31.7.2009 | 13:48
Fjárhættuspil útihátíðanna.
Á Suðurlandi rignir í meira en 60% daga að jafnaði. Þeir sem halda útihátíðir þar taka því fyrirfram áhættu sem er að jafnaði um 1 á móti 2.
Áhættan er mun minni á Norðurlandi. Þetta fjárhættuspil elska Íslendingar og nærast á fréttum af því í heila viku á hverju sumri.
Nú, þegar fjárhættuspilið mikla með eignir þjóðarinnar er tapað er dýrmætt að eiga þetta verslunarmannahelgarspil.
Í þetta sinn hirðir Þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum mestallan pottinn. Reyndar er hún komin á þann stall að veðrið skiptir ekki lengur neinu máli.
Sveitaböllin í gamla daga byggðust á því að fólkið fór þangað sem það hélt að allir myndu vera.
Einu sinni voru ég, Guðrún Á. Símonar og fleir auglýst á sveitaballi sem fyrirsjáanlega yrði hrikalegt skrall.
Ég spurði skemmtanahaldarann hvort nokkurt vit væri í því að láta okkur Guðrúnu koma þarna fram.
Hún myndi verða fyrir sjokki þegar ekki myndi heyrast í hennar miklu rödd fyrir hávaðanum í ölvuðum samkomugestunum.
"Það skiptir engu máli", svaraði skemmtanastjórinn, "þótt ekkert eigi eftir að heyrast í ykkur fyrir hávaðanum." Aðalatriðið er að geta auglýst fyrirfram nógu marga og fræga skemmtikrafta til þess að allir dragi þá ályktun að allir fari á þetta ball. Allir vilja nefnilega vera þar sem allir eru."
Þetta gekk eftir. Húsið var smekkfullt. Það heyrðist ekki mannsins mál fyrir látum þegar Guðrún söng og hún fékk sjokk. En hún fékk líka pening fyrir en sagðist þó aldrei gera þetta aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.7.2009 | 13:34
Verslunarmannahelgin fer í yfirsetu.
Frá því síðastliðinn mánudag hef ég verið yfirsetumaður hjá Folavatni á hverjum degi. Þessi verslunarmannahelgi verður ólík öllum fyrri slíkum helgum hjá mér. Það hækkar hægt í Folavatni, sem ég hafði reyndar talið eftir þeim gögnum, sem ég hef, að væri um 2 ferkílómetrar.
Fyrir bragðið verður dauðastríð hinna grónu hólma langdregið. Fyrst sökkva tveir tangar á Miðhólmanum, en einhvern næstu daga sekkur risavaxið álftahreiður á Álftahólma, sem gæti verið margra alda gamalt.
Síðast sekkur lítill melkollur á Miðhólmanum.
Ég vísa til fyrra bloggs um þetta með myndum af þessu, og hægt er að leita aftur í tímann með því að smella inn á "færslulisti".
Kærar kveðjur til allra af hálendinu og skemmtið þið ykkur vel um þessa met-verslunarmannahelgi kreppunnar.
![]() |
Kelduárlón flæðir í Folavatn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)