Af hverju virðist "tannhjólsaðferð" bannorð á Íslandi.

Alla vikuna dynur í eyrum í umferðarpistlum útvarps beiðni til ökumanna á tveggja akreina vegi að halda sig á hægri akrein til þess að hraðari umferð komist fram úr á vinstri akrein, sem er ætluð til slíks.

Síðan kemur síðdegi föstudags, sunnudags eða í þessu tilfelli mánudags, frídags verslunarmanna, og þá heyrist sú útgáfa af þessu að ökumenn á tveggja akreina 2 plús 1 vegum eru beðnir um að halda sig á hægri akrein til þess að ekki myndist umferðarteppa þar sem vegurinn breytist í einnar akreinar veg.

Ef allt væri eðlilegt í umferðarmálum hér á landi þyrfti hvoruga brýninguna og ég efast um að í nokkru öðru landi þurfi á svona að halda. 

Fyrri beiðnin, um akstur á vinstri akrein, stafar af landlægu hugsunarleysi og tillitsleysi landans.

Síðari beiðnin stafar af því að hér á landi er aldrei talað um svonefnda "tannhjólsaðferð" þar sem vegur þrengist.

Slíkt virðist algerlega fjarlægt Íslendingum, heldur telja þeir sem eru á beinu akreininni sig hafa forgang yfir hina sem eru á akreininni, sem endar.

Á þeirri akrein eru þó örvar, sem vísa ökumönnum veginn á ská inn á beinu akreinina.

Ef hér væri ekið eins og í öðrum löndum myndi "tannhjólsaðferðin" koma af sjálfu sér, þ. e. bílarnir á enduðu akreininni renna inn í röð bílana á beinu akreininni þannig að hver bíll á beinu akreininni hleypir einum bíl af hægri akreininni inn í röðina.

Hér á landi ríkir algert öngþveiti og skipulagsleysi sem veldur slysahættu. Einstaka ökumaður á vinstri akrein stöðvar og hleypir jafnvel mörgum bílum inn á í einu en síðan eru flestir sem engum hleypa inn á.  

Ef við nefnum bílana hægra megin h-bíla og hina v-bíla, verður nýja röðin v-h-v-h-v-h...líkt og þegar tennur í tveimur tannhjólum grípa hver í aðra þar sem tannhjólin koma saman.

Alls staðar sem ég þekki til erlendis kemur þetta af sjálfu sér en hér myndast hins vegar umferðarteppa og í eyrum dynja beiðnir um að allir séu á hægri akrein og enginn á vinstri.

Ein röksemd fyrir því að biðja um þetta er sú að þá verði auðveldara fyrir neyðarumferð að komast áfram.

En þetta hrekkur skammt því að þar sem vegurinn þrengist verður hvort eð er ekkert skárra fyrir neyðarumferðina að komast áfram, enda eru vegaxlirnar, til dæmis á Suðurlandsvegi, stórlega vanræktar af vegagerðinni. 

Hvernir væri nú að hætta þessum ruglingi og tilkynna einfaldlega: "Ökumenn, myndið tannhjól í umferðinni þar sem vegur þrengist úr tveimur akreinum í eina."

Gegn þessu eru kannski þau mótrök að enginn viti hvað "tannhjólsaðferðin" sé.

En hvernig væri þá að byrja að kenna landanum hvað "tannhjól í umferðinni" táknar er og láta fólk spyrja hvað hún tákni þegar það heyrir tilkynningarnar um hana.

Eða á Ísland að halda áfram að vera eina landið í okkar heimshluta þar sem enginn veit hvað "tannhjól" í umferð táknar og aldrei er minnst á þessa aðferð? 


mbl.is Rólegt í umdæmi lögreglu Selfoss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kunna að fara í skrúðgöngu.

Gimli er smábær í Manitoba, íbúarnir tæp sex þúsund. Það er upplifun fyrir Íslending að vera þar á Íslendingadaginn. Hvílík skrúðganga í ekki stærri bæ!

Gleðigangan í Reykjavík er fyrsta íslenska skrúðgangan sem minnir á skrúðgönguna í Gimli, nema að skrúðgangan í Gimli er miklu fjölbreyttari þótt fólkið sé skiljanlega fleira hér heima.

Hér heima eru þeir sem horfa á í miklum meirihluta en í Gimli eru þeir sem sjá um skrúðgönguna jafnvel fleiri en áhorfendur.

Bókstaflega allar stofnanir, fyrirtæki, félög og áhugamannahópar um tónlist og leiklist taka þátt í þessari skrúðgöngu. Meira að segja bændurnir í nágrenninu koma á skreyttum dráttarvélum dragandi litskrúðuga heyvagna.

Hver einasta hljómsveit kemur með dynjandi tónlist á vögnum og leikhópar í viðeigandi búningum flytja dagskrár á vögnum sínum eða gangandi í kringum þá. 

Ég lýsi eftir hliðstæðri skrúðgöngu hér heima 17. júní þar sem allir leggja sitt af mörkum! Ekki veitir af í kreppunni ! 


mbl.is Íslenskt veður á Íslendingadeginum í Gimli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband