Ef það er flug, margfalda með minnst þremur.

Hér forðum tíð hengdum við fréttamenn hjá Sjónvarpinu, upp lista í hálfkæringi til hagræðis í flýti fréttanna að meta fréttagildi óhappa og slysa eftir því hverjir ættu í hlut eða hvar óhappið gerðist.

Margföldunartaflan var í nokkrum liðum.

1. Fjöldi fólks sem á í hlut:

Einn Íslendingur = 2 Færeyingar = 2,5 Danir, Norðmenn eða Svíar = 3 Finnar, Bretar eða Írar = 4 í Norður-Evrópu = 6 í Suður-Evrópu = 8 í Bandaríkjunum = 15 í Afríku = 50 í Asíu.

2. Eftir gerð farartækis:  

Óhapp á flugvél er minnst þrefalt merkilegra en samskonar atvik á annars konar farartæki. 

Gott dæmi um þetta er fréttin af Cessnu-flugvélinni sem hjólbarði sprakk á í dag.

Litlar kennsluflugvélar af Cessna-gerð snerta flugbraut í lendingu á 50 - 80 kílómetra hraða. Segjum að sprungið hefði á bíl á þessum hraða. Þá hefði það ekki þótt nein frétt, hvað þá að taka þetta fram um þá sem voru í bílnum: "...og sakaði þá ekki."


mbl.is Sprakk á Cessnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innbrotsþjófar ganga á lagið.

Kreppa og atvinnuleysi verða yfirleit til að auka á óöld í þjóðfélaginu og kalla á aukna löggæslu. Þessi sama kreppa veldur því síðan að draga mátt úr lögreglunni til að fást við aukin viðfangsefni. Í dag varð ég vitni að því þegar lögregla var kölluð á stað þar sem brotist var inn í rammgerða geymslu.

Lás af öflugasta tagi reyndist hafa verið lítil vörn því að þjófarnir höfðu verið búnir stórvirkum tækjum til að saga sig inn í geymsluna.

Svipaða sögu er að segja víðs vegar úr borginni. Dæmi eru um að innbrotsþjófar hafi komið á stórum vöruflutningabíl, farið inn í íbúð manns, sem hafði brugðið sér í Bónus, og hreinsað allt innbúið út á skömmum tíma og ekið í brott.

Samkvæmt bréfi sem lögreglumaður sendi fjölmiðlum eru innbrot nú skráð sem eignaspjöll.

Það minnir á gömlu gamansöguna af lögreglumanninum sem fann lík í Fishersundi og dró það upp í Garðastræti af því að hann vissi ekki hvernig ætti að skrifa nafnið Fishersund.


mbl.is Bágborin staða lögreglunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsala á kostnað lífeyrisþega.

Mikilvægt er að greina hið raunverulega orsakasamhengi hlutanna. Nú stendur yfir sala á landi til útlendinga. Iðnaðarráðherra lýsir yfir að nauðsyn sé að endurnýja viljayfirlýsingu við Alcoa vegna risaálvers á Bakka.

Skilyrði Alcoa vegna fyrri yfirlýsingar og líka þessarar er að orkuöflun sé tryggð fyrirfram. Alcoa krefst þess að stækka álverið úr 250 þúsund tonnum í 340 þúsund tonn þrátt fyrir að þrætt væri fyrir það að slíkt stæði til. 

Uppfylling skilyrðis Alcoa um næga orku knýr Landsvirkjunt til að krefjast leyfis til borana í Gjástykki og geirnegla þar með að það að engu einasta háhitasvæði á Norðurlandi verði þyrmt, hversu mikið gildi sem það hefur sem heimsundur og sé mun aðbærara sem ósnortið ferðamannasvæði heldur en iðnaðarsvæði í Hellisheiðarstíl.

Í sjálfri orku- og einokunarparadísinni Íslandi stefnir Landsvirkjun í gjaldþrot. Til þess að hægt sé að tryggja að Alcoa fái alla þá orku, sem hún þarf í álver á Bakka, verður að taka lífeyrinnn okkar og nota hann til að hjálpa Landsvirikjujn til að seðja orkuþörf Alcoa, sama hvað það kostar.

Landsvirkjun segist ætla að eyða fénu í tilraunaboranir í Gjástykki en láta þar við sitja og virkja ekki !

Kanntu annan? Auðvitað er gjaldþrota fyrirtæki ekki að eyða hundruðum milljóna í boranir og láta síðan orkuna eiga sig. Sagt er að orkan verði ekki notuð nema ekki fáist næg orka annars staðar sem auðvitað þýðir það að það verður virkjað.  

Raunar virðist Landsvirkjun vera búin að tapa allri glóru. Hún er nýbúin að klúðra milljarðsfjárveitingu til mjög mikilvægrar tilraunar með djúpborun með því að velja sér holu, sem tryggði áframhald sóknar inn að Leirhnjúki í þágu Alcoa sem í raun ræður nú yfir þessum landshluta og orkulindum þess. 

Alcoa þarf nefnilega svo mikla orku að engir aðrir, skaplegri og hagkvæmari orkukaupendur komast að.

Yfirþyrmandi stærð og vald Alcoa mun jafnvel kalla á virkjanir Skjálfandafljóts og Jökulánna í Skagafirði.  

Hina mikilvægu djúpborunarholu hefði verið eðlilegt að bora á Reykjanesskaga eftir almennum alþjóðlegum varúðarreglum en ásælnin í Leirhnjúk og Gjástykki réði því að spilað var fráleitt áhættuspil með einni alltof stórri holu rétt við nýgosið eldfjall, í stað þess að fikra sig áfram skref fyrir skref í þremur dýpkandi holum á öruggara svæði. 

Ég hafði vonað að lítilfjörlegur lífeyrir minn og annarra lífeyrisþega , sem við höfum þó unnið fyrir á starfsævinni fengi að vera í friði fyrir virkjana- og skammgróðafíklunum.

En virkjana- og skammgróðafíklunum er ekkert heilagt, hvorki lífeyrinum né ómetanlegum náttúruverðmætum landsins sem nú er verið að selja Alcoa í raun.

Á næstu misserum verður deilt um hættuna á því hvort land og auðlindir komist í hendur útlendinga á næstu árum.

En sú stefna sem nú er rekin sýnir, að í raun er landsalan hafin og lífeyrir þeirra, sem skópu þetta þjóðfélag með vinnu sinni, fær ekki einu sinni að vera í friði.  

 


mbl.is Lífeyrissjóðir hlaupa undir bagga með Landsvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband