemmtileg ferð vegna þess viðfangsefnis sem var stanslaust alla leið, að vera ekki til trafala fyrir aðra og hraðskreiðari bíla.

Alla leiðina var ég með augun á baksýnisspeglunum og oftast tókst mér að hleypa öðrum bílum fram úr mér án þess að þeir tefðust.

Þá vék ég eins vel og ákveðið út á hægri kantinn og mér var unnt og gefa stefnuljós sem benti þeim á að ég vildi hjálpa til við framúraksturinn.

Þegar þeir fóru fram úr hægði ég á mér svo að framúraksturinn tæki sem minnstan tíma.

Slíkt athæfi er að vísu fáheyrt á Íslandi. "Lestarstjórar" eru fleiri hér á landi en í nokkru öðru land, víkja ekki út á vegaxlir og virðast jafnvel gera í því að gera framúrakstur sem erfiðastan eða ómögulegan.

Um daginn var ég í tveggja kílómetra langiri bílalest á eftir einum slíkum sem hélt sig kyrfilega inni við miðju vegar á 70 km hraða og hægði á sér niður í 55 ef hann mætti bíl. ég hafði ánægju af að fást við þetta.

Minnugur þess hve þetta ergði greinilega marga í lestinni fannst mér nú komið tækifæri fyrir mig til að ergja ekki aðra vegfarendur heldur gleðja þá.  

 Ég varð oft var við að bílstjórarnir á eftir mér "lásu" ekki veginn framundan, biðu of lengi með framúraksturinn svo að þeir misstu af tækifærinu eða reyndu framúrakstur þegar blint var framundan og ég hafði séð nokkru fyrr að bíll kom á móti.

Kom því stundum fyrir að ég hélt mig vel við miðlínu og gaf meira að segja einu sinni stefnuljós til vinstri til að aðvara þann sem vildi fram úr beint í flasið á bíl sem kom á móti.

Aðalatriðið var að mér tókst að koma í veg fyrir að ég yrði "lestarstjóri" að óþörfu og valda töfum og hættu.

Í Langadal gerðist hins vegar einstakt atvik. Lögreglan tók mig tvisvar með litlu millibili! Blikkandi ljós og allur pakkinn.

Slíkt hendir hinn almenna bílstjóra varla nokkurn tíma.

Í fyrra skiptið komu þeir á eftir mér og sögðust stöðva mig vegna ábendingar sem þeir hefðu fengið um það að akstur minn væri óvenjulegur og að stundum færði ég bílinn skyndilega frá miðju út á kant.

Þetta teldist það óvenjulegt að rétt væri að gæta að því hvort ökumaðurinn væri ölvaður eða eitthvað annað að hjá honum eða jafnvel bæði honum og bílnum.

Eftir að ég útskýrði málið, leyfðu þeir mér að halda áfram. Ég hafði reyndar vikið alveg sérstakega fljótt og vel fyrir þeim vegna þess að ég hélt að þeir væru að elta hraðskreiðari bíla sem höfðu rétt áður farið fram úr mér.

Var svo sannfærður um þetta eftir að þeir stöðvuðu mig að ég álpaðist til að segja við þá að radarinn hjá þeim væri áreiðanlega skakkur um minnst 20 km ef hann sýndi mig á ólöglegum hraða.

Ég fékk að halda áfram en Adam var ekki lengi í paradís. Nokkrum kílómetrum seinna komu þeir aftur á eftir mér með blikkandi ljós og stöðvuðu mig í annað sinn.

Og nú sögðu þeirra að málið væri alvarlegra. Ég væri nefnilega á óökuhæfum bíl, sem búið væri að taka úr umferð og mætti því alls ekki vera á ferli !

Það þótti mér skrýtið vegna þess að á bílnum voru númer með merkinu 09 og bílnúmerið var HS 877 sem þýddi að hann ætti ekki að fara í skoðun fyrr en í næsta mánuði.

Þeir sögðu að þetta númer tilheyrði bíl af Nissangerð.

Það þótti mér enn furðulegra vegna þess að gamla Rússabeljan var nokkurn veginn ólíklegasti bíll sem hugsast gat að væri japanskur, hvað þá Nissan.

Mér leist ekkert á blikuna. Ætlaði fyrst að sýna þeim einn mælanna á bílnum, sem var með rússneskri áletrun. Hætti samt við það því að kannski leit það í þeirra augum út eins og austurlenskt letur.

Ljóst var að ekki var nóg að sýna þeim fram á að þetta væri rússneskur bíll af gerð, sem á árum áður var mikið notaður sem skólabíll í dreifðum byggðum landisns. Ef þetta var reykvísk vegalögga og mennirnir ungir vissu þeir auðvitað ekkert um það.

Mér flaug í hug að segja þeim að svona bílar sæust á öllum fréttamyndum af hernaðaraðgerðum Rússa, allt frá Póllandi til Afganistan, en hætti við það. Það var alls ekki víst að þeir horfðu svona vel á fréttamyndir.

Og þá blasti hitt við, sem ekki var betra: Að ég hefði svindlað á kerfinu, stolið númerum af öðrum bíl og sett á þennan, sem jafnvel væri líka stolinn.

Ég spurði hvers vegna þeir héldu að þetta væri afskráður og óökuhæfur Nissan-bíll eða bíll með fölskum númerum.

Þeir sögðu, að eftir að þeir tóku mig í fyrra skiptið hefðu þeir hringt suður í upplýsingamiðstöð í Reykjavík, sem hefði gefið þeim þessar upplýsingar.  Svona eiga rannsóknarlögreglumenn að vera ! 

Rússabeljan er breið og langt yfir í hanskahólfið. Ég lagðist nánast á hliðina og fálmaði óstyrkur yfir þveran bílinn yfir í hanskahólfið, og fann þar tvö skoðunarskírteini.

Á þeim voru upplýsingar um Rússajeppann frambyggða, en tegundarnúmerið UAZ 452 sagði svo sem ekkert um það út af fyrir sig að þetta tegundarheiti táknaði Rússajeppa. Nema þeir væru bílafrík eins og ég.

Hins vegar sýndu þessir pappírar að bíllinn hefði flogið tvisvar athugasemdalaust í gegnum skoðun árin 2007 og 2008, hvort sem tegundarheitið UAZ 452 táknaði Rússajeppa eða Nissan.

Ég var svo sem ekkert viss um að þetta dygði. Úr því að þeir gáfu sér þann möguleika að bíllinn væri á stolnum númerum og jafnvel sjálfur stolinn, gat svo sem alveg eins verið að ég hefði falsað skoðunarvottorðin.

Þeir báðu mig afar kurteislega um að bíða og fóru yfir í lögreglubílinn á meðan. Þetta mál þarfnaðist greinilega ítarlega rannsóknar enda mjög dularfullt.

Þetta voru afar viðkunnanlegir ungir menn. Ég naut þess að hafa verið stöðvaður í dalnum mínum kæra, þar sem ég hafði verið í sveit. Eftir nokkra stund komu þeir aftur.

Þeir höfðu greinilega aftur haft samband við miðstöðina í Reykjavík og sögðu, að hugsanlega hefði rangur innsláttur eða einhver tölvuvilla valdið þessum leiða misskilningi.

Báðu mig afsökunar á töfinni. Ég svaraði því til að það væri ekkert að afsaka því að þvert á móti væri þetta mál allt, hin grunsamlega og óíslenska tillitssemi mín í akstri og hugsanlegur númera- og bílastuldur, ef ekki skjalafals, alveg stórkostlega og skemmtileg upplifun fyrir mig sem ég hefði alls ekki viljað missa af.

Auðvitað var þetta bráðskemmtilegt, - það eru ekki margir bílstjórar sem eru stöðvaðir tvisvar af sömu löggunni með nokkurra mínútna millibili af jafn skemmtilegum ástæðum.

Ég stillti mig um að segja frá því þegar lögreglan stöðvaði mig einu sinni í Reykjavík fyrir að hafa stolið eigin bíl, en það er alveg einstaklega skemmtileg saga af dásamlegri uppákomu og misskilningi.

Þessir strákar voru svo ljúfir og kurteisir, bara að vinna vinnuna sína af alúð, og rákust á tvö óvenjuleg tilfelli hjá sama ökumanninum, aldeilis dæmalaust óíslenskt og grunsamlegt atferli í umferðinni og Rússajeppa sem var skráður sem óökufær Nissan.

P1010027

 

Einu sinni gerði ég þessa vísu um Blönduóslögguna:

 

Ef bíla snögga ber við loft /

brátt má glögga sjá /

því Blönduóslöggan æði oft /

er að bögga þá.

 

En nú kemur þessi:

 

Ef bíla ljúfa ber við loft, /

brátt má hrjúfa sjá, /

því löggan bljúga æði oft /

vill ýmsu trúa á þá.

 

Góða umferðarhelgi !    

 

 

 

 


Svar frá Leirhnjúki?

Enn og aftur er fjallað um djúpborunina hjá Leirhnjúki án þess að sýna myndir af borsvæðinu og afstöðu þess til Leirhnjúks.

P1010033

Myndin af stöðarhúsinu í Morgunblaðinu segir nákvæmlega ekki neitt um það hvernig borstaðurinn og umhverfi hans líta út.

Á myndinni hér við hliðina sést hvernig borstaðurinn með tilheyrandi óafturkræfu raski er mitt á milli Leirhnjúks og sprengigígsins Vítis veldur raski ásamt leiðslum og öðrum sem virðast hafa runnið í ljúflega í gegnum kerfið, þrátt fyrir loforð fyrrverandi umhverfisráðherra um að ekki yrði hróflað við Leirhnjúks-Gjástykkis-svæðinu nema eftir ítarlegar rannsóknir, umræður og samþykki Alþingis. 

Barmur Vítis er næst okkur á myndinni, en Leirhnjúkur er fjær.

P1010028

 

 

Búið er að bora þrjár holur við eystri barm Vítis, sem neðsta myndin á síðunni er af.

Hann miklu flottari og merkilegri sprengigígur en Kerið í Grímsnesi, eins og sést á mynd númer þrjú.

Engum myndi detta í hug að fara með Kerið eins og sést að farið hefur verið með Víti á neðstu myndinni, þar sem glyttir í Leirhnjúk í gegunum gufuna úr blásandi holu.

P1010036

 

 

Ég er einmitt á ferð um þetta óskasvæði Landsvirkjunar til að undirbúa hópferð um það um helgina.

 

Vísa í fyrra blogg mitt um möguleikana sem það býður upp á, ef sóknin norður frá Kröflu verður stöðvuð.

DSCF5485

Ég hef áður bloggað um það að Landsvirkjun virðist sækja það sem fastast að bora þannig við Leirhnjúk og inn með honum að svæðið hætti að verða stórkostlegt ósnortið heimsundur ásamt Gjástykki, heldur breytist í iðnaðarsvæði sem líkast því sem er á Hellisheiði.

 

 

Af hverju valdi LV sér ekki holu til þess arna á skárri stað umhverfislega séð?

Nær Kröflu eða á borsvæðunum sem þegar eru komin á Hellisheiði?  

Það gaus í Leirhnjúki í 1500 metra fjarlægð frá borholunni 1975 og aftur síðar.

Skammt frá borstaðnum sem nú er notaður var boruð hola sem mistókst algerlega 1975 og hlaut nafnið Sjálfskaparvíti.

P1010022

 

 

Kannski er það vitleysa ef leikmanni dettur í hug að eftir því sem nær gosstaðnum komi sé styttra niður á bráðið berg. En ef svo er, er Leirhnjúkur að svara fyrir sig.

Verst er að líklegast er að í staðinn verði ný hola boruð þannig að eyðilegging svæðisins verði enn meiri en hún er þegar orðin.


mbl.is Borað niður á bráðið berg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Versta staðan síðan á 18. öld?

Íslendingar bjuggu nær eingöngu í torfbæjum á átjándu öld. Ráðandi öfl stóðu í vegi fyrir þéttbýlismyndun við sjávarsíðuna og umbótum í útgerð. Munurinn á húsakosti Íslendinga og nágrannaþjóðanna var æpandi.

En með byggingu fangelsis við Arnarhól, sem síðan var breytt í stjórnarráðshús, varð staða fangelsismála eitt af því fáa hér á landi sem hægt var að segja að nálgaðist stöðu mála í öðrum löndum hvað húsakost snerti.

Þess vegna er það athyglisvert ef húsakostur í fangelsismálum er nú kominn hinum megin í litrófið, - að verða það svið þjóðlífsins sem stendur ástandi í öðrum löndum mest að baki.

Hlutverk fangelsa á að vera að menn uppskeri eins og þeir hafa sáð og taki afleiðingum gjörða sinna. Að þeir séu undir eftirliti meðan þetta fer fram og öryggi borgaranna tryggt. Skortur á fangelisrými grefur að þessu leyti undan tilganginum, réttarríkinu og öryggi borgaranna.

En þetta kerfi dóma og refsinga á líka að gefa þeim, sem brotið hafa af sér, kost á bót og betrun, sér og þjóðfélaginu til heilla.

Það eru einföld mannrétttindi þeirra, sem þetta vilja og þetta gera af heilum hug, að þeir þurfi ekki að bíða eftir því að geta hafið afplánunina, jafnvel von út viti. Það getur ekki verið réttlæti í því að seinka þeim degi þar sem viðkomandi á þess kost að stíga út í lífið að nýju, nýr og betri maður, eftir að hann hefur sannanlega afplánað þá refsingu sem honum bar.

Það er heldur ekki viðunandi fyrir öryggi almennings að afbrotamenn gangi lausir vegna húsnæðisvandræða. Ástand mannréttinda er heldur ekki í lagi þegar svona er komið málum.

Við hljótum að geta gert betur en gert var á dögum Jóns Hreggviðssonar.  

 


mbl.is Alvarleg staða í fangelsum á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband