"Sjáumst á ný..."

Sum lög syngja sumir söngvarar þannig að fólki finnst að enginn annar geti leikið það eftir. Vera Lynn söng lagið "We´ll meet again" þannig að manni fannst að engin önnur söngkona ætti að reyna að syngja það. Gott til þess að vita að hún þessi 92ja ára söngsnillingur komist efst á vinsældalista.  

Lagið er mér kært fyrir ýmsar sakir. Mér er í frumbernskuminni hvað foreldrar mínir héldu upp á það í lok stríðsins.

Fyrir þremur árum varð lagið aftur á vegi mínum. Þorgeir Ástvaldsson hafði verið á Spáni, heyrt hóp breskra ferðamanna syngja það og öfundaði þá af því að eiga svo hugljúfan fjöldasöng. 

Hann og Ragnar Bjarnason spurðu hvort ég treysti mér til að gera íslenskan texta. Ég svaraði því til að þrír enskir textar, "We´ll meet again", - "Smoke gets in your eyes" -  og "My way" væru óviðráðanlegir fyrir mig til þýðingar yfir á íslensku og að ég teldi ekki einu sinni rétt að reyna það. 

Orsökin væru aðallega hin stuttu ensku orð sem tækju minna rými en samsvarandi íslensk orð, auk þess sem We´ll meet again væri með innrími í viðbót við endarímið og þegar við bættist að ég gerði þá kröfu til íslensks texta af minni hendi að hin íslenska hrynjandi hljóðstafa væri í honum væri viðfangsefnið augljóslega óleysanlegt.

Síðan gerðist það að svilkona mín, Guðrún Gunnarsdóttir, alltaf kölluð Rúna, lést, en hún var einhver yndislegasta manneskja sem ég hef kynnst.

Þegar ég var skömmu siðar á leið frá Ströndum til Reykjavíkur, frétti ég að kær vinkona mín úr Gaggó og M.R, Jóhanna Þráinsdóttir þýðandi, lægi banaleguna og fór ég þá að hugsa aftur um elskuna hana Rúnu og lagið We´ll meet again".

Þá sá ég skyndilega að það var opin glufa í enska textanum til þess að vinna upp það tap á rými sem hin stuttu ensku orð gefa oftast þegar þýða þarf á íslensku yfir á lengri orð. Orðin í fyrstu laglínunni, "We´ll meet again..."eru nefnilega endurtekin í næstu llínu: "...but I know we´ll meet again some sunny day."

Það að sleppa því að endurtaka þessi orð og færa setningar til, gæfi tækifæri.  

Þar með fór boltinn að rúlla og á leiðinni suður varð megnið af textanum til. Hann er þýðing fyrst og fremst, - það sem orðað er í enska textanum er orðað nokkurn veginn líka í þeim íslenska.

Þó er ein undantekning: Þegar Rúna heitin kvaddi fólk var orðtak hennar jafnan: "kysstu alla frá mér."  

Ég ákvað því að í minningu hennar skyldi ég hafa þessa setningu í íslenska textanum þótt hann væri ekki í þeim enska.

Ég heimsótti síðan Jóhönnu Þráinsdóttur á banasængina í þeim erindagerðum að kveðja hana og biðja hana jafnframt að fara yfir þýðingu mína og gera við hana athugasemdir ef hún treysti sér til þess.

Henni þótti vænt um þessa bón, fór yfir textann og það varð hennar síðasta verk sem þýðanda í þessari jarðvist.  

Í söngleiknum Ást var íslenski textinn "Sjáumst á ný" sunginn í leikslok og síðan hef ég sungið hann með áheyrendum mínum í kveðjuskyni á skemmtunum og mun halda þeim sið sem ofast það sem eftir er. 

Lýk þessari færslu með því að birta textann í fullri lengd, bæði A - og B-kafla, en oftast er aðeins B-kaflinn einn sunginn þar sem fólk kemur saman.

 

SJÁUMST Á NÝ. 

 

Klökknandi kætumst og gleðjumst.  / 

Þegar við kveðjumst blika tár.  / 

Gott er um góðvini´að dreyma.  / 

Aldrei gleymast hin hugljúfu ár.  /

 

Sjáumst á ný björtu sólskini í   /

þótt um stað og stund við vitum ekki nú.  /

Bros gegnum tár munu´um ókomin ár   /

bægja öllum skýjum burt, það er mín trú.  /

 

Ó, kysstu alla frá mér, vini´og vandamenn hér, - /

biðin verður ei löng.   /

Og tjáðu þeim mína ást  -  /

er þú síðast mig sást,  /

að ég söng þennan söng:   /

 

Sjáumst á ný björtu sólskini í.   /

Glöð og sæl við hittumst aftur, ég og þú.  /

 

Birtir upp öll él um síðir.  /

Þú engu kvíðir um þinn hag.   /

Ást okkar ekki við byrgjum.  /

Ekkert syrgjum við heldur í dag.   /  

 

Sjáumst á ný björtu sólskini í    /

þótt um stað og stund við vitum ekki nú.  /

Bros gegnum tár munu´um ókomin ár  /

bægja öllum skýjum burt,  það er mín trú.  

 

Ó, kysstu alla frá mér, - vini´og vandamenn hér, 

biðin verður ei löng   /

og tjáðu þeim mína ást, - er þú síðast mig sást   /

að ég söng þennan söng:  

 

Sjáumst á ný björtu sólskini í.   /

Glöð og sæl við hittumst aftur, ég og þú.  /  

 

 

   


mbl.is 92 ára á popplistann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geta borið höfuðið hátt.

Stúlkurnar í íslenska kvennalandsliðinu geta borið höfuðið hátt. Þær urðu fyrsta íslenska knattspyrnulandsliðið til þess að komast í úrslitakeppni stórmóts í knattspyrnu.

Aðeins eins marks tap þeirra gegn ríkjandi heimsmeisturum er sami markamunur og sá þegar íslenska karlalandsliðið tapaði með eins marks mun gegn ríkjandi heimsmeisturum Frakka í riðlakeppni fyrir áratug.

Þrátt fyrir mótbyr í fyrstu leikjunjum var hægt að horfa stoltur á stelpurnar berjast og verða landi sínu til sóma.


mbl.is EM: Spiluðum frábæran varnarleik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bravó! Ekki "bílvelta varð" !

Það er ekki langt síðan enn ein fréttin birtist um að bíll hefði oltið þar sem notuð voru orðin "bílvelta varð".

Ég hef fjallað um þessa áráttu oftar en einu sinni sem og það þegar fólk verður fyrir margskyns hlutum, verður fyrir bílveltum og verður fyrir beinbrotum, hvernig í ósköpunum sem það er nú hægt, því að erfitt er að hugsa sér hvernig beinbrotum eða brotum úr beinum getur rignt svo af himnum ofan að menn verði fyrir þeim og meiðist. 

Kannski bjargaði miklu í fyrstu orðum tilvitnaðrar fréttar, "lítill fólksbíll valt" sem ég vil hérmeð þakka fyrir, að það hefði orðið áberandi klaufalegt að segja "bílvelta lítils fólksbíls varð." 

Í gærkvöldi var ég viðstaddur góða fjölskylduhátíð í Mosfellsbæ og þar kynnti röggsamur kynnir atriðin og fórst það mjög vel úr hendi. Þó ekki slysalaust.

Oftar en einu sinni sagði hann: "Ég vill..." í stað  "ég vil." 

Ég var feginn að hann var ekki söngvari sem söng "ég vill stilla mína strengi..." eða söngkona sem söng "ég vill fara upp í sveit..."  En það er kannski næsti áfangi í útbreiðslu þessarar málvillu að breyta þessu sem víðast og segja síðan ef maður kemur með aðfinnslur: "Ég skill ekki hvað þér gengur til..." 

 

 


mbl.is Bílvelta á Þykkvabæjarvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband