Furðulegt veðurfar á austurhálendinu.

Að meðaltali er minnst úrkoma á Íslandi í "skugganum" norðan Vatnajökuls. Áberandi er hve lítil úrkoma er í Krepputungu suðaustur af Herðubreiðarlindum og í Kringilsárrana, um 15 km fyrir sunnan Kárahnjúka.

Á útmánuðum var óvenju mikil snjókoma á austanverðu hálendinu, en þó var umhverfi Herðubreiðar undantekning. Flugvöllurinn við Herðubreiðarlindir var auður í allt vor.

Gríðarlega mikið snjóaði í Snæfell og umhverfis það og í því eru enn miklar fannir þrátt fyrir hlýjan júní.

Frá miðjum júní og fram í júlí var einstaklega lítið um vind á svæðinu, en síðustur vikur hefur brugðið svo við að mjög votviðrasamt hefur verið, einkum í kringum Snæfell.

Norðaustanáttin hefur breyst frá því sem áður var. Nú er hún oft bæði hlý og úrkomumikil.

Steininn tók þó úr í gær en þá var ausandi rigning á þessu svæði og ár, lækir og tjarnir bólgnuðu út.

Áin Hrafnkela í Hrafnkelsdal var eins og jökulfljót og kolófær. Ég var í basli í hinni sakleysislegu Hölkná seint í gærkvöldi sem bólgnaði upp og varð nógu öflug til að drepa á bílnum.

Mér tókst þó að snúa mig út úr þessum vandræðum og komast yfir án hjálpar.  

Veðurfræðingur tjáði mér í gær að yfir suðausturhorni landsins væri rigningar"klessa" sem ylli þessu.

Að undanförnu hefur þetta fyrirbæri, rigningarklessa í norðaustanátt sést hvað eftir annað á suðausturhorninu og hún virðist vera það öflug að hún nái vestur fyrir Snæfell.

Í Noregi hefur hlýnun veðurfars valdið aukinni úrkomu bæði á veturna og sumrin. Snjóalög hafa verið meir en fyrr, en hlýnun og auknar rigningar á sumrin hafa samt valdið því að jöklar dragast saman.

Svipað virðist vera að gerast á svæðinu umhverfis Snæfell. Þrátt fyrir mikinn snjó hopar jökullinn og nú virðist stefna í það að svipað gerist um Kelduá og Sauðá vestari, að jökullliturinn hverfi úr Kelduá.

Sauðá var illúðleg jökulá fram yfir 1940 en varð næsta sakleysisleg bergvatnsá eftir að Brúarjökull hopaði. Svipað fyrirbæri og nú hefur tekið Skeiðará í burtu.

Það eru umbrotatímar í loftslaginu eins og efnahagsmálunum. Við lifum á mögnuðum tímum.  


mbl.is Sést til sólar á Siglufirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Áhugavert. 

Því má bæta við að mér þykir nokkuð furðulegt veður hér í höfuðborginni, mun meira sólríkt en á að vera, ég hef óskað þess að rigndi t.d. í dag svo að ég fengi ekki samvizkubit yfir að hanga inni í sólinni! (sem ég hef fengið smá nóg af því að hún kemur marga daga í röð)

Ari (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 01:52

2 Smámynd: Magnús Bergsson

Það er gott að það rigni mikilli vætu yfir austfirðinga. Ef hennar nyti ekki við þá fengju þeir að fylla vitinn af foksandi frá bökkum Hálslóns.

.... En líklega mæli ég frekar með því að austfirðingar fái foksandinn. Þá mundu aðrir upplifa eðlilegt veðurfar og austfirðingar stífla vitin, fullir aðdáunar á verksviti mannsins.

Magnús Bergsson, 2.8.2009 kl. 02:08

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Á hverju sumri hér niður á fjörðum eru nokkrir dagar þannig að varla er hægt að hengja út þvott vegna mysturs af hálendinu vestur af Kárahnjúkum, en ekki í ár, og það þrátt fyrir að varla hafi komið dropi úr lofti frá því í júní, þar til nú.

Ég hef ekki trú á því að sandfok úr Hálslóni hafi áhrif til viðbótar þessu "venjulega", næstum árvissa sandfoki hér.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.8.2009 kl. 12:12

4 Smámynd: Baldvin Jónsson

Bráðnun jökla hefur án vafa aukið umfang ferskvatns í hringrásinni. Það hlýtur einfaldlega að þýða að úrkoma mun aukast verulega.

Á Íslandi virðist nú orðið vera meiri úrkoma almennt og fyrir ofan 800 metrana er það almennt snjókoma stærstan hluta ársins. Mér hefur verið tjáð að Drangajökull og jöklar á Tröllaskaga séu farnir að bæta við sig vegna þessa.

Hlýnun jarðar er margslungin og flókin, en ljóst er að öfgarnir eru að verða meiri og meiri.

Baldvin Jónsson, 2.8.2009 kl. 13:01

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég held reyndar að úrkoma hafi verið óvenju lítil á landinu öllu þetta sumarið og mér hefur skilist að allir jöklar á landinu séu að hopa. Hvaðan hefur þú þínar upplýsingar, Baldvin?

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.8.2009 kl. 16:19

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Síðustu tvö sumur hafa verið einstök á austurhálendinu varðandi stillurnar langt fram eftir sumri. Þess vegna hefur verið svo lítið sandfok. Um daginn kom þó dagur þar sem aðeins var sandrok á einum stað, úr lónstæði Hálslóns, svo að vart sást yfir lónið.

Ef menn trúa ekki myndunum sem ég tók af þessu ásamt búnaði starfsmannanna sem ætla sér að framkvæma svonefndar mótvægisaðgerðir, eru þeir þó til vitnis um þetta í þetta sinn.

Gunnar, þú ert í hlutverki strútsins, - þitt höfuð er alla jafna austan við Austfjarðafjöllin og því sérðu ekki yfir þau það sem er að gerast á austurhálendinu.

Ómar Ragnarsson, 2.8.2009 kl. 16:26

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nú! Ég sem var að enda við að fræða lesendur síðunnar þinnar á hvernig sandfokið hefur verið hérna niðurfrá undanfarin ár.  Enginn strútur í því.

það eiga sjálfsagt einhverntíma eftir að skapast ákjósanleg skilyrði fyrir þig, svo þú getir sagt "Sko!... ég sagði það!".  Þá mun eflaust ekkert þýða fyrir okkur fjarðabúa að segja að við könnumst við þetta frá því fyrir tilurð Hálslóns.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.8.2009 kl. 21:26

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Talandi um strút

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.8.2009 kl. 22:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband