Farþeginn lét tækin í té.

Það er ekki einsdæmi að farþegi hafi átt þátt í því að standa að viðgerð flugvélar. Snemma á sjöunda áratugnum átti ég að fara með tíu manna farþegavél Flugsýnar til Vestmannaeyja.

Vélin var myrkvuð þegar við farþegarnir fórum inn í vélina og settumst í sætin. Síðan leið og beið og ekkert gerðist nema að flugstjórarnir voru eitthvað að bjástra frammi í vélinni.

Loks kom annar þeirra í dyrnar og sagði yfir farþegahópinn: "Er nokkur hérna með vasaljós?"

Ég játti því og lánaði honum vasaljós sem ég hafði í hrakfarapoka svonefndum sem ég tók snemma að hafa með mér á ferðum mínum, þótt ég væri þá ekki byrjaður að fljúga sjálfur, - notaði það ef ég lenti í vandræðum af ýmsu tagi.

Áfram bjástruðu flugmennirnir dágóða stund en síðan kom annar þeirra aftur í gættina og spurði: "Er nokkur hérna með skrúfjárn?"

Ég játti því og lét hann nú hafa allan pokann.

Þeir gerður sér greinilega gott úr því, því nokkru síðar kom hann aftur með pokann, þakkaði fyrir lánið og síðan var sett í gang.

Tvívegis hefur það komið fyrir að ég hafi þurft að fara að hluta til útbyrðis úr flugvél til að gera við hana á flugi en það er efni í annan pistil.


mbl.is Farþegi gerði við flugvélina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Michael Jackson og Keiko.

Þessi tvö nöfn eru samofin á ýmsan eftirtektarverðan hátt. Það kemur upp í hugann þegar lagið úr myndinni "Frelsum Villa" er leikið á minningartónleikum um Jackson.

Þótt það sé kannski ólíku saman að jafna, manni og hval, eru aðstæðurnar og örlögin sláandi lík.

Snilligáfa og einstakir hæfileikar Jacksons rændu hann möguleikanum á að ná venjulegum þroska, sem eðlilegt umhverfi æsku og unglingsára gefa venjulegu fólki. Það reyndist ómögulegt að breyta þessu það sem eftir var af skammri ævi hans, - og hann dó fyrir aldur fram.

Keiko hlaut frægð fyrir hæfileika sem hann sýndi í lauginni sem hann hefði verið settur í ungur að árum. Fyrir bragðið lék hann aðalhlutverkið í myndinni sem Jackson gerði svo eftirminnilega með hinu ótrúlega áhrifamikla en einfalda lagi, sem hann söng.

Í ljós kom að rétt eins og Jackson gat aldrei orðið samur og eðlilegur eða líkur öðru fólki eftir að æsku hans var umturnað, mistókst sú tilraun illa að reyna að snúa hjóli tímans við og flytja Keikó um síðir til Íslands og láta hann aðlaga sig eðlilegu lífi hvala.

Hann hraktist til Noregs og þegar ég heimsótti hann þar sem hann dormaði að Hálsum (Halsa) var ljóst að hann var að veslast upp. Skömmu seinna drapst hann um aldur fram.


mbl.is Mikið um dýrðir á minningarathöfninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband