23.7.2009 | 22:19
Frekar "já, ef.." en "nei".
Sagt er að í Noregi sé allt bannað nema það sé leyft en á Íslandi allt leyft nema það sé bannað. Þetta er að sjálfsögðu einföldun en kannski hefur þetta verið svona frá því að menn hrökkluðust frá Noregi vegna þess sem nefnt var ofríki Haraldar hárfagra.
Mér hugnast betur að í staðinn fyrir þá auðveldu niðurstöðu að segja "nei" sé oftast skynsamlega og farsælla að segja "já, ef..." og tilgreina síðan hver skilyrðin eru fyrir jákvæðri niðurstöðu.
Þetta kemur mér í huga þegar rætt er um að færa ökuleyfisaldur úr 17 árum upp í 18 ár.
Ég held að árangursríkara sé að veita ökuleyfi stig með því að leyfa aksturinn fyrst á bílum, sem takmarkaðir eru að stærð og getu og farþegafjölda og fikra sig síðan upp stig af stigi.
Ég var að fá athyglisverðan póst frá Birgi Þór Bragasyni um þetta mál og ætla að kynna mér betur tillögur hans og leggjast á árar með honum til að ná fram umræðum um þetta mál.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
23.7.2009 | 21:31
Afleit skilaboð.
Það eru afleit skilaboð til brotamanna í þjóðfélagi vaxandi rótleysis og afbrota, sem fylgir krepputímum, að þjófar og lögbrjótar komist upp með það að lögreglan anni því ekki að koma þeim til hjálpar og aðstoðar sem verða fyrir barðinu á þessari óöld.
Í hugann koma nokkrir gamlir vestrar þar sem vel var lýst þeim kvíða, kúgun og vanlíðan sem fylgir slíku ástandi sem og þeim ágöllum sem á því eru að almennir borgarar telji sig knúna til að taka lögin í eigin hendur.
Slíkt ástand á Íslandi er ekki tilhlökkunarefni.
![]() |
Lögregla komst ekki í útköll |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.7.2009 | 12:46
Gamli Kaninn hafði gríðarleg áhrif.
Gamla Kanaútvarpið hafði gríðarleg áhrif á tónlistarmenningu íslensku þjóðarinnar, einkum yngsta hluta hennar.
Ég minnist þess enn að mér fannst hin mikla sveitatónlist og rythm and blues tónlist næsta framandi þegar ég heyrði hana fyrst í Kananum og kunni satt að segja ekki að meta hana fyrst í stað.
Í Kananum var spilað mikið af tónlist sem aldrei heyrðist í Ríkisútvarpinu og nýjstu bandarísku smellirnir heyrðust oft fyrst þar.
Segja má að lagið "Oh, lonsome me" hafi verið tímamótalag hvað varðar tónlistarsmekk Íslendinga. Áður höfðu örfá kántrílög orðið kunn hér á landi svo sem "Don´t fence me in" en "Oh, lonesom me" var lagið sem braut alla múra, lag sem sýndi og sannaði að góð og vel spiluð kántrítónlist er jafnoki hvaða tónlistarstefnu sem vera skal.
Hin mikla spilun á Rythm and blues tólnlist skóp jarðveginn fyrir því að rokkið sló í gegn á undraskömmum tíma.
Í gamla Kananum var stundum leikin tónlist manna, sem ferðuðust á milli herstöðva. Einn þeirra flutti lag, sem eingöngu var spilað í hermannaútvarpi og ég gerði síðar textann "Kappakstur" við.
35 árum síðar var gaurinn sem spilaði lagið í heimsókn hér að spila á herstöðvarballi á Spáni þar sem Kristinn R. Ólafsson var meðal gesta. Þegar hann hóf að spila lagið, stökk Kristinn upp á sviðið og fór að syngja það á Íslensku.
Sá bandaríski var furðu lostinn og skildi ekkert í því hvernig þessu væri varið.
Kaninn gamli rauf ákveðna einangrun sem ríkt hafði þegar aðeins var hægt að hlusta að gagni á eina útvarpsrás á íslandi. Nýi Kaninn kemur fram í gerbreyttu umhverfi þar sem samkeppnin er hörð og róðurinn verður að því leyti til erfiðari. Honum fylgja bestu óskir.
![]() |
Kaninn aftur í loftið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.7.2009 | 08:08
Hin mikilvæga upplýsingagjöf.
Þorskastríðin hefðu aldrei unnist á sínum tíma ef ekki hefði tekist að koma upplýsingum um málstað Íslendinga á framfæri hjá öðrum þjóðum.
Þess vegna er svo mikilvægt að halda vel á íslenskum málstað núna hvar sem því verður við komið til þess að aðrar þjóðir skilji, að íslenskur almenningur fékk ekki að vita hvernig í málum lá varðandi Icesave fyrr en það var um seinan og það er ósanngjarnt að gengið sé með offorsi að hinum almenna íslenska borgara vegna afleiðinga galla á regluverki Evrópusambandsins.
Íslendingar færast ekki undan því að taka á sig þá ábyrgð sem þeim ber siðferðilega og að sanngjörnum lögum. En það verður að gera á þann hátt að ekki sé hallað á þann sem er minnimáttar í samskiptum við stórar og voldugar þjóðir.
Það þarf líka að láta vita af því að þjóðin sé reiðubúin til að að greiða eins mikið og hún getur með sæmilegu móti en að það sé engum til góðs að gengið sé svo hart að henni að hún verði blóðmjólkuð og kippt fótunum undan því að hún geti lifað eðlilegu lífi í landinu eða staðið við skuldbindingar sínar.
Rétt upplýsingagjöf er líka mikilvæg og það er ekki rétt að Íslendingar hafi misst hlutfallslega fleiri menn í heimsstyrjöldinni en Bretar.
Bretar misstu 350 þúsund manns sem var að minnsta kosti fimmfalt fleiri miðað við fólksfjölda heldur en Íslendingar misstu.
![]() |
Fjallað um reiði Íslendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)