Magnaðri en Bolt ?

Maídag einn 1935 setti Jesse Owens þrjú heimsmet og jafnaði hið fjórða á 45 mínútum.

Margir sérfræðingar um íþróttir telja þetta mesta afrek frjálsíþróttasögunnar ef ekki íþróttasögunnar almennt.

Eitt af heimsmetum Owens, 8,13 metrar í langstökki, stóð óhaggað í meira en aldarfjórðung ef ég man rétt.

Á Ólympíuleikunum í Berlín vann Owens gull í fjórum greinum, 100, 200 og 4x100 metra hlaupum og í langstökki.

Raunar er erfitt að leggja mælikvarða á svona afrek. Spurningin er hvort miða eigi við aðstæður hvers tíma eða bera hreinlega saman tímana og lengdirnar.

Á Ólympíuleikunum í Mexíkó 1968 stökk Bob Beamon "inn í næstu öld" þegar hann bætti langstökksmetið um meira en hálfan metra upp í 8,90 metra og var þá talað um að það afrek yrði aldrei bætt.

Beamon stökk í þunna loftinu í Mexíkó og Tommy Smith naut þess líka þegar hann hljóp 200 metrana. 

Tveir langstökkvarar bættu þó met Beamons áður en öldin var öll.

Á síðustu áratugum liðinnar aldar urðu gríðarlegar framfarir í þjálfunaraðferðum, mataræði og notkun lyfja eftir því sem það rúmaðist innan settra marka.

En ekki voru breytingar og framfarirnar minni í tækjakosti, hlaupabrautum, skóm og öðrum aðbúnaði.

Allt fram undir miðjan sjötta áratuginn grófu menn til dæmis holur í malarbrautirnar til að starta úr. 

Af þessu leiðir að sekúndur og sentimetrar  segja hvergi nærri alla söguna þegar afrek Owens eru borin við nýjustu afrekin.

Þótt Bolt hafi bætt heimsmetið í 100 metra hlaupi um heila 11/100 og það þyki gríðarlega mikið jafngildir það 1/10 úr sekúndu, en Owens bætti einmitt heimsmetið á sinni tíð um 1/10 úr sekúndu, - nákvæmnin var ekki meira en þessi á tímum hans.

Ekki ætla ég mér að fegra Hitler né draga úr glæpaverkum hans, en frásagnir af því að fjölskylda Jesse Owens hafi fengið að vera í stúku Hitlers á Ólympíuleikunum 1936 sýnir að Hitler var laginn við að láta allt líta sem sléttast og felldast út á leikunum.

Sögur um að Hitler hafi neitað að koma nálægt Owens þegar hann sigraði hafa reynst ýktar og á misskilningi birtar. Enginn þarf þó að fara í grafgötur um það hve það voru honum mikil vonbrigði að blökkumaður skyldi vera stjarna Ólympíuleikanna í sjálfri Berlín. 

Owens greindi síðar frá því hvernig kynþáttaaðskilnaður viðgekkst hjá Bandaríkjamönnum og bitnaði á honum og öðrum blökkumönnum, jafnt í íþróttunum sem í heimahögum.

Bandaríkjamenn léku að þessu leyti tveimur skjöldum þegar þeir héldu á lofti afrekum Owens og Joe Louis gegn hinni miskunnarlausu kynþáttastefnu nasista sem byggðist á fáránlegum hugmyndum þeirra um yfirburði hins "aríska kynstofns" sem þar að auki var ekki til.  

Viðureign Joe Louis og Max Schmeling 1938 snerist upp í einvígi milli lýðræðisins og nasismans í hugum heimsbyggðarinnar. Joe Louis þjónaði landi sínu dyggilega í heimsstyrjöldinni og lagði fram ómetanlegan skerf í að byggja upp baráttuanda hers og þjóðar en naut þess í litlum mæli þegar skattayfirvöld hundeltu hann og léku illa.   

Enginn íþróttaviðburður síðustu aldar hafði jafn mikla pólitíska þýðingu og bardagi Louis og Schmelings og þess vegna bauð Roosevelt forseti Louis í Hvíta húsið fyrir bardagann, þreifaði á upphandleggsvöðvum hans og sagði: "Við þurfum á þessum vöðvum að halda fyrir lýðræðið." 

Til eru þeir sem halda því fram að Muhammad Ali sé íþróttamaður 20. aldarinnar -  aðrir nefna Michael Jordan, en við mat á slíku er ekki hægt að styðjast við tölur sem sýna sekúndur eða sentimetra.  


mbl.is Sátu í heiðursstúku Hitlers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka skemmtilega færslu. Ólympíuleikarnir 1936 koma óneitanlega í hugann nú þegar HM í frjálsum fer þar fram. Nafn Luz Long, langstökkvarans þýska, lifir vegna mjög drengilegrar og íþróttamannslegrar framkomu hans gagnvart Jesse Owen. vrð vitni að umræðum manna hér á landi um Long í gær, áður en þessi rétt birtist í Mbl. Gullverðlaunin eru ekki alltaf það sem öllu skiptir.

Gajus (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 00:26

2 identicon

Fróðlegt og skemmtilegt. Kærar þakkir.

Við mat á afrekum megum við ekki falla í "anakrónisma". Samt einhvern veginn spennandi að velta fyrir sér hvor sé meiri Owens eða Bolt. Engin niðurstaða fæst í málið. Ekki frekar en Icesave. En útlit er fyrir að Owens verði langlífari í sögunni, enn sem komið er.

Rómverji (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 00:53

3 Smámynd: Historiker

Það vita vel flestir hver Owens var. Það á enginn í framtíðinni nema hörðustu frjálsíþróttaáhugamenn eftir að vita hver þessi Bolt er. Fólk veit það varla núna nema að hafa sig eftir því.

Historiker, 23.8.2009 kl. 04:14

4 Smámynd: Davíð Þór Þorsteinsson

Lifi nasisminn,

Davíð Þór Þorsteinsson, 23.8.2009 kl. 05:39

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég held að heimsmet Bolt í 100 m. hlaupinu slái allt út.

Í dag er samkeppnin miklu meiri en fyrrir 73 árum síðan. Miklu fleiri stunda íþróttina og margir töldu fyrir örfáum árum síðan að heimsmetið í 100 metrunum væri komið að ystu mörkum mannlegrar getu. Sömu sögu má segja um 200 m. hlaupið. Þegar Michael Johnson var konungur 200 og 400 m. hlaupana, þá var hann gjörsamlega ósigrandi í nokkur ár og var yfirleitt mörgum metrum á undan keppinautum sínum. Michael Johnson hefði litið illa út á hlaupabrautinni í keppni við Usain Bolt.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.8.2009 kl. 13:15

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég reikna með því að Bolt og Johnson hafi keppt við svipaðar aðstæður og því sammála þér, Gunnar, um muninn á þeim tveimur. Gaman væri hins vegar að vita hvað Bolt getur í 400 metrunum.

Það hlaup er fjórum sinnum lengra en 100 metra hlaupið og þess vegna er að öðru jöfnu, fjórum sinnum lengra bil á milli manna þar en í 100 metrunum. Það, hvað Johnson kom langt á undan öðrum í mark í 400 metrunum segir ekki alla sögu.

Ég efast reyndar um að hlutfallslega miklu fleiri stundi spretthlaup nú en fyrir 73 árum. Spretthlaup er einhver auðveldasta keppnisgrein sem til er hvað það snertir, að hana er hægt að stunda nokkurn veginn hvar sem er. Til dæmis voru hlutfallslega fleiri hér á landi sem spreyttu sig í spretthlaupum fyrir 60 árum en nú.

Það er vegna þess að samkeppnin frá boltaíþrótum og öðrum íþróttum um iðkendurna er orðin mun meiri.

Það er frekar í tæknigreinum sem þurfa tól og aðstöðu, sem iðkendafjöldinn hefur vaxið.

Ómar Ragnarsson, 23.8.2009 kl. 13:32

7 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

mér finnst falleg sagan af vináttu og gagnkvæmri virðingu Longs og Owens.

hinn þýðverski Long hafði greinilega svo miklu meira til brunns að bera en gufuketillinn Dolli.

svo mætir hinn hörundsdökki Bolt og fær Dolla til að bylta sér eina ferðina enn í gröfinni, eða hhvar svo sem restir hans eru.

hlýtur að vera gaman fyrir fjölskyldu Owens að fá að sitja á sama stað og Dolli forðum og geta fretað yfir hans fret.

Brjánn Guðjónsson, 23.8.2009 kl. 13:33

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég held að hlutfallslegur fjöldi skipti ekki máli í þessu sambandi, heldur einfaldlega fjöldinn.

 Aðalgrein Bolt var 200 m. þar til fyrir stuttu, svo 400 m. hljóta að koma til greina hjá honum, en hvað með langstökk? Það verður spennandi að fylgjast með þessum kornunga pilti.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.8.2009 kl. 13:48

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Bolt er jafngamall og Owens var 1936 og verður hugsanlega að fara að spýta í lófana ef hann ætlar að fara í langstökkið og ná hámarksárangri áður en fer að halla undan fæti af náttúrulegum ástæðum.

Það er afar einstaklingsbundið hvenær líkamleg geta hvers og eins er í hámarki. Sumir ná því 25 ára eða yngri en síðan eru undantekningar eins og Linford Christie sem hélt sínu óumdeilanlega til 35 ára aldurs.

Ómar Ragnarsson, 23.8.2009 kl. 14:37

10 identicon

Ómar þú ert ótrúlegur og fátt mannlegt er þér óviðkomandi. Ég ætlaði að fara svara greininni frá í morgun en þá hafa fleiri bæst við. Úttekt þín og Mbl. í gær á frjálsíþróttaafrekum og metum eru mjög athygliverðar. Aðstæður til iðkana íþróttanna og þjálfun hefur breyst svo mikið á 50, hvað þá hundrað árum ,að ekki er saman að jafna. Ef þú skildir nú lesa þetta þá langar mig að fá stuðning þinn við gamla hugmynd sem ég sendi til Alþjóða frjálsíþróttasambandsins fyrir  amk 10 árum, að heimsmet væri aflögð í núverandi mynd (enda orðið ofurmannlegt að slá þau )Þess í stað væri tekin upp heimsmet hvers áratugs. Þannig lifðu öll gömlu metin áfram miðuð við aðstæður hvers tíma. Fyrstu heimsmet næsta áratugar væru ekki skráð fyrr en 2012 og siðan og síðan tækju þau að falla þar til nýr áratugur hefst en heimsmethafar hvers áratugar fá nafn að verðleikum sitt skráð sem sannir heimsmethafar.Þannig yrði keppnin líka mun skemmtilegri. En mikilvægast er að skrá met hvers tugar alveg aftur til 1900 eða frá fyrstu nútíma Ólympíuleikum. Vona að þú sjáir þetta og fleiri. Kannski að ég setji þetta líka við seinustu færluna þína. Góð kveðja

sigurður ingólfsson (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 17:30

11 identicon

Bolt er íþróttamaður ársins, jafnvel áratugarins. Hann á eftir að fara undir 19 sekúndur í 200m, nokkuð sem hefði verið talið óhugsandi fyrir 15 árum (áður en Johnson hljóp á 19,32).

Hverjir voru íþróttamenn síðustu aldar er erfitt að segja til um og fer líklega jafn mikið eftir smekk manna einsog hvað annað. Breytingar á aðstæðum voru líka það miklar að það er erfitt að bera saman yfir svo langt tímabil.

Hinsvegar má skemmta sér við að velta upp íþróttamönnum fyrsta áratug þessarar aldar - og það er alveg nógu erfitt val! Hér læt ég samt topp-10 flakka, í karlaflokki, skal búa til til annan í kvennaflokki síðar. Annars reyni ég að hafa þetta í sem flestum íþróttagreinum, annað er ekkert gaman.

1. Roger Federer - tennis

2. Usain Bolt - frjálsíþróttir

3. Zinedine Zidane - fótbolti

4. Lance Armstrong - hjólreiðar

5. Tiger Woods - golf

6.  Michael Phelps - sund

7. Bode Miller (eða er einhver skíðamaður betri síðustu 8 ár?)

8. Michael Schumacher - kappakstur

svo svindla ég aðeins á þessu og nefni fleiri fótboltamenn:

9. Ronaldinho - fótbolti (eða Kaká eða Lionel Messi...)

og tíunda sætið fær svo þjóðaríþrótt Íslendinga, bæði í gríni og alvöru:

10. Ólafur Stefánsson - handbolti

Einhver með betri tillögu?

Þorfinnur (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 03:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband