"Íslenska efnahagsundrið" tætt í sundur í Kastljósi.

Bankabólan hrikalega var kölluð "íslenska efnahagsundrið" þegar hún þandist hvað mest út. Í fróðlegu viðtali við stjórnanda aðgerða gagnvart norskri bankakreppu seint á níunda áratugnum í Kastljósi í kvöld tætti Norðmaðurinn "íslenska efnahagsundrið" í sundur. 

Nokkur atriði, sem komu fram: 

1.

Í Noregi var bannað að nokkur einn aðili eða hópur gæti átt meira en 10% í bankanum.

2.

Krosseignatengsl voru bönnuð. Bankarnir máttu ekki eiga hver í öðrum. 

3.

Í endurreisninni var öllum yfirstjórnendum bankanna og endurskoðendum skipt út og nýtt fólk sett í     staðinn. 

4.

Mjðg ströng skilyrði voru sett um aðhald og sparnað í bönkunum, ný hugsun innleidd.

5.

Með því að lýsa því yfir að allar innistæður væru tryggðar, eins og gert var hér strax, var fólki mismunað   eftir þjóðernum, til dæmis  ef hið sama gilti ekki í Kópavogsútibúinu og í útibúi Bretlandi. Aldrei hefði átt að leyfa þessari erlendu starfsemi að þróast á þann veg sem hún gerði.   

6.

Íslendingar munu ekki öðlast traust að nýju ef hér verður ekki rækilega farið ofan í saumana á því sem gerðist og þeir dregnir til ábyrgðar sem hana bera.  

Í atriðum 1-4 stingur í augun mismunurinn á því sem gerðist í Noregi og því sem hefur gerst hér. Að vísu er líklega erfitt að skipta jafn mikið út fólki í okkar litla landi og í Noregi, en nýlegar fréttir um það hvernig menn eru enn á ofurlauna- og bónusaflippi hér eru sláandi.

Í atriðum 4, 5 og 6 stendur upp á okkur að taka ærlega til hjá okkur ef við ætlum okkur að komast upp úr skítnum.   


Brennuvargarnir óánægðir með slökkvistarfið.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson var einn af aðal hugmyndasmiðum hinnar íslensku útfærslu á Thatcher-Reagan-stefnunni, sem tímabilið þegar þessi hagfræði drottnaði, hefur þegar dregið nafn af.

Grunnurinn að því að blása upp sápukúlu "gróðæris" einkavinavæðingar, spillingar og sjálftöku- og oftökustjórnmála var byggður í sameiningu af fóstbræðrunum einráðu, Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni.

Það er því hlálegt þegar Davíð og Hannes Hólmsteinn, sem áður ræddu jafnan í fyrirlitningartóni um "skríl" og "skrílslæti" þegar mótmælaðagerðir voru annars vegar, koma á Austurvöll þegar mótmæli standa þar yfir og Hannes segir það hreint út í viðtali að hann sé þar til að mótmæla þeim aðgerðum sem beitt er í rústabjörguninni eftir stórbrunann, sem brenndi íslenskt fjármálakerfi til grunna og skekur allt þjóðfélagið.

Full ástæða er að vísu að veita aðhald og skapa upplýsta og vandaða umræðu um það erfiða úrlausnarefni sem nú er verið að fjalla um á Alþingi og fullkomlega eðlilegt að um það séu skiptar skoðanir, sem fólk lætur í ljósi á þeim vettvangi þar sem það telur sig hafa mest áhrif.

Ég tel að æskilegt að ekki hefði verið gerður jafn mikill aðsúgur að Hannesi Hólmsteini og gert var.

Hins ber þó að að gæta að miklar tilfinningar og reiði hefur ríkt í þjóðfélaginu vegna hrunsins og skal engan undra.   


mbl.is Aðsúgur að Hannesi Hólmsteini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fegrunaraðgerðir.

Þessa dagana leggja menn talsvert á sig til að fegra það sem er að gerast í orkumálum okkar.

Talað er um að óraunhæft sé að við höldum eignarhaldi á orkulind vegna þess að við séum blönk. Hvar ætla menn að draga línuna í þessu efni? Hvaða auðlindir munum við hafa efni á að eiga þegar erlendir fjármálamenn koma og bjóða í þær? 

Hvað verður svarið þegar Landsvirkjun kemst í þrot eftir nokkur ár?  

Sjávarútvegurinn er blankur, tæknilega gjaldþrota vegna himinhárra skulda. 

Er þá ekki óraunhæft að við eigum sjálf þá auðlind?  

Þegar nýjar borholan við Hverahlíð er kynnt er ævinlega sagt að hún muni getað gefið 17 þúsund manna byggð rafmagn. Þetta lítur vel út, - auðvitað verðum við að virkja og kreista upp úr jörðinni umfram það sem hún afkastar til þess að 17 þúsund manna byggð verði ekki rafmagnslaus.

Hið rétta er þó að rafmagnið við Hverahlíð er allt eyrnamerkt álverinu í Helguvík og að 20 megavatta holan þar mun skapa um 15 störf í því álveri. Af hverju segja fjölmiðlar ekki frá þessu í réttu samhengi ? 

Af því að það hentar ekki stóriðjufíklunum. Látið er í veðri vaka að virkjanirnar sem nú er verið að koma á koppinn séu til þess að skapa þéttbýlinu rafmagn þegar hið rétta er að við framleiðum þegar 4-5 sinnum meira rafmagn en við þurfum sjálf til venjulegra nota. Álverin taka þegar bróðurpartinn.

Nú orðið er ævinlega talað um Hengilssvæðið, - ekki um Hellisheiði eða Þrengsli. Það lítur betur út,- sýnist aðeins vera stækkun á Nesjavallavirkjun.

Meiri orka á sunnanverðu Hellisheiðarsvæðinu virðist ekki hafa hin minnstu áhrif á áform um Bitruvirkjun.

Nei, allt skal virkjað og engu þyrmt og valta skal yfir Hvergerðinga og okkur sem erum talin "öfgafólk" af því að við viljujm skilja eftir pínulítið horn, eina af fimm fyrirhuguðum virkjunum á þessu svæði.

Það, að skilja ekkert eftir og pumpa upp mun meiri orku en svæðið afkastar til frambúðar er skilgreint sem "hófleg nýtingarstefna."   


mbl.is Segir óraunhæft að ríkið kaupi hlut í HS Orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband