15.7.2009 | 21:32
Í gamalkunnar skotgrafir?
Búsáhaldabyltingin ól af sér ýmislegt. Stjórnin, Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn urðu undan að láta og farið var í kosningar sem færði meiri nýliðun inn á þing en dæmi eru um í marga áratugi.
Á meðal nýliða eru fjórir þingmenn Borgaraflokksins og skipt var um forystu í öllum flokkunum, sem báru ábyrgð á stjórn landsins í aðdraganda bankahrunsins.
Vitað var að klofningur var meira eða minna hjá stuðningsmönnum allra flokka í ESB-málinu og að nýliðunin á þingi gæti gefið færi á að slíkt kæmi fram í atkvæðagreiðslu um það stóra mál, enda vitað að flokkslínur réðu ekki öllu í persónulegum skoðunum einstakra þingmanna á því.
Fyrir nokkru sagði Ögmundur Jónasson að hann myndi fylgjast vel með því hvernig stjórnarandstaðan færi fram í hinum stóru málum og hafa það til hliðsjónar þegar hann greiddi að lokum atkvæði.
Ögmund grunaði það sem nú virðist vera að gerast að flokkar hlaupa í skotgrafir í málum eins og því sem á að greiða um atkvæði á morgun og þá skiptir það máli í hugum margra þingmanna hvernig stjórn eða stjórnarandstöðu reiðir af.
Mér sýnist margt benda til þess að nýliðunin á þingi muni ekki koma í veg fyrir að þetta gerist.
Stjórnarþingmenn annars vegar og stjórnarandstöðuþingmenn hins vegar gruna hvorir aðra um að ætla að þjappa sér saman, og þar með tekur hræðslan við það og afleiðingar þess hugsanlega yfirhöndina hjá báðum fylkingum.
Yfirlýsingarnar um að hver þingmaður greiði atkvæði eftir því einu hvernig málið liggur fyrir í sjálfu sér, eiga á hættu að gufa upp í atkvæðagreiðslunni á morgun, því miður.
Hætta er á því að möguleikinn á því að ríkisstjórnin lendi í hremmingum verði ofarlega í hugum margra.
Gamalkunnugt ástand bankar að dyrum þrátt fyrir allar væntingarnar um að hinn forni skotgrafahernaður tíðkaðist ekki lengur.
![]() |
Niðurstaða um ESB á hádegi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.7.2009 | 13:57
Gömul afturganga á ferð.
Árum saman var sendi íslenska sjónvarpið ekki út í júlí og framundir 1988 ekki á fimmtudögum. Fyrir afslöppun í þjóðfélaginu var þetta ekki svo galið og kærkomið fyrir flesta starfsmenn Sjónvarpsins.
En fréttalega séð var þetta út í hött. Fréttir og fréttatengt efni gerast þegar þeim sýnist.
Hér eru nokkrir atburðir sem hafa gerst í júlí: Bandaríkjaher kemur til Íslands 1951, Bjarni Benediktsson, kona og dóttursonur farast í eldsvoða 1970, Fisher-Spasskí í Reykjavík 1972, opnaður hringvegur 1974, Flugleiðir stofnaðar 1973, menn á tunglinu 1969.
Heimsmeistaramót í knattspyrnu hafa farið fram í júlí og nefna má ótal fleiri dæmi um stórviðburði í júlí og á fimmtudögum.
Meðan Sjónvarpið var í fríi í júlí og á fimmtudögum var reynt að bæta úr þessu eftir föngum en það kostaði alltaf vandræði og mikla fyrirhöfn, annað hvort út á við eða inn á við.
Maður hélt að síðasti móhíkaninn hefði verið fjarlægður þegar Mogginn ákvað að láta undan kröfum tímans og byrja að gefa út blað á mánudögum, en ég get ekki séð betur en að nýr móhíkani hafi verið vakinn upp með því að láta Kastljósið fara í frí í júlímánuði þegar óvenjumikið er að gerast í fréttum.
Að sjálfsögðu verður að draga saman kostnað við Kastljósið ekki síður en aðra dagskrá í Sjónvarpinu þegar harðnar á dalnum fjárhagslega, en uppákoman á Skjá einum, þegar afbragðs efni var "stolið" af Kastljósinu segir að mínu viti það að niðurskurður í Kastljósinu verður að vera flatari en svo að það hverfi af vettvangi á hliðstæðan hátt og Sjónvarpið gerði í heild forðum daga í júlí og á fimmtudögum í skjóli einokunar.
Þótt fólk sé ræst út einhverja daga nú í júlí fyrir Kastljósið, var það svo sem líka gert í gamla daga í júlí og á fimmtudögum.
Það sýnir sig að það breytir litlu að segja sem svo að ræst verði út ef mikið er um að vera. Það breytir því ekki að þegar auglýst er að einhver sé í sumarfríi munu aðrir taka að sér hlutverkið í nútímaþjóðfélagi þegar ástandið æpir á það.
![]() |
Davíð Oddsson setti Skjáinn á hliðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.7.2009 | 10:12
Málefnin fremur en mennina.
Það er landlægt á Íslandi að fyrst er spurt hver maðurinn sé og síðan kemur það á eftir, hvað hann hafi gert eða sé að gera. Þetta er reyndar þekkt úr mannkynssögunni samanber spurninguna fornu: "Getur nokkuð gott komið frá Nazaret?"
Það er af nógu að taka við að rökræða kosti og galla Icesave-samningsins eins og sést á innleggi Elviru Mendez þótt ekki sé byrjað á gamla íslenska þrefinu um einstaka menn og getu þeirra.
Það er að vísu nauðsynlegt, einkum á landi fámennis og tengsla, að bæta og vanda val á þeim sem falin eru störf eða verkefni, en í umræðunni um Icesave hefði sú umræða átt að fara fram þegar samninganefndin var skipuð.
Eins og stundum áður hefur umræðan færst inn á þref um eitt enskt orð, sem hefur orðið að orðið að nokkurs konar bjúgfleyg (boomerang) hjá Þór Saari ef marka má orð Eiðs Guðnasonar, sem er löggiltur dómtúlkur í ensku og með mikla reynslu af alþjóðlegum viðskiptum og samskiptum.
Þar með er umræðan komin á það plan að spyrja hvort Þór sé ekki marktækur í umræðunni úr því að hann telur sig búa yfir fullkominni kunnáttu á ensku og klikkar síðan á sjálfvöldu orði.
Ég legg til að við komum okkur út úr þessu fari og reynum, úr því sem komið er, að nota dýmætan tíma okkar til þess að kryfja samkomulagið sjálft, áhrif þess og eðli, kosti og galla, til mergjar.
![]() |
Svavar fullkomlega vanhæfur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)