22.8.2009 | 23:59
Magnaðri en Bolt ?
Maídag einn 1935 setti Jesse Owens þrjú heimsmet og jafnaði hið fjórða á 45 mínútum.
Margir sérfræðingar um íþróttir telja þetta mesta afrek frjálsíþróttasögunnar ef ekki íþróttasögunnar almennt.
Eitt af heimsmetum Owens, 8,13 metrar í langstökki, stóð óhaggað í meira en aldarfjórðung ef ég man rétt.
Á Ólympíuleikunum í Berlín vann Owens gull í fjórum greinum, 100, 200 og 4x100 metra hlaupum og í langstökki.
Raunar er erfitt að leggja mælikvarða á svona afrek. Spurningin er hvort miða eigi við aðstæður hvers tíma eða bera hreinlega saman tímana og lengdirnar.
Á Ólympíuleikunum í Mexíkó 1968 stökk Bob Beamon "inn í næstu öld" þegar hann bætti langstökksmetið um meira en hálfan metra upp í 8,90 metra og var þá talað um að það afrek yrði aldrei bætt.
Beamon stökk í þunna loftinu í Mexíkó og Tommy Smith naut þess líka þegar hann hljóp 200 metrana.
Tveir langstökkvarar bættu þó met Beamons áður en öldin var öll.
Á síðustu áratugum liðinnar aldar urðu gríðarlegar framfarir í þjálfunaraðferðum, mataræði og notkun lyfja eftir því sem það rúmaðist innan settra marka.
En ekki voru breytingar og framfarirnar minni í tækjakosti, hlaupabrautum, skóm og öðrum aðbúnaði.
Allt fram undir miðjan sjötta áratuginn grófu menn til dæmis holur í malarbrautirnar til að starta úr.
Af þessu leiðir að sekúndur og sentimetrar segja hvergi nærri alla söguna þegar afrek Owens eru borin við nýjustu afrekin.
Þótt Bolt hafi bætt heimsmetið í 100 metra hlaupi um heila 11/100 og það þyki gríðarlega mikið jafngildir það 1/10 úr sekúndu, en Owens bætti einmitt heimsmetið á sinni tíð um 1/10 úr sekúndu, - nákvæmnin var ekki meira en þessi á tímum hans.
Ekki ætla ég mér að fegra Hitler né draga úr glæpaverkum hans, en frásagnir af því að fjölskylda Jesse Owens hafi fengið að vera í stúku Hitlers á Ólympíuleikunum 1936 sýnir að Hitler var laginn við að láta allt líta sem sléttast og felldast út á leikunum.
Sögur um að Hitler hafi neitað að koma nálægt Owens þegar hann sigraði hafa reynst ýktar og á misskilningi birtar. Enginn þarf þó að fara í grafgötur um það hve það voru honum mikil vonbrigði að blökkumaður skyldi vera stjarna Ólympíuleikanna í sjálfri Berlín.
Owens greindi síðar frá því hvernig kynþáttaaðskilnaður viðgekkst hjá Bandaríkjamönnum og bitnaði á honum og öðrum blökkumönnum, jafnt í íþróttunum sem í heimahögum.
Bandaríkjamenn léku að þessu leyti tveimur skjöldum þegar þeir héldu á lofti afrekum Owens og Joe Louis gegn hinni miskunnarlausu kynþáttastefnu nasista sem byggðist á fáránlegum hugmyndum þeirra um yfirburði hins "aríska kynstofns" sem þar að auki var ekki til.
Viðureign Joe Louis og Max Schmeling 1938 snerist upp í einvígi milli lýðræðisins og nasismans í hugum heimsbyggðarinnar. Joe Louis þjónaði landi sínu dyggilega í heimsstyrjöldinni og lagði fram ómetanlegan skerf í að byggja upp baráttuanda hers og þjóðar en naut þess í litlum mæli þegar skattayfirvöld hundeltu hann og léku illa.
Enginn íþróttaviðburður síðustu aldar hafði jafn mikla pólitíska þýðingu og bardagi Louis og Schmelings og þess vegna bauð Roosevelt forseti Louis í Hvíta húsið fyrir bardagann, þreifaði á upphandleggsvöðvum hans og sagði: "Við þurfum á þessum vöðvum að halda fyrir lýðræðið."
Til eru þeir sem halda því fram að Muhammad Ali sé íþróttamaður 20. aldarinnar - aðrir nefna Michael Jordan, en við mat á slíku er ekki hægt að styðjast við tölur sem sýna sekúndur eða sentimetra.
![]() |
Sátu í heiðursstúku Hitlers |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
22.8.2009 | 14:43
Gott mál að fegra grafreitinn.
Þegar myndin "Örkin" verður sýnd mun fólk fyrst sjá fyrir alvöru hvað hvilir undir þeim grafreit náttúrdjásna og verðmæta sem sökkt hefur verið í hið auruga Hálslón.
Ég hef að undanförnu fylgst með gerð útilistaverksins Hringiðu og litist vel á.
Ekki veitir af að reyna að ganga eins vel frá og unnt er eftir það umhverfislega ódæðisverk sem framið var þegar Hjalladal var sökkt.
Þetta minnir mig á mögnuð ummæli hins ógleymanlega tannlæknis, Hauks Clausens heitins, þegar gamall maður hikaði við að borga honum mikla peninga fyrir það að láta gera almennilega við tennur sínar.
Haukur sagði: "Þetta er tilboð sem þú getur ekki hafnað, að ég taki kjaftinn á þér þannig í gegn að þú getir smælað framan í heiminn það sem eftir er í stað þess að bæði kveljast og vera þér til háborinnar skammar hvern einasta dag ."
"Ég á kannski skammt eftir ólifað", stundi sá gamli, "og hvers vegna ætti ég þá að fara að eyða síðustu fjármunum mínum í þetta?
"Jú," svaraði Haukur, "þú getur allavega huggað þig við það að verða fallegt lík."
Gamli maðurinn hafði ekkert um það að segja hvað hann yrði gamall og um var að ræða óhjákvæmileg ævilok hans.
Íslendingar höfðu hins vegar allt um það að segja hvort hvort Hjalladalur fengi að lifa eða yrði drekkt. Þess vegna er svo erfitt að hugga sig við það að þetta svæði "fallegt lík" því að lifandi hefði svæðið innan við Kárahnjúka boðið upp á margfalt meiri náttúrufegurð og útivistarmöguleika í einstæðum listaverkasal Jöklu, sem hefur verið drekkt í drullu.
![]() |
Hringiða við Hálslón |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)