16.8.2009 | 21:20
Að versla með frumburðarréttinn.
Þegar Sigríður í Brattholti barðist gegn því að Gullfoss yrði seldur var íslenska þjóðin enn meðal hinna fátækustu í Evrópu. Hér voru engir vegir sem gátu staðist samanburð við vegi erlendis og meirihluti sveitabæja voru enn torfbæir.
Samt fór það svo að frumburðarréttur þjóðarinnar til auðlinda lands og sjávar var ekki seldur í hendur útlendingum.
1920 myndu margir þeirra sem nú mæla því bót að auðlindirnar séu seldar úr landi, hafa sagt að neyð þjóðarinnar og fátækt réttlætti slíka sölu frumburðarréttar henndar, annars yrði þjóðin áfram læst í fátækragildru.
Víst erum við í vanda nú, en við erum ósambærilega skár stödd en við vorum á fyrstu áratugum síðaustu aldar.
Einu gildir í mínum huga þótt sagt sé að eignarhlutur útlendinganna fari ekki yfir 49% eða að með því að skipta úrvinnslu orkunnar í tvennt, framleiðslu og dreifingu, sé allt í lagi að einstök fyrirtæki lendi í höndum erlendra manna.
Ég geri engan mun á landsölu og sölu auðlinda landsins, - vil líka benda á að hlutur sem nálgast helmingshlut í viðkomandi fyrirtæki telst ráðandi hlutur og jafngildir að því leyti algerri sölu.
Þegar Einar Þveræingur mælti því mót að Noregskonungi yrði gefin Grímsey sagði hann þau viturlegu orð að enda þótt þáverandi Noregskonungur væri hinn vænsti maður vissi enginn hvern mann þeir myndu geyma sem tækju við af honum.
Á sama hátt vitum við ekki hverjir kynnu í framtíðinni að ná yfirráðum yfir eignarhlutum hinna vænstu erlendu fyrirtækja sem menn tala nú um að hægt sé að treysta fyrir fjöreggjum þjóðarinnar.
Með viljayfirlýsingu um að Alcoa fái alla þá orku á Norðausturlandi sem hún þarf er fyrirtækinu í raun selt landið eða landshluturinn, sem orkan er unnin í, til eignar og einokunar.
Sjálfstæðisbaráttan hefur sjaldan verið harðari en nú og ástæða við að andmæla kröftuglega og vara við því andvaraleysi og þróttleysi sem virðist vera að heltaka menn í þessum efnum.
![]() |
Sandgerðisbær selur hlut í HS Orku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.8.2009 | 01:52
Laugarnesið, dýrmætur staður.
Undanfarna daga hef ég unnið að gerð tónlistarmyndbands um Reykjavík undir heitinu "Reykjavíkurljóð."
Það byrjar svona: "Ljúf stund, safírblá sund / þegar sindraði á jöklinum glóð. / Tvö ein, - aldan við hlein / söng um ástina lofgerðarljóð. / Þau leiddust inn í Laugarnes, - / lögðust þar / ástfangin og rjóð hið fyrsta Reykjavíkurpar / þau Ingólfur og Hallveig. "....
Ljóðið átti að byrja á því að finna stað þar sem fyrsta Reykjavíkurparið hefði getað átt ástarfund við nákvæmlega sömu aðstæður og nú eru og allir hafa þekkt jafn vel í meira en 1100 ár.
Sem sagt: Sami kossinn á sama stað.
Enn einu sinni nutum ég og fleiri þess í dag hve dýrmætur staður Laugarnesið er fyrir borgina okkar því það reyndist vera eini staðurinn sem uppfyllti þessar kröfur. .
Í dag fór ég þangað með ljósmyndara og brúðhjónum, sem urðu að flýja rigningu uppi í Mosfellsdal þar sem upphaflega átti að taka af þeim myndir.
Myndin hér er af brúðhjónunum í brúðarbílnum, þeim Silju Edvardsdóttur og Benjamins Mokry.

Þarna er eitthvert dýrasta byggingarland borgarinnar látið óhreyft í stað þess að þétta byggðina og reisa 20-30 hæða íbúðablokkir eins og gert hefur verið við Skúlagötu.
Slíkar byggingar eru í anda þekktasta íbúa nessins, sem gerði slík íbúðarháhýsi að einu aðalatriðinu í mynd sinni "Reykjavík í nýju ljósi" þótt hann sjálfur búi þarna meira út af fyrir sig en nokkur annar íbúi nessins sem Reykjavík stendur á milli Skerjafjarðar og Kollafjarðar.
Strandlengja nessins er líkast til á annan tug kílómetra að lengd og á norðurströnd nessins er þetta eina vinin sem eftir er.
Hrafn Gunnlaugsson er einhver frjóasti og skemmtilegasti maður sem ég hef kynnst og það hefur verið unun að vinna með þeim manni.
En háhýsablokkir í sunnanverðri borginni sem hann sýndi myndu varpa skuggum á stór svæði fyrir norðan þær.
Háhýsi í Laugarnesi myndu ekki hafa þennan ókost af því að þeim myndi verða raðað meðfram ströndinni og varpa skuggum sínum út fyrir hana.
Ég hygg hins vegar að þrátt fyrir áhuga Hrafns á því að sem flestir borgarbúar búi í slíkum húsum, myndi hvorki honum né mér hugnast að slíkar ofurblokkir risu þar.
Ég hef sjálfur búið um nokkurra ára skeið í háhýsum og átti fyrst heima á tólftu hæð. Mér líkaði það vel. Ég bý nú í blokk og hefði ekkert á móti því að búa í hærra húsi og finnst sjálfsagt að þeir, sem hafa þennan smekk eigi kost á að gera það.
En það eru takmörk fyrir því hve margt fólk kýs að búa á þennan hátt og þess vegna held ég að hugmyndir um að þetta verði kjarninn í vali fólks á bústað sínum muni ekki verða raunhæfar.
Ef hugmyndir um þéttingu byggðar með ítrustu hagkvæmni yrðu einráðar yrði Laugarnesinu, síðasta svæðinu í Reykjavík sem tengir saman ósnortið saman allar kynslóðir sem búið Reykjavík frá Landnámi, notað undir háhýsi.
Það vona ég að verði aldrei. Við hljótum að hafa efni á að skilja eitt svona svæði eftir þegar við byggjum upp borgina okkar svo að koss, sem þar var veittur árið 874, verði endurtekinn öld fram af öld á sama stað með sama útsýni.
![]() |
Kossinn endurtekinn |
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana. |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)