Orðið "Hallærisplan" fær nýja merkingu.

Í mínu ungdæmi kom æskulýðurinn á rúntinum saman á svonefndu "Hallærisplani" þar sem nú er Ingólfstorg.

Merkileg er sú árátta borgaryfirvalda að láta rífa gömul og sögufræg hús og umturna söguslóðum.

Dæmi um það var þegar til stóð að rífa Austurbæjarbíó, en ég minnist þess með ánægju að hafa samstundis komið fram í útvarpi og ritað blaðagrein um það sem ég kallaði "sjálfseyðingarhvöt" gagnvart því hvernig borgin (borgaryfirvöld) vildi eyða merkustu húsum sínum.

Páll Óskar Hjálmtýsson komst vel að orði í viðtali hér á mbl.is þegar hann líkti NASA, sem lengi vel hét Sjálfstæðishúsið, við félagsheimili og að ekkert annað slíkt væri í Reykjavík.

Auk þess hefur komið í ljós að Ingólfstorg hefur haft nokkra sérstöðu um samkomur utanhúss og því fráleitt að fara að minnka það og gera Vallarstræti að níðþröngu og dimmu sundi.

Páll Óskar sagði að það "væri 2007-lykt af málinu" en það væri ekki lengur 2007.

Margt af því sem gert var í 2007-andanum var mjög hallærislegt.

Ég held því að þetta nýja plan um Ingólfstorg geti vel fengið nafnið "Hallærisplan".

Þótt upphaflega planið um þetta hafi víst verið gert á tíma R-listans er ekki lítið hallærislegt að í valdatíð Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík verði brotið niður hús sem á sér stórkostlega sögu frá þeim tíma þegar þar voru haldnir landsfundir þess flokks og stórir fundir þar sem Ólafur Thors, Bjarni Ben og aðrir leiðtogar flokksins áttu sínar stóru stundir.

Þar að auki er rétt að nefna allra dansleikina, og jólaböllin, að ekki sé nú talað um revíurnar, Bláu stjörnuna og þær allar.  

Á sínum tíma var elsta bíóhús Evrópu, Fjalakötturinn, rétt við Ingólfstorg, rifið, og þar stendur nú steinhús með engri starfsemi. Væri ekki hægt að breyta því í hótel ef það vantar endilega eitt hótelið enn þarna ?

Ég hef að gamni mínu verið að skoða hverju það hefði breytt ef hin stórmerkilegu Kveldúlfshús og Völundarhúsið hefðu fengið að standa við Skúlagötu.

Ég ætla að bíða enn um sinn og sjá síðan hvað margir eiga heima á þessum lóðum þegar upp verður staðið og hvernig hefði verið hægt að standa öðruvísi að málum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Það fer nú algerlega eftir því hvað lóðareigandinn hefur borgað í flokkssjóðinn?  Liggur það ekki í augum uppi?

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 4.9.2009 kl. 19:11

2 Smámynd: Sævar Helgason

" Hallærisplan "  þetta nafn fór að festast við þetta svæði uppúr 1952-4 .  Og í mínu minni var ástæðan sú að þarna á planinu söfnuðust saman ungir menn á þeirra tíma bílum og reyndu með því að ganga í augun á hinum fögru ungmeyjum sem gengu rúntinn. Yfirleitt fannst  þeim þessir gæjar hallærislegir og lítt eftirsóknarverðir- og þaðan er nafnið komið....Nú safnast þarna saman mótorhjólamenn...

Sævar Helgason, 4.9.2009 kl. 19:38

3 identicon

Sæll Ómar.

 Ég er ekki sammála þér um þessi gömlu hús.  Vil láta rífa þetta drasl niður og byggja nýtt.  Það er ekkert hægt að hugsa endalaust um einhverja karla sem áttu fundi hér og þar um bæinn og vernda hús í staðinn.  Húsverndarsjónarmið eru kominn út í öfgar í öðrum þjóðfélögum og menn hugsa orðið meira um að gera borgir þéttari til þess að hlífa náttúrunni rétt utan borgarmarka.

Mestu umhverfisspjöll Íslandsögunnar voru gerð á Reykjavíkursvæðiinu, Kárahnjúkar og aðrar virkjanir eru smámál miðað við spjöllin sem hafa verið gerð í Reykjaví og nágrenni.  Hugsaðu þér votendið og alla fuglana sem eru útdauðir vegna höfuðborgarsvæðisins.  Landflæmið sem borgin og nágranna sveitarfélög leggja undir sig í dag er mesti sóðaskapur í umhverfismálum sem átt hefur sér stað á Íslandi undanfarin 100 ár. 

Með kveðju, Bjarni Th. Bjarnason.

Bjarni Th. Bjarnason (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 20:32

4 identicon

Bjarni, hver er tilgangurinn með því að fara í miðbæinn ef þar eru bara hótel og steypukassar.  Ég bý ekki í Reykjavík og í þau fáu skipti sem ég kem þangað þá finnst mér alltaf jafn gaman að skoða miðbæinn og fjölbreytnina þar.  Reyndar er það líka svolítið dapurlegt þar sem mörg hönnunarslys hafa átt sér stað þar í gegnum tíðina.

Bjarki Hilmarsson (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 22:24

5 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Þetta er landsbyggðarmál ekki síður en 101 mál. Næst á eftir Austurvelli kemur nefnd "Hallærisplan", hvorir tveggja eru þjóðvellir sem Alþingi á að ráða yfir en ekki borgarstjórn Reykjavíkur.

Jóhannes varðandi greiðslur. Mér finnst á grunvelli forkaupsréttar að almenningur, eða íbúar, skuli eiga kost að ganga inn í slíka samninga. 

Dæmi: Lóðareigandi bíður flokknum kr. 50.000.- á rúmmetrinn ( sem er hátt verð miðað við það sem greitt var fyrir Höfðatorgið). Áður en frá þessu er gengið skal bjóða íbúum og almenningi kost á að fá gerninginn útaf borðinu með því að greiða kr. 25.000.- í peningum fyrir rúmmetrinn, ásamt því að íbúasamtökin skaffi 7,5% viðbótaratkvæða annað hvort í prófkjöri eða í kosningum. Peningagreiðslan skal lækka í réttu hlutfalli við kosningaloforð kjósenda.

Þetta er auðvita bara hugmynd en það þarf að útfæra þetta nánar og setja reglur um, en mér finnst siðferðilega óverjandi að halda almenningi fyrir utan þetta.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 4.9.2009 kl. 23:34

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er sammála Kristjáni Sigurði um það að málefni höfuðborgarinnar eru landsbyggðarmál og öfugt. Mér hefur fundist skorta á að menn geri sér grein fyrir þessu.

Ómar Ragnarsson, 5.9.2009 kl. 00:30

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Tjarnargatan er fallegasta gatan í Reykjavík, enda eru þar gömul hús sem eigendurnir hafa haldið vel við, en ekki einhverjar steypu- og glerhallir í líkingu við klump þann við Aðalstræti sem kallaður er Morgunblaðshúsið, ellegar hrákasmíðina á milli Gamla Reykjavíkurapóteks og Hótels Borgar sem einnig eru fögur hús að flestra mati, hefði ég haldið.

Ætli flestallir vilji nú ekki halda í eitthvað af bílunum, sem nú eru kallaðir fornbílar, sama hversu merkilegir eða ómerkilegir þeir þóttu í upphafi, og það kosti peninga að gera þá upp?!

Hér á Íslandi er nóg landrými, þrír íbúar á hvern ferkílómetra. Samt rembast menn eins og rjúpan við staurinn við að búa hér til meira land, bæði í Reykjavík og Kópavogi, trúlega vegna þess að þeim finnast þessi bæjarfélög vera asnaleg í laginu, sumsé aflöng í staðinn fyrir að vera kringlótt eins og öll bæjarfélög í heiminum eiga trúlega að vera.

Í gamla miðbænum í Reykjavík er hins vegar nú þegar fjöldi hótela og um eitt hundrað veitingastaðir, sem moka inn gjaldeyri frá erlendum ferðamönnum árið um kring, ítem til að mynda skartgripa-, fata- og bókabúðir.

Í 101 Reykjavík eru einnig útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækin Grandi og Fiskkaup, ítem tölvuleikjafyrirtækið CCP með sinn landburð af erlendum gjaldeyri í hverjum mánuði, jafnvirði um 600 milljóna íslenskra króna.

Ekkert póstnúmer á landinu aflar því eins mikils gjaldeyris og 101 Reykjavík, þrátt fyrir sína almennt frekar lágreistu byggð, og þar eru um 630 fyrirtæki, sem er svipaður fjöldi og í öllum Hafnarfirði og öllum Reykjanesbæ.

Vilji menn reisa hér svo stórar hallir að enginn komist yfir þær nema fuglinn fljúgandi geta þeir gert það í Laugarnesinu, þar sem nú stendur hús Hrafns Gunnlaugssonar, reist eitt háhýsi í hverju bæjarfélagi, sem rúma myndi alla íbúana, og hækkað það jafnóðum og íbúunum fjölgaði.

Þorsteinn Briem, 5.9.2009 kl. 01:50

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef mönnum finnst hönnun Ingólfstorgs vera misheppnuð er lausnin ekki fólgin í því að minnka það eða leggja niður heldur að endurbæta það í núverandi stærð.

Ómar Ragnarsson, 6.9.2009 kl. 14:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband