30.6.2009 | 23:55
Græðgin lifir góðu lífi.
Græðgin og taumlaus peningahyggja lifa góðu lífi þrátt fyrir kreppuna. Um það vitnar oftaka HS Orku. Fleira er á ferðinni á orkuöflunarsvæðum á Reykjanesskaga sem vitnar um svipað.
Upp hafa komið spurningar um það hvers vegna lón á svæðunum séu stærri en reiknað hafi verið með. Þrátt fyrir að gumað hafi verið af árangri af niðurdælingu hækkar til dæmis sífellt í lónum HS.
Peningafréttir tröllríða ekki síður umræðum og fréttaflutningi en þær gerðu í gróðærinu. Þá voru fréttatímar orðnir að nær samfelldum söng um viðskipti og peninga þegar allt snerist um að græða sem mest og hraðast.
Nú er viðfangsefnið í raun það sama nema að nú snýst allt um tap og hrun og allt snýst um að tapa sem minnstu. Græðgin birtist í hugmyndum um að ráðast með enn meiri krafti en nokkru sinni fyrr á mestu verðmæti landsins, einstæða náttúru undir yfirskini neyðaraðgerða þjóðar sem þrátt fyrir allt er með ein bestu lífskjör í heimi.
![]() |
Fimmtungi meiri orka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2009 | 13:19
Ekkert rafmagn, ekkert starf, samt virkjað.
Nú er sótt úr öllum áttum að íslenskri orku og íslenskri náttúru. "Erlendir aðilar" sækja í eignarhald. Innlendir sækja í að eyðileggja náttúruverðmæti, jafnvel þótt viðkomandi virkjunarframkvæmdir skapi ekkert starf og enga orku.

Myndirnar hér á síðunni eru af því fáránlega fyrirbæri, sem felst í því að láta renna vatn til fulls í svonefnt Kelduárlón fyrir austan Snæfell og eyðileggja merkilegt fjallavatn, Folavatn, án þess að nokkur þörf sé fyrir þessa hækkun lónsins og án þess að það að það skapi eitt einasta starf.
Á loftmyndinni sést Folavatn í forgrunni eins og það er nú, en Kelduárlón eins og það er nú, er fjær.
Folavatn er tært en Kelduárlón gruggugt. Í matskýrslu um umhverfisáhrif er fjallað um að lífríki Folavatns sé um margt einstætt.
Hægt er að stækka myndirnar hér á síðunni með því að smella á þær í tveimur áföngum.

Hér til hliðar er horft yfir hluta Folavatns til suðurs með Eyjabakkajökul í baksýn.
Sú viðbót sem eftir er að láta renna í Kelduárlón upp í topp mun aðeins gefa innan við 2% af þeim vatnsbirgðum, sem Hálslón gefur, en það mun drekkja Folavatni og grónu landi í kringum það.

Þörfin fyrir vatnið, sem kemur úr svonefndri Hraunaveitu, miðast við mun kaldara árferði en nú er og verða mun fyrirsjáanlega næstu áratugi.
Sú röksemd að fylla verði Kelduárlón til að gripa til á kuldaskeiði á ekki við.
Kelduárlón rúmar 60 gígalítra til miðlunar en til samanburðar rúmar Hálslón 2100 gígalítra.

Sú röksemd að Kelduárlón geti nýst sem öyggisventill ef rennsli úr Hálslóni klikkar, til dæmis vegna bilunar í 40 kílómetra löngum göngunum frá því, stenst ekki því að vatnsforði Kelduárlóns myndi í mesta lagi endast í inna við viku og sá tími yrði allt of stuttur til að gera við bilun eða leka í göngunum.
'Rennslið í Hálslón er líkast til að minnsta kosti 10-20% meira en reiknað var með.
Af því sést að rennslið úr Hraunaveitu, sem er aðeins brot af þessari aukningu, skiptir engu máli, hvorki í heildina tekið né sem öryggisventill.
Á myndinni hér til hliðar er staðið við afrennsli Folavatns, Folakvísl.

Þarna er mikið gróðurlendi, þvert ofan í þær hugmyndir sem ég og aðrir höfðu gert sér um "urðina og grjótið" sem drekkt yrði með Hraunaveitu.
Fuglar verpa við vatnið, m. a. Hávella og Óðinshani.
Einn Óðinshani varð mér samferða á hluta gönguferðarminnar, sést sem depill vinstra megin á víðari myndinni en betur á nærmynd.
Ég er með aðstoð Völundar Jóhannessonar að búast til siglinga á "Örkinni" á þessum nýjstu athafnasvæðum Landsvirkjunar og fylgjast með drekkingu Hávelluhreiðranna í hólmum Folavatns.
Í morgun hef ég verið að reyna að biðja Folavatni griða og aðeins það er nú í huga mér. Hraunaveita og Kelduárlón eru komin og verða áfram þarna.

Ég náði sambandi við einn stjórnarmann Landsvirkjunar í gærkvöldi.
Hann hafði ekki hugmynd um þetta mál frekar en allir sem ég ræði við um það, enda hafa fjölmiðlar þagað sem kyrfilegast um það, þótt það er búið að grafa sem svarar Héðinsfjarðargöngum í Hraunaveitu og reisa stíflur, þar sem hin stærsta er 1600 metra löng og 27 metra há og ein af allra stærstu stíflum landsins.
Það er líka búið að láta renna í hátt í helming af yfirborði Kelduárlóns og nú skortir aðeins 2ja metra í hækkun til að hið auruga vatn Kelduár farið að flæða inn í Folavatn.
Eins og sést á myndunum eru flöt gróin nes og hólmar sem munu sökkva á skömmum tíma.

Ég haltraði hálfan hring um lónið í gær og var þar líka við myndatökur í fyrra og held ég viti eitthvað um það sem þessi pistill fjallar.
Ég held áfram að reyna að ná sambandi við ráðamenn um það hvort það megi ekki bíða með það að drekkja Folavatni og umhverfi þess vegna þess að það gefi hvorki eitt einasta kílóvatt né starf.
Ef ekki tekst að stöðva þá framkvæmd að láta vatn renna inn í Folavatn væri þó kannski von um vatnið og lífríki þess næði sér ef það fengist fram að lækka sem fyrst í Kelduárlóni á ný ofan í þá hæð sem það er nú.
En best væri að hætta núna og tíminn er naumur. Það hafði verið gefið í skyn við mig í fyrra eftir að hætt var við að virkja tvær austustu smáárnar í Hraunaveitu að þar með yrði látið staðar numið.
Mér til mikilla vonbrigða frétti ég fyrir nokkrum dögum að látið hefði verið renna í Kelduárlón í allt vor.
Mér skilst eftir nýjasta viðtal við stjórnendur framkvæmda að hvort eð er verði af verkfræðilegum ástæðum að stoppa vatnshæðina í 664 metrum, en Folavatn er í 662ja metra hæð.
Munurinn er 2,5 metrar. Aðstæður hafa breyst frá því að Hraunaveita var ákveðin að því leyti til að kalt árferði verður æ ólíklegra. Að hluta til hefur LV viðurkennt þetta með því að hætta við virkjun austustu árinnar í fyrirhugaðri Hraunaveitu.
Ég tel að vegna þessara breyttu forsendna sé það lágmarkskrafa að stjórn Landsvirkjunar fjalli um þetta mál ásamt færustu sérfræðingum og taki um það ákvörðun, helst sem fyrst.
Ef látið verður staðar numið nú fá báðir aðilar sitt fram að hluta til og fórna öðru.
Virkjanamenn fá sitt miðlunarlón með stórum hluta þeirrar miðlunar sem stefnt var að en gefa Folavatn eftir. Náttúruverndarmenn fá sitt Folalón en sætta sig við þann orðna hlut að fagrir grænir árhólmar Kelduár verða að eilífu á kafi í gruggugu lóninu.
Þessi vötn, Kelduárlón og Folavatn standa með þessari lausn hlið við hlið og ég slepp við þann dapurlega endi á siglingu Arkarinnar í samnefndri mynd, að vera úti í drukknandi hólmunum þar sem Hávelluhreiðrin með eggjum sínum og drukknuðum ungum fljóta upp.
Ef þessi lausn gæfist verr en búist hefði verið við eru tæknilegir möguleikar á að láta Folavatn róa eins og upphaflega var ákveðið. Stíflan stendur þarna.
Ég enda þennan pistil með því að taka mér það bessaleyfi að líkja Folavatni við Réttarvatn í ljóði Jónasar Hallgrímssonar um Réttarvatn:

Efst hér austur á Hraunum /
oft hef ég fáki beitt. /
Þar er allt þakið í vötnum /
og þar heitir Folavatn eitt. /
Undir norðurásnum /
er ofurlítil tó. /
Lækur liðast þar niður /
um lágan hvannamó. /

Á engum stað ég uni /
eins vel og þessum mér. /
Hinn ískaldi jökull og Snæfell /
vita´allt sem talað er hér.

![]() |
Erlendir bjóða í HS Orku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)