Langhlaup í sjálfstæðismáli.

Það eru góðar fréttir ef stjórn og stjórnarandstaða geta sæst á leið til að koma hinu illvíga Icesave-máli í þann farveg að tjónið af því verði sem minnst bæði í bráð og lengd. 

Finna verður leið sem leitar jafnvægis milli þess annars  vegar að tjónið í framtíðinni verði ekki of mikið og hins vegar þes að of mikið tjón hljótist af töf málsins til lengri tíma litið.

Vandinn felst í því að þetta er milliríkjamál, þar sem hinir aflmeiri og stærri hafa neytt aflsmunar og það eru takmörk fyrir því fyrir litla þjóð eins og okkur hve langt er hægt að ganga gegn því ofurefli.

Ég sagði strax í upphafi haustið 2008 að þetta yrði langhlaup, stanslaus barátta fyrir "Fair deal", sanngjarnri lausn og þá baráttu verður allan tímann að heyja af samblandi af festu og lagni, krafti og úthaldi.

Það tekur tíma að vinna málstað okkar fylgi erlendis og ég held að málskot forsetans hafi sett það í það ljós fjölmiðla erlendis sem svo nauðsynlegt er að leiki um það svo að þekking og skilningur aukist hjá viðsemjendum okkar

Og það eru ekki aðeins Bretar og Hollendingar heldur aðrar þjóðir sem málið hefur áhrif á, misjafnlega mikil þó.

Sjálfstæðisbarátta Jóns Sigurðssonar var langhlaup og hann lifði ekki að sjá því lokið.

Stefnan hans var sú að standa á réttinum þótt neyðst yrði til að beygja sig fyrir aðstæðum hverju sinni.

Kjörorð Jóns forseta "Eigi víkja!" snerist ekki um það að krefjast algers sjálfstæðis þegar í stað þegar það var óframkvæmanlegt heldur að missa aldrei sjónar á endanlegu takmarki og fara ævinlega eins langt og mögulega varð komist án of mikilla vandræða.

Hinir upphaflegu fyrirvarar Alþingis fyrir ríkisábyrgðinni vegna Icesave-samninganna voru að stórum hluta miðaðir við framtíðina,  til að tryggja að Íslendingar ættu færa leið ef á bjátaði og að hér yrði ekki um myllustein um háls þjóðarinnar að ræða langt fram eftir öldinni. 

Allt frá Locarno-samningunum 1925 og fram á okkar dag hafa svona mál iðulega verið færð til betri og sanngjarnari vegar eftir að stórar þjóðir hafa neytt aflsmunar við þjóðir sem heimtað var af að greiða skaðabætur eða skuldir en síðan komið í ljós að of hart var gengið fram og engum til góðs að heimta það fram sem útilokað var að inna af hendi.

Á þennan hátt eigum við að geta leyst þetta mál með reisn líkt og Finnar gerðu þegar þeir öxluðu miklar byrðar eftir Seinni heimsstyrjöldina á þann hátt að eftir var tekið.  

 


mbl.is Segja um góðan fund að ræða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á ekki að láta sig dragast inn í deilurnar.

Ég tel að þegar forseti Íslands hefur beitt málskotsrétti 26. greinar stjórnarskrárinnar og útskýrt í sam allra fæstum orðum af hverju hann geri það, eigi hann eins framarlega og unnt er að forðast rökræður og deilur um lagafrumvarpið sem kosið verður um. 

Hann á að láta þjóðina og stríðandi fylkingar um málið um það eftir því sem unnt er, annars er hann orðinn beinn þátttakandi í þessum deilum án þess að þurfa það, því að synjun hans var áfrýjun, ekki veto eða neitunarvald í skilningi þess orðs.  

Eitt af því sem deilt er um er hvort og þá hve mikil efnahagsleg áhrif höfnun frumvarpsins muni hafa.

Um það eru skiptar skoðanir og með því að leggja mat á það opinberlega er forsetinn orðinn beinn þátttakandi í deilunum um þetta atriði. 

Forsendan fyrir því að samningurinn, sem hann skrifaði undir í haust og er því í gildi ef hinn síðari verður felldur,  komist í framkvæmd, er sú að Bretar og Hollendingar fallist á fyrirvarana, sem Alþingi setti þá.

Það hafa þeir ekki gert og menn geta deilt um það hve líklegt sé að þeir geri það.

Ef forsetinn hefur verið að svara spurningu um þetta efni og talið sig þurfa að skýra málið eitthvað, hefði hann átt að segja, að um þetta atriði væri deilt, og í mesta lagi að útskýra það með því að segja eitthvað í þá veru sem feitletrað er hjá mér hér að ofan.

Ég studdi það sjónarmið Ólafs Ragnars fyrir forsetakosningarnar 1996 að málskotsrétturinn væri virkur og nauðsynlegur einmitt vegna þess hvað hann er, áfrýjun en ekki neitunarvald og að forsetinn gæti eftir sem áður staðið utan við beinar deilur um viðkomandi frumvarp.

Þess vegna var ég í hópi þeirra sem studdi málskotsrétt hans nú en vonaðist jafnframt til þess að honum tækist að standa utan við hinar hörðu deilur um Icesave-málið.  

Ég hef talið nauðsynlegt alla tíð að með þessu væri opinn öryggisventill sem gerði kleyft að halda þjóðaratkvæðagreiðslur því að engin önnur nothæf lög væru til um það efni eins og reynslan hefur sýnt. 

Ég er sammála Björgu Thorarensen um nauðsyn löggjafar um þjóðaratkvæðagreiðslur svo að kaleikur þessi sé tekinn frá forsetanum.

Er hins vegar ósammála henni um það að of mikið vald sé fært einum manni til málskotsréttar í núverandi löggjöf. Þetta er eini maðurinn sem þjóðin kýs beint í kosningum og með hliðsjón af ofríki framkvæmdavaldsins undanfarna áratugi er að mínum dómi í lagi að beint lýðræði í þjóðaratkvæðagreiðslum geti myndað mótvægi við það. 

Veit ekki betur en að í Bandaríkjunum hafi einn maður synjunar- eða frestunarvald án þess að það sé talið bagalegt.    


mbl.is Eldri lögin taka gildi falli þau nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuggalegt á 21. öld.

Það er ótrúlegt og geigvænlegt á 21. öld að í lýðræðisríki menntaðs fólks sem jafnframt er voldugasta ríki jarðar skuli enn vera uppi sú heimssýn sem birtist í málflutningi Pat Robertson og fleiri Bandaríkjamanna.

Raunar verður fólki orða vant við að heyra og sjá svona sjónarmiðum forneskju og mannvonsku haldið fram í sjónvarpsútsendingum sem ná til milljóna manna.

En bandarískt þjóðfélag hýsir allan regnboga skoðana og trúarbragða og býr yfir geysilegum sveigjanleika á mörgum sviðum, ógnvænlegum sveigjanleika á stundum.

Boðun Robertsons er aftur í öldum og minnir á djöfladýrkun sumra frumstæðra þjóðflokka í myrkviðum Afríku.

Ég átti þess kost að koma í eitt slíkt byggðarlag, afkskekkt mjög, í Eþíópíu fyrir nokkrum árum, sem heitir Gurra, en þar varð íslenskt kristniboð mildi, kærleika og vonar til mikilla hagsbóta fyrir hið fátæka fólk sem þar bjó áður við böl sjónarmiða á borð við þau, sem Robertsons heldur fram.  

Þar hafði djöflatrúnaður ríkt um aldir og fólst hann í því að sífellt þyrfti að blíðka djöflana með fórnum og fórnarhátíðum, sem nokkrir gamlir galdralæknar stjórnuðu.

Þeir höfðu svartnættisvald yfir fólkinu, sem haldið var í stöðugum ótta. Valdið nýttu þeir sér til að njóta forréttinda og undir þá var hlaðið með gjöfum af mikillli undirgefni.

Á fórnar- og galdrahátíðunum nutu þeir vínfanga og kræsinga á meðan lýðurinn svalt.

Að sumu leyti minna söfnuðir manna eins og Robertsons á trúarbrögð svona ættflokka aftan úr forneskju.

Íburður og lúxus hjá mörum þessara bandarísku safnaða sem byggist á þeim harða "bisniss" sem starf sumra safnaðanna er, stingur í augu.

Predikarinn talar um bágindi og böl sjúkdóma og fátæktar sem verðskuldaða refsingu þeirra sem þjást og brunar eftir samkomuna burt á svartgljáðri glæsikerru.

Hér má þó ekki alhæfa. Í mörgum söfnuðum vestra fer fram mjög uppbyggjandi menningarstarf sem gera samkomur þeirra að gefandi listviðburðum.

En það eru of margir svartagallsrausarar á borð við Robertson við líði.   


mbl.is „Haíti-búar sömdu við djöfulinn"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ókeypis gufuþvottur.

Saltpækillinn á götunum fer illa með bílana. Flestir láta sig það litlu skipta og yppta öxlum því að ætlunin er oftast að skipta og fá sér nýjan innan fárra ára. 

Kæruleysið  gagnvart þessu er þó ekki skynsamlegt ef að því kemur að selja þurfi bíl og hann reynist meira ryðgaður en gengur og gerist.

Mínir bílar eru við fornbílamörk eða enn eldri og reynslan er sú að hlutar í undirvagni ryðga oft fyrst svo illa að jafnvel ágætlega útlítandi bíll verður ónýtur þótt vél og drif og aðrir hlutar bílsins eigi mikið inni.

Það er dýrt að fara með bíla í gufuþvott en þó ekki ástæða til að gefast upp í andófinu gegn ryðinu.

Gott er að fylgjast vel með því hvenær færi gefst eftir að salt- og tjöruúði hefur sest á bílana og þvo þá vel þegar gefur í hlákum.

DSCF5750

Því lengur sem saltpækillinn fær að sitja á bílnum, því verra.  

Þá þarf að þvo allan bílinn, ekki bara yfirborð hans og ég hef tekið upp þann sið að þvo undirvagninn með því að setja fullan kraft á kústinn og draga hann fram og aftur á hvolfi undir bílnum þannig að vatnið sprautist af krafti upp undir bílinn. (Sjá mynd) 

Sömuleiðis að sprauta af krafti inn í hjólaskálar. Vatn er að vísu ryðmyndandi en ekkert í líkingu við salt.

Og sé þetta gert í þurru veðri yfir frostmarki eins og var í dag, þornar bíllinn fljótt og er þá hreinn.  

Þetta fer langleiðina með það að virka eins og gufuþvottur og sá tími kemur að þessi tiltölulega litla fyrirhöfn borgar sig.   


Bloggfærslur 14. janúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband