4.9.2009 | 18:54
Orðið "Hallærisplan" fær nýja merkingu.
Í mínu ungdæmi kom æskulýðurinn á rúntinum saman á svonefndu "Hallærisplani" þar sem nú er Ingólfstorg.
Merkileg er sú árátta borgaryfirvalda að láta rífa gömul og sögufræg hús og umturna söguslóðum.
Dæmi um það var þegar til stóð að rífa Austurbæjarbíó, en ég minnist þess með ánægju að hafa samstundis komið fram í útvarpi og ritað blaðagrein um það sem ég kallaði "sjálfseyðingarhvöt" gagnvart því hvernig borgin (borgaryfirvöld) vildi eyða merkustu húsum sínum.
Páll Óskar Hjálmtýsson komst vel að orði í viðtali hér á mbl.is þegar hann líkti NASA, sem lengi vel hét Sjálfstæðishúsið, við félagsheimili og að ekkert annað slíkt væri í Reykjavík.
Auk þess hefur komið í ljós að Ingólfstorg hefur haft nokkra sérstöðu um samkomur utanhúss og því fráleitt að fara að minnka það og gera Vallarstræti að níðþröngu og dimmu sundi.
Páll Óskar sagði að það "væri 2007-lykt af málinu" en það væri ekki lengur 2007.
Margt af því sem gert var í 2007-andanum var mjög hallærislegt.
Ég held því að þetta nýja plan um Ingólfstorg geti vel fengið nafnið "Hallærisplan".
Þótt upphaflega planið um þetta hafi víst verið gert á tíma R-listans er ekki lítið hallærislegt að í valdatíð Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík verði brotið niður hús sem á sér stórkostlega sögu frá þeim tíma þegar þar voru haldnir landsfundir þess flokks og stórir fundir þar sem Ólafur Thors, Bjarni Ben og aðrir leiðtogar flokksins áttu sínar stóru stundir.
Þar að auki er rétt að nefna allra dansleikina, og jólaböllin, að ekki sé nú talað um revíurnar, Bláu stjörnuna og þær allar.
Á sínum tíma var elsta bíóhús Evrópu, Fjalakötturinn, rétt við Ingólfstorg, rifið, og þar stendur nú steinhús með engri starfsemi. Væri ekki hægt að breyta því í hótel ef það vantar endilega eitt hótelið enn þarna ?
Ég hef að gamni mínu verið að skoða hverju það hefði breytt ef hin stórmerkilegu Kveldúlfshús og Völundarhúsið hefðu fengið að standa við Skúlagötu.
Ég ætla að bíða enn um sinn og sjá síðan hvað margir eiga heima á þessum lóðum þegar upp verður staðið og hvernig hefði verið hægt að standa öðruvísi að málum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)