26.7.2009 | 21:42
Eins langt og hratt og á bensíni.
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra ók síðasta spölinn á hringferð metanbílsins síðdegis í dag.

Við ókum stærri hring en við þurftum, alls 1470 kílómetra, eins og áður hefur komið fram og lengdum með því leiðina um 220 kílómetra miðað við stystu hringleiðina um Öxi.
Ég hef sagt að með þessu hafi 50 ára draumur minn um nýtni og umhverfisvitund ræst, allt frá því ég keypti mér meðvitað minnsta, ódýrasta, einfaldasta og sparneytnasta bíl sem völ var á 1959. Hann var gulur af gerðinni NSU Prinz en svarti bíllinn minn af sömu gerð sem sjá má efst á síðunni er af sömu gerð, árgerð 1958, og er þarna við hliðina á minnsta bíl landsins, Fiat 500 árgerð 1972 sem ég nota á góðum dögum.

Síðan hef ég reynt að halda við þessari naumhyggju hvað bíla snertir og nú ek ég sem mest á ódýrasta og einfaldasta bíl landsins með númerinu EDRÚ sem flytur ákveðin skilaboð sem eiga vel við í nálægð við metanbílinn.
Það var gaman að heilsa upp á hann á Akureyri á metanbílnum í ferðinni.
Á næstum myndum þar fyrir neðan má sjá Einar Vilhjálmsson að fræða forvitna vegfarendur um metanbílinn á Akureyri og Egilsstöðum, en þar var hann kominn á ættarslóðir.

Vegna þess að metanbílar eru tvíorkubílar og geta bæði gengið fyrir bensíni og metani komast þeir jafnlangt og hratt og bensínbílar hafa gert.
Það er vegna þess að ef metanið þrýtur, til dæmis vegna þess að átöppunarstöðvar vantar fyrir metan, skiptir búnaður metanbílsins sjálfkrafa yfir á bensíngeyminn.
Fyrir neytandann byrjar fjárfesting í metabreyttum bíl að borga sig eftir 2,5 ár að jafnaði og eftir það skilar metanbíllinn honum um 200 þúsund krónum í gróða á ári.

Við fórum hringinn á nokkuð stórum bíl vegna þeirrar kröfu að eiga nóg eldsneyti um borð til að aka þessa 1470 kílómetra alla á metaninu einu.
En það er hægt að setja búnað fyrir metan í alla bíla.
Í lokin kom þessi vísa:
Ferðaðist með fínan mat,
fíkinn í að éta´hann.
Á klósettinu keikur sat
og kreisti úr mér metan.
![]() |
Hringurinn að lokast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)