1.8.2009 | 23:34
Furðulegt veðurfar á austurhálendinu.
Að meðaltali er minnst úrkoma á Íslandi í "skugganum" norðan Vatnajökuls. Áberandi er hve lítil úrkoma er í Krepputungu suðaustur af Herðubreiðarlindum og í Kringilsárrana, um 15 km fyrir sunnan Kárahnjúka.
Á útmánuðum var óvenju mikil snjókoma á austanverðu hálendinu, en þó var umhverfi Herðubreiðar undantekning. Flugvöllurinn við Herðubreiðarlindir var auður í allt vor.
Gríðarlega mikið snjóaði í Snæfell og umhverfis það og í því eru enn miklar fannir þrátt fyrir hlýjan júní.
Frá miðjum júní og fram í júlí var einstaklega lítið um vind á svæðinu, en síðustur vikur hefur brugðið svo við að mjög votviðrasamt hefur verið, einkum í kringum Snæfell.
Norðaustanáttin hefur breyst frá því sem áður var. Nú er hún oft bæði hlý og úrkomumikil.
Steininn tók þó úr í gær en þá var ausandi rigning á þessu svæði og ár, lækir og tjarnir bólgnuðu út.
Áin Hrafnkela í Hrafnkelsdal var eins og jökulfljót og kolófær. Ég var í basli í hinni sakleysislegu Hölkná seint í gærkvöldi sem bólgnaði upp og varð nógu öflug til að drepa á bílnum.
Mér tókst þó að snúa mig út úr þessum vandræðum og komast yfir án hjálpar.
Veðurfræðingur tjáði mér í gær að yfir suðausturhorni landsins væri rigningar"klessa" sem ylli þessu.
Að undanförnu hefur þetta fyrirbæri, rigningarklessa í norðaustanátt sést hvað eftir annað á suðausturhorninu og hún virðist vera það öflug að hún nái vestur fyrir Snæfell.
Í Noregi hefur hlýnun veðurfars valdið aukinni úrkomu bæði á veturna og sumrin. Snjóalög hafa verið meir en fyrr, en hlýnun og auknar rigningar á sumrin hafa samt valdið því að jöklar dragast saman.
Svipað virðist vera að gerast á svæðinu umhverfis Snæfell. Þrátt fyrir mikinn snjó hopar jökullinn og nú virðist stefna í það að svipað gerist um Kelduá og Sauðá vestari, að jökullliturinn hverfi úr Kelduá.
Sauðá var illúðleg jökulá fram yfir 1940 en varð næsta sakleysisleg bergvatnsá eftir að Brúarjökull hopaði. Svipað fyrirbæri og nú hefur tekið Skeiðará í burtu.
Það eru umbrotatímar í loftslaginu eins og efnahagsmálunum. Við lifum á mögnuðum tímum.
![]() |
Sést til sólar á Siglufirði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.8.2009 | 23:07
Meiri hagsmunir fyrir minni.
Fyrir nokkrum árum var fjallað um það fyrir dómstólum hvort fjölmiðill hefði brotið gegn friðhelgi einkalífs að mig minnir með því að birta tölvupósta.
Niðurstaðan var sú að svo ríkir almanna hagsmunir væru fyrir hendi að birtingin hefði verið réttmæt.
Almannahagsmunirnir núna eru margfalt meiri, - hinar ýmsu hliðar bankahrunsins og hvernig úr því er unnið skipta alla Íslendinga gríðarlega miklu máli.
Ef lög um bankaleynd eru svo heilög að þau séu rétthærri en nánast hvaða almannahagsmunir sem hugsast getur, verður að breyta þessum lögum.
Auðvitað er vandaverk að draga línuna, en í málum eins og því sem nú endar með lögbannsúrskurði gegn birtingu bráðnauðsynlegra gagna, verður að draga þessa línu á annan hátt en gert hefur verið.
Vonandi hefur Sigurður Líndal rétt fyrir sér að lögbannsúrskurðinum verði hnekkt.
![]() |
Lögbanni mögulega hnekkt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)