Ekkert rafmagn, ekkert starf, samt virkjað.

Nú er sótt úr öllum áttum að íslenskri orku og íslenskri náttúru. "Erlendir aðilar" sækja í eignarhald. Innlendir sækja í að eyðileggja náttúruverðmæti, jafnvel þótt viðkomandi virkjunarframkvæmdir skapi ekkert starf og enga orku.

P1010199

Myndirnar hér á síðunni eru af því fáránlega fyrirbæri, sem felst í því að láta renna vatn til fulls í svonefnt Kelduárlón fyrir austan Snæfell og eyðileggja merkilegt fjallavatn, Folavatn, án þess að nokkur þörf sé fyrir þessa hækkun lónsins og án þess að það að það skapi eitt einasta starf.

Á loftmyndinni sést Folavatn í forgrunni eins og það er nú, en Kelduárlón eins og það er nú, er fjær.

Folavatn er tært en Kelduárlón gruggugt. Í matskýrslu um umhverfisáhrif er fjallað um að lífríki Folavatns sé um margt einstætt.  

Hægt er að stækka myndirnar hér á síðunni með því að smella á þær í tveimur áföngum.  

P1010259

 

 

 

Hér til hliðar er horft yfir hluta Folavatns til suðurs með Eyjabakkajökul í baksýn.

 

 

Sú viðbót sem eftir er að láta renna í Kelduárlón upp í topp mun aðeins gefa innan við 2% af þeim vatnsbirgðum, sem Hálslón gefur, en það mun drekkja Folavatni og grónu landi í kringum það.

P1010284

 

 

Þörfin fyrir vatnið, sem kemur úr svonefndri Hraunaveitu, miðast við mun kaldara árferði en nú er og verða mun fyrirsjáanlega næstu áratugi.

Sú röksemd að fylla verði Kelduárlón til að gripa til á kuldaskeiði á ekki við.  

 

 

Kelduárlón rúmar 60 gígalítra til miðlunar en til samanburðar rúmar Hálslón 2100 gígalítra.

P1010292

Sú röksemd að Kelduárlón geti nýst sem öyggisventill ef rennsli úr Hálslóni klikkar, til dæmis vegna bilunar í 40 kílómetra löngum göngunum frá því, stenst ekki því að vatnsforði Kelduárlóns myndi í mesta lagi endast í inna við viku og sá tími yrði allt of stuttur til að gera við bilun eða leka í göngunum.

'Rennslið í Hálslón er líkast til að minnsta kosti 10-20% meira en reiknað var með.

Af því sést að rennslið úr Hraunaveitu, sem er aðeins brot af þessari aukningu, skiptir engu máli, hvorki í heildina tekið né sem öryggisventill.

Á myndinni hér til hliðar er staðið við afrennsli Folavatns, Folakvísl.

P1010261

Þarna er mikið gróðurlendi, þvert ofan í þær hugmyndir sem ég og aðrir höfðu gert sér um "urðina og grjótið" sem drekkt yrði með Hraunaveitu.

Fuglar verpa við vatnið, m. a. Hávella og Óðinshani.

Einn Óðinshani varð mér samferða á hluta gönguferðarminnar, sést sem depill vinstra megin á víðari myndinni en betur á nærmynd.

Ég er með aðstoð Völundar Jóhannessonar að búast til siglinga á "Örkinni" á þessum nýjstu athafnasvæðum Landsvirkjunar og fylgjast með drekkingu Hávelluhreiðranna í hólmum Folavatns. 

Í morgun hef ég verið að reyna að biðja Folavatni griða og aðeins það er nú í huga mér. Hraunaveita og Kelduárlón eru komin og verða áfram þarna.

P1010254

Ég náði sambandi við einn stjórnarmann Landsvirkjunar í gærkvöldi.

Hann hafði  ekki hugmynd um þetta mál frekar en allir sem ég ræði við um það, enda hafa fjölmiðlar þagað sem kyrfilegast um það, þótt það er búið að grafa sem svarar Héðinsfjarðargöngum í Hraunaveitu og reisa stíflur, þar sem hin stærsta er 1600 metra löng og 27 metra há og ein af allra stærstu stíflum landsins.

Það er líka búið að láta renna í hátt í helming af yfirborði Kelduárlóns og nú skortir aðeins 2ja metra í hækkun til að hið auruga vatn Kelduár farið að flæða inn í Folavatn.

Eins og sést á myndunum eru flöt gróin nes og hólmar sem munu sökkva á skömmum tíma.

P1010249

Ég haltraði hálfan hring um lónið í gær og var þar líka við myndatökur í fyrra og held ég viti eitthvað um það sem þessi pistill fjallar.

Ég held áfram að reyna að ná sambandi við ráðamenn um það hvort það megi ekki bíða með það að drekkja Folavatni og umhverfi þess vegna þess að það gefi hvorki eitt einasta kílóvatt né starf.

Ef ekki tekst að stöðva þá framkvæmd að láta vatn renna inn í Folavatn væri þó kannski von um vatnið og lífríki þess næði sér ef það fengist fram að lækka sem fyrst í Kelduárlóni á ný ofan í þá hæð sem það er nú. 

 

En best væri að hætta núna og tíminn er naumur. Það hafði verið gefið í skyn við mig í fyrra eftir að hætt var við að virkja tvær austustu smáárnar í Hraunaveitu að þar með yrði látið staðar numið.

Mér til mikilla vonbrigða frétti ég fyrir nokkrum dögum að látið hefði verið renna í Kelduárlón í allt vor.  

Mér skilst eftir nýjasta viðtal við stjórnendur framkvæmda að hvort eð er verði af verkfræðilegum ástæðum að stoppa vatnshæðina í 664 metrum, en Folavatn er í 662ja metra hæð.

Munurinn er 2,5 metrar. Aðstæður hafa breyst frá því að Hraunaveita var ákveðin að því leyti til að kalt árferði verður æ ólíklegra. Að hluta til hefur LV viðurkennt þetta með því að hætta við virkjun austustu árinnar í fyrirhugaðri Hraunaveitu.

Ég tel að vegna þessara breyttu forsendna sé það lágmarkskrafa að stjórn Landsvirkjunar fjalli um þetta mál ásamt færustu sérfræðingum og taki um það ákvörðun, helst sem fyrst.

Ef látið verður staðar numið nú fá báðir aðilar sitt fram að hluta til og fórna öðru.

Virkjanamenn fá sitt miðlunarlón með stórum hluta þeirrar miðlunar sem stefnt var að en gefa Folavatn eftir. Náttúruverndarmenn fá sitt Folalón en sætta sig við þann orðna hlut að fagrir grænir árhólmar Kelduár verða að eilífu á kafi í gruggugu lóninu.

Þessi vötn, Kelduárlón og Folavatn standa með þessari lausn hlið við hlið og ég slepp við þann dapurlega endi á siglingu Arkarinnar í samnefndri mynd, að vera úti í drukknandi hólmunum þar sem Hávelluhreiðrin með eggjum sínum og drukknuðum ungum fljóta upp.  

Ef þessi lausn gæfist verr en búist hefði verið við eru tæknilegir möguleikar á að láta Folavatn róa eins og upphaflega var ákveðið. Stíflan stendur þarna. 

Ég enda þennan pistil með því að taka mér það bessaleyfi að líkja Folavatni við Réttarvatn í ljóði Jónasar Hallgrímssonar um Réttarvatn:

P1010268

 

 

 

 

Efst hér austur á Hraunum /

oft hef ég fáki beitt. /

Þar er allt þakið í vötnum /

og þar heitir Folavatn eitt. /

 

Undir norðurásnum /

er ofurlítil tó. /

Lækur liðast þar niður /

um lágan hvannamó. /                     

P1010241

 

Á engum stað ég uni /

eins vel og þessum mér. /

Hinn ískaldi jökull og Snæfell /

vita´allt sem talað er hér.

P1010244
mbl.is Erlendir bjóða í HS Orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ekki er ég á móti því að hlífa þessum polli, en ég hef nú meiri trú á að vísindamenn Landsvirkjunar viti sínu viti, en þú Ómar minn. LV hefði örugglega viljað spara sér þessa framkvæmd, ef það hefði verið raunhæft. Meira að segja þú, hlýtur að vera á sama máli.

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.6.2009 kl. 13:31

2 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Ekki gráta Ómar minn. Ég er að kom heim til að hjálpa þér í baráttunni. Við hjónin erum búin að fjárfesta í dísil jeppa og förum að geta skoðað allar þessar virkjanir og ekki virkjanir og er nógur tími þar sem sem við erum komin á ellilaun bæði og er ég  með heilar 27,000 á mánuði í örorku frá Tryggingastofnun ríkisins.

Wolfang

Eyjólfur Jónsson, 30.6.2009 kl. 13:52

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gott að vita, Gunnar, að þú telur þetta vera rugl í mér. Það styrkir þig í trúnni á það að það komi álíka köld ár og útreikningar vísindamanna Landsvirkjunar byggjast á þótt það stangist á við það álit nær alls vísindasamfélags heimsins um að komið sé hlýnunarskeið sem ekki sjái fyrir endann á.

Þú styrkist líka í trúnni við að líkja vötnum á borð við Folavatn við "poll", svona álíka ómerkilegan og "pollurinn" Réttarvatn sem Jónas sat við.

Tölur eins og 20 gígalítrar á móti 2100, innan við 1% af vatnsmagni til miðlunar, eru að vísu komnar frá vísindamönnum LV, en af því að ég notað þær verða þær auðvitað ekki marktækar.

Þú gleymir því, Gunnar, að komi þetta kuldaskeið, sem þú virðist treysta á, er þó búið að reisa stíflur og gera göng til að sökkva þessu upp í topp.

Þá verður nú munur að geta bætt einu prósenti við miðlunarvatnið á köldu vori.

Ómar Ragnarsson, 30.6.2009 kl. 14:39

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þannig að þú heldur að þetta hafi verið gert bara í einhverju bríeríi?

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.6.2009 kl. 15:32

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Margar ákvarðanir manna eru teknar eftir bestu vitund og byggðar á ákveðnum forsendum sem eiga að standast.

Það breytir því ekki að ákvarðanirnar þoli illa síðari tíma skoðun.

Á sínum tíma áttu jafn einfaldur hlutur og hjáveitugöng Kárahnjúkastíflu að anna auðveldlega því vatni sem þyrfti að leiða framhjá.

Samt kom í ljós skekkja sem olli því að hársbreidd munaði á stórtjón yrði á bráðabirgðastíflu þegar áin flæddi og göngin höfðu ekki undan.

Nýja stíflan fyrir norðan Káranhnjúkastíflu var aldrei fyrirhuguð og er alveg ný viðbót vegna þess að menn sáu ekki fyrir þær afleiðingar aukins rennslis vegna hlýnunar sem hefði mátt sjá fyrir ef menn hefðu tekið þessa hlýnun með í reikninginn.

Hönnuðir Titanic töldu skipið ósökkvandi Hönnuðir tveggja geimskutla Bandaríkjamanna sem fórust voru hinir færustu á sínu sviði.

Verð nú að bæta því við að tala um miðlunarrými Kelduárlóns sem ég fékk upp reyndist ekki rétt heldur er hún 60 gígalítrar.

Það er samt innan við 3% af miðlunarrými Hálslóns. Viðbótin sem menn hyggjast fá með því að halda áfram að láta renna í Kelduárlóns fer varla yfir 2% af heildarvatnsmagninu á sama tíma sem aukið vatnsmagn vegna hlýnunar er margfalt meira en það.

Bæta má við að í upphaflegri áætlun um Kárahnjúkavirkjun var gert ráð fyrir 2000 gígalítra heildarmiðlun í stað 2100 sem síðar varð.

Ómar Ragnarsson, 30.6.2009 kl. 16:17

6 identicon

Ef að rennsli í Hálslón er 10-20% meira en reiknað var með, þá má selja 10-20% meiri orku frá Fljótsdalsvirkjun en gert var ráð fyrir í áætlunum.

Ein túrbína í Fljótsdalsvirkjun var höfð með til að eiga fyrir viðhaldi, sem er ekki í gangi alltaf. Þar mætti því framleiða meira.

Nú, og ef vantar viðbótartúrbínu, þá er alveg hugsanlegt að hægt sé að bæta henni við, til hliðar við eldri túrbínur.  Sama mætti gera í Búrfelli.

Væntanlega er stóra málið að fá vissu um það að aukið rennsli sé komið til að vera, áður en orkan er seld, því Ísland er lokað og ekki tengt neinu öðru raforkuneti um streng.

Eftir að þessu er lokið, þá eru verðmæti í þessu landi sem hér fer undir lón. Þetta kann samt að virðast sem eyðilegging, eins og sakir standa núna.

---

Þó svo að ég sé ekki á þinni línu núna, enda fylgismaður virkjana almennt séð, þá held ég að þú hafir ærið verk fyrir höndum.  Ég er býsna smeykur um að "erlendir kröfuhafar" og ekki síst "vinir" þeirra, muni sjá sér leik á borði og ganga á lagið með að nýta íslenskar orkuauðlindir allhressilega. 

Landsvirkjun var einmitt að detta í lánshæfismatið BB.  Helsta ástæðan er, að mínu mati sú, að Ríkissjóður, bakhjarl LV, er alveg búinn að gera upp á bak.  Ég ætla ekki að nefna Icesave sem aðalástæðu enda er hún bara hluti af mörgu, heldur t.d. þessa 200 Ma sem GeirHaarður og co. pumpuðu inn í peningamarkaðssjóðsbækur upp úr þurru. Þeir peningar væru betur geymdir í dag.

Þrándur (IP-tala skráð) 30.6.2009 kl. 16:29

7 identicon

Kannski rétt að bæta koma aðalatriði athugasemdar minnar að:  ég tel að þú eigir ærið verk fyrir höndum og ég vona að þú hafir fullan tank - fullt af orku til að brenna í baráttunni fyrir náttúruna.

Andstæðingar virkjana eru nefnilega gagnlegir... rétt eins og góð stjórnarandstæða; hún beinir stjórnvöldum í réttar áttir.

Athugasemdin mín átti s.s. upprunalega að vera hvatning til góðra verka.... áframhaldandi hvatning til góðra verka... því þó svo að oft hafi blásið á móti hingað til fæst ekki betur séð en að líkur séu á stórhríð framundan.

Þrándur (IP-tala skráð) 30.6.2009 kl. 16:36

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er ekki hægt að komast fram hjá því að álver þurfa stöðuga orku og mega því ekki við að hún minnki við það að túrbína bili.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef undir höndum verður Fljótsdalsstöðin að vera áfram í núverndi horfi og ekki hægt að bæta þar neinu við.

Ómar Ragnarsson, 30.6.2009 kl. 17:15

9 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Gunnar Th er mesti snillingur sem ísland hefur alið.. Ómar þú getur ómögulega haft betur í viðureigninni við þessa mannvitsbrekku að austan.

Óskar Þorkelsson, 30.6.2009 kl. 18:25

10 Smámynd: Þorsteinn Hilmarsson

Kelduárveita og tilheyrandi lón eru nauðsynleg

 
  • Um 25% af vatninu til Fljótsdalsstöðvar kemur um Jökulsárveitu úr Jökulsá í Fljótsdal og Hraunaveitu en um 75% úr Hálslóni. Kelduárlón er stærsta lónið í Hraunaveitu og eina miðlunarlónið þar. Landsvirkjun hefur þegar ákveðið að fresta byggingu austasta hluta Hraunaveitu, svonefndri Sauðárveitu, sökum þess að hlýnandi veðurfar getur leitt til þess að hún reynist óþörf.
  • Þar sem Kelduárlónið er eina miðlunarlónið á Hraunasvæðinu er það undirstaða stýringar á vatni þaðan.
  • Vatnið úr Kelduárlóni hægir á niðurdrætti í Hálslóni yfir veturinn en það eykur nýtni hverflana í stöðinni. Af þeim sökum hefur þetta mannvirki mun meiri áhrif á orkugetu Fljótsdalsstöðvar en rými lónsins segir til um, en í lóninu rúmast um 60 Gl sem er um 3% af rými lóna Kárahnjúkavirkjunar.
  • Kelduárlón gegnir auk þess lykilhlutverki við að nýta vorflóð á Hraunasvæðinu sem er nauðsyn á þeim tíma þegar lægst er í Hálslóni og söfnun þar mikilvæg.
  • Þá er ótalið að Kelduárlón tekur þegar svo ber undir við flóðum í Kelduá sem oft eiga sér stað í leysingum framan af vetri. Lónið dregur þannig úr flóðum á Héraði og hættunni á tilheyrandi skaða.

Þorsteinn Hilmarsson, 30.6.2009 kl. 19:46

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þorsteinn Hilmarsson hefur vonandi eytt áhyggjum þínum Ómar, um að þetta hafi verið óþarfi. Er þá ekki bara næsta mál.... eitthvað annað?

Hvað varstu að segja Óskar minn?

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.6.2009 kl. 22:49

12 identicon

Í hvaða flokk förum við ef við höldum að virkja á sömu forsendum og áður? Hér er athyglisleg frétt hér fyrir neðan frá ruv.is sem mér finnst að passi að hafa hér í umræðunni. Hvar er og hvað varð um allan bissnesinn? Hvarf arðsemi Landsvirkjuninar í hyldýpið vegna  Kárahnjúkaævintýrisins?
Baldvin Nielsen Reykjanesbæ 
Fyrst birt: 30.06.2009 16:33
Síðast uppfært: 30.06.2009 20:00

Landsvirkjun í ruslflokk

,,Matsfyrirtækið Standard og Poors hefur lækkað lánshæfismat Landsvirkjunar. Lánshæfi á erlendum skuldbindingum fellur úr B-B-B mínus í B-B, en lánshæfi á innlendum skuldbindingum fellur úr B-B-B plús í B-B-B mínus. Landsvirkjun er þá fallin niður í svokallaðan ruslflokk lánshæfisfyrirtækisins. Í tilkynningu frá Landsvirkjun kemur fram að breytingarnar hafi engin áhrif á vaxtakjör á eldri lánum fyrirtækisins. Hún hafi hins vegar neikvæð áhrif á aðgengi Landsvirkjunar að nýju lánsfjármagni á viðunandi kjörum.

Landsvirkjun mun reynast erfitt að fjármagna nýjar virkjunarframkvæmdir eftir að matsfyrirtækið Standard og Poors lækkaði lánshæfismat fyrirtækisins í dag. Framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsvirkjunar, Stefán Pétursson, segir lækkað lánshæfismat þó ekki munu hafa áhrif á rekstur fyrirtækisins til skamms tíma. Breytingin hafi ekki áhrif á vaxtakjör á eldri lánum, heldur torveldi aðeins aðgang að nýju fjármagni.

Þetta er í fyrsta sinn sem lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar er lægri en einkunn íslenska ríkisins. Stefán segir að fáir muni vilja lána Landsvirkjun meðan fyrirtækið hafi þennan stimpil á sér.''

frettir@ruv.is

B.N (IP-tala skráð) 30.6.2009 kl. 23:13

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Á sama tíma og Landsvirkjun stefnir í þrot notaði hún síðustu fjárveitinguna sem hún fékk frá trúgjörnum aðilum til stórmerkrar tilraunar til djúpborunar til þess að komast lengra inn á svæðið Leirhnjúk-Gjástykki og eyðileggja tilraun upp á einn milljarð í stað þess að framkvæma þessa djúpborun á Reykjanesskaganum.

Við áhættuborunina rétt við Leirhnjúk voru brotnar flestar helstu varúðar- og öryggisreglur sem tíðkast á því sviði samkvæmt þeim heimildum sem ég hef aflað mér.

Málaleitan mín við LV varðandi Folavatn er ekki stór í sniðum: Í stað þess að hækka lónið upp í 664 metra og stoppa þar í bili, eins og ætlunin er, bið ég um að stoppa í 661,5 metrum í staðinn í þær vikur sem tekur stjórn fyrirtækisisins, fulltrúa Landsmanna, sem ekkert hafa vitað um þetta mál, að halda fund um málið í ljósi bestu fáanlegu upplýsinga.

Hvernig þessi lítilfjörlega bón getur kollvarpað virkjuninni fæ ég alls ekki skilið. Hvernig fóru menn að í vor þegar Kelduárlón var ekki til ?

Ómar Ragnarsson, 1.7.2009 kl. 00:07

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Lastu ekki athugasemd upplýsingafulltrúa LV, Ómar? Mér fannst þetta nokkuð skírt hjá honum.

Íslenska ríkið er laskað vegna bankahrunsins og lánshæfismatið er í samræmi við það og það er í besta falli barnalegt að halda að fyrirtæki í eigu ríkisins verði ekki fyrir áhrifum vegna stöðu mála. En það eru ekki bara ríkisfyrirtæki á Íslandi sem hafa slæmt lánshæfismat því þannig er ástatt með flest stærstu fyrirtæki í heiminum í dag.

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.7.2009 kl. 00:38

15 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Ég vil bend fólki á að slá inn orðið Folavatn í leitargluggann í þessum pdf-skjölum og fletta.

Pétur Þorleifsson , 2.7.2009 kl. 01:23

16 Smámynd: Óskar Þorkelsson

það kom ekkert út úr þeirri leit Pétur..

Óskar Þorkelsson, 2.7.2009 kl. 09:55

17 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Óskar, prófaðu að opna Adobe Reader og smella á Help og þar undir "Repair Adobe Reader Installation".

Það kemur fram í þessum Kárahnjúkatextum að Folavatn er gróskumikið og hefur hátt verndargildi.

Pétur Þorleifsson , 2.7.2009 kl. 12:16

18 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þorsteinn Hilmarsson talar um nauðsyn þess að nota vorleysingar Hraunaveitu.

Ég er ekkert að fara fram á að þær verði ekki notaðar. Ég er ekki að fara fram á að Hraunaveita verði ekki notuð.

Það er vel hægt að nota vorleysingar þar án þess að hafa lónið svona hátt. Eini vandinn, sem þarf að taka tillit til í því efni, er ef leysingarnar eru svo miklar að göngin anni þeim ekki og Kelduárlón hækki þar af leiðandi svo mikið að Folavatn kaffærist.

Það er verkfræðilegt reikningsdæmi að finna út hve mörgum metrum gæti skakkað í þessu. Þeir geta varla verið margir.  

Í dag kom í ljós að það sem ég er að biðja um eru ekki 2,5 metrar, sem frestað verði að hækka, heldur aðeins 1,5 metrar, þ. e. 662,5 í stað 664.

Einnig kom í ljós í siglingu minni út í hólmana þrjá í Folavatni í gær og við frekari skoðun að það flæðir ekki alveg strax inn í Folavatn. Auk þess getur vel verið að sögn yfirverkfræðings að stansað verði 1,5 metrum neðan við Folavatn og að þar með gefist það ráðrúm, sem ég hef verið að fara fram á.

Ómar Ragnarsson, 2.7.2009 kl. 22:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband