31.8.2009 | 23:58
Ótíðindi að Magma eignist "ráðandi hlut."
Nú stefnir í það að Magma Energy eignist að minnsta kosti nógu stóran hlut í jarðvarmaorkunni í Suðurnesjum til að það falli undir skilgreininguna "ráðandi hlutur." Þetta eru ótíðindi því að jafnvel þótt opinberir aðilar eigi rúmlega helming er þessi erlendi hluti alltof hár.
Í ofanálag eru skilmálar þannig að Magma þarf að borga alveg ótrúlega lítið út og höfuðið síðan bitið af skömminni með því að láta tímalengdina 65+65=130 ár inn í samninginn.
Til samanburðar má geta þess að þegar Bandaríkjamenn vildu 1945 fá að gera samning til 99 ára um herstöðvar á Íslandi voru 99 ár talin ígildi þess að samningurinn væri til eilífðar.
Andspyrnan gegn þessu virðist máttlaus. Þótt auðvelt væri á fimmtán dögum að finna samsvarandi upphæð til að leggja í Sjóvá virtist tveggja mánaða tími ekki bera neinn árangur varðandi þetta mál.
Nú er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af því að talið um það að ná restinni af fyrirtækinu í opinbera eigu verði aðeins orðin tóm.
Í sumar hefur mátt sjá þess merki að þeir sem andæfa stóriðju- og landsölustefnunni séu jafnvel fyrirfram búnir að búa sig undir uppgjöf sem felst í þeim Pílatusarþvotti að þeir hafi barist á móti þessu en orðið að láta í minni pokann.
Og þetta er greinilega bara byrjunin. Forstjóri Landsvirkjunar hamraði á því í greinum í bæði Fréttablaðinu og Morgunblaðinu að nauðsynlegt væri að koma orkuauðlindinni úr almanna eigu.
![]() |
Samþykktu kauptilboð Magma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
31.8.2009 | 12:12
Enginn lærir af öðrum.
Helstu stórveldi heims hafa reynt að vinna stríð í Afganistan, Bretar, Sovétmenn og nú Bandaríkjamenn. Öllum hefur mistekist af sömu ástæðu. Þetta er stórt land með einstaklega fjöllóttu og erfiðu landslagi og hentar því afar illa fyrir þann hernað sem stórveldunum gagnast best að heyja.
Hernaðarsigurinn á Írökum byggðist á elstu hernaðaraðferð í heimi. Óvinurinn hafði safnað saman herliði sínu á opnu sléttlendi þar sem yfirburðir í formi vígvéla og tækni gerðu kleift að vinna sigur á einfaldasta hátt hernaðarsögunnar, að drepa eins marga óvini og hægt var í stórorrustum.
Í Afganistan eru aðstæðar gerólíkar. Um 30 milljónir íbúa í 648 þúsund ferkílómetra landi njóta þess hagræðis að vera vanir hinu erfiða fjallalandslagi og vera á heimavelli þegar erlent stórveldi sendir þangað hermenn sem koma úr gjörólíku umhverfi og hafa hvorki vilja né getu til að aðlaga sig framandi umhverfi.
Í Afganistan getur erlenda herliðið hvergi knúið fram sigur með því að láta sverfa til stáls á afmörkuðum vígvöllum í stórorrustum. Þarna er háður skæruhernaður þar sem talíbanar eru dreifðir, liggja í launsátri, gera skyndiárásir og eru horfnir aftur á augabragði.
Afganistan hefur reynst vettvangur fyrir meting milli stórveldanna. Nú ætla Bandaríkjamenn að gera það sem reyndist Sovétmönnum um megn en nota samt um margt svipaðar aðferðir og þeir gerðu á níunda áratugnum, sem sé að ná algerum völdum í krafti yfirburða, sem felist í vígvélum og herbúnaði.
Þótt vígvélar og herbúnaður Bandaríkjamanna taki fram þeim hertólum, sem Sovétmenn höfðu, skiptir það ekki máli þegar í ljós kemur enn og aftur, að þessi herbúnaður hentar ekki til stríðs af því tagi sem háð er í þessu stríðshrjáða landi.
Yfirburðir í vígtólum dugðu ekki í Víetnam því að Vietkong hafði valið sér vígvöll sem hentaði ekki innrásarhernum.
Sama virðist vera að gerast í Afganistan.
![]() |
Breyta verður um stefnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)