Bravó! Ekki "bílvelta varð" !

Það er ekki langt síðan enn ein fréttin birtist um að bíll hefði oltið þar sem notuð voru orðin "bílvelta varð".

Ég hef fjallað um þessa áráttu oftar en einu sinni sem og það þegar fólk verður fyrir margskyns hlutum, verður fyrir bílveltum og verður fyrir beinbrotum, hvernig í ósköpunum sem það er nú hægt, því að erfitt er að hugsa sér hvernig beinbrotum eða brotum úr beinum getur rignt svo af himnum ofan að menn verði fyrir þeim og meiðist. 

Kannski bjargaði miklu í fyrstu orðum tilvitnaðrar fréttar, "lítill fólksbíll valt" sem ég vil hérmeð þakka fyrir, að það hefði orðið áberandi klaufalegt að segja "bílvelta lítils fólksbíls varð." 

Í gærkvöldi var ég viðstaddur góða fjölskylduhátíð í Mosfellsbæ og þar kynnti röggsamur kynnir atriðin og fórst það mjög vel úr hendi. Þó ekki slysalaust.

Oftar en einu sinni sagði hann: "Ég vill..." í stað  "ég vil." 

Ég var feginn að hann var ekki söngvari sem söng "ég vill stilla mína strengi..." eða söngkona sem söng "ég vill fara upp í sveit..."  En það er kannski næsti áfangi í útbreiðslu þessarar málvillu að breyta þessu sem víðast og segja síðan ef maður kemur með aðfinnslur: "Ég skill ekki hvað þér gengur til..." 

 

 


mbl.is Bílvelta á Þykkvabæjarvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Verður næsta skref ekki að bílar fari að "lenda í" veltum ?

Hildur Helga Sigurðardóttir, 30.8.2009 kl. 12:38

2 identicon

Sástu fréttina um ökumanninn sem var "grunaður um meinta ölvun"????

manni (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 12:39

3 identicon

Já, gömul frétt sagði líka: Komu að bílveltu.  Hvernig ætli maður komii að bílveltu?   Og 2ja ára börn segja ég vill. 

ElleE (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 13:31

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Miðað við nútíma málnotkun þýðir setningin "...komu að bílveltu..." að fólkið hafi tekið þátt í bílveltunni. Nú þykir ekki við hæfi að nokkur nokkur taki þátt í neinu, leggi hönd á plóg eða hjálpi til, heldur koma menn að öllum fjandanum.

Ómar Ragnarsson, 30.8.2009 kl. 21:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband