Nýstirnið rís áfram.

Aron Pálmason vekur svipaðar tilfinningar hjá mér og Geir Hallsteinsson gerði á sínum tíma. Báðir úr Hafnarfirði, ljóshærðir, kornungir og stórefnilegir.

Aron kemur inn á nákvæmlega réttum tíma. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir liðið að fá svona mann til viðbótar í leikstjórnandastöðuna. 

Í framhaldinu verður nefnilega að spila á fleiri mönnum en gert hefur verið, því að hættan á því að að ofkeyra of fáa menn er helsta ógnun við framhaldið af frábærri frammistöðu liðsins.

Gleymum ekki því að liðið var með unna stöðu rétt fyrir leikslok í báðum hinum leikjunum.

Líklega hefur Guðmundur þjálfari gert rétt með því að svelta Aron á bekknum í tveimur leikjum til að efla hungur hans, leikgleði og löngun til að sýna hvað í honum býr. 

Logi Geirsson er nýlega orðinn leikfær eftir meiðsli og því líklega skynsamlegt að geyma hann sem leynivopn og eiga hann að það seint á mótinu að hvort tveggja sé, að hann sé betur gróinn af meiðslunum og geti nýst á lokasprettinum. 

Það var lýsandi að sjá þjálfara Dananna niðurlútan talsvert áður en leik var lokið og honum var ljóst að leikurinn var tapaður. 

Nú getum við öll sungið gömlu hendinguna: "...og svona´ætti að vera hvert einasta kvöld." 

 


Erfiðasta leiðin skemmtilegust?

Það hefur stundum verið sagt að það sé oft eins og íslensk handboltalandslið sækist eftir því að fara erfiðustu leiðina inn á stórmót og áfram á mótunum sjálfum. 

Þetta hefur mann komið í hug á þessu móti og nú er gamall draugur við dyrastafinn, þreytan hjá lykilmönnunum sem of mikið er keyrt á.

En þótt erfiðasta leiðin sé erfiðust er hún mest spennandi, því er ekki að neita, og þess vegna kannski skemmtilegust fyrir áhorfandann.

Og ekki er hægt að kvarta núna í leikhléi í leik Íslendinga og Dana, slíkur Tivoliírússíbani sem hann hefur verið. Og hvílík skemmtun ! Þetta tekur fram flestum tegundum af sveiflum, líka þeirri skagfirsku.  


mbl.is Dönum skellt í Linz
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áltrúarmenn efla tilbeiðsluna.

Ég var einn af þeim sem tók þá trú upp úr 1960 að á Íslandi þyrfti að koma á fót stóriðju til að skjóta fleiri stoðum undir íslenskt atvinnulíf og útflutning.

Þetta var orðað þannig að ekki væri skynsamlegt að hafa öll eggin í sömu körfunni. 

95% útflutningstekna þjóðarinnar voru fiskur og fiskafurðir. Engir vegir með bundnu slitlagi voru til í landinu og margt annað var eftir því. 

Við höfðum ekki  nóg rafmagn til eigin nota og valið stóð á milli þess að vikja í mörgum smáum virkjunum eða einni stórri í Þjórsá. 

Virkjun Þjórsár var miklu hagkvæmari kostur miðað við hverja orkueiningu en gallinn var sá að ekki var hægt að virkja við Búrfell nema í einum stórum bita og við höfðum ekkert við allt þetta rafmagn að gera. 

Ég var þá fylgjandi þessari virkjun og öðrum virkjunum í framhaldinu fyrir ofan hana til að tryggja rekstraröryggi hennar. 

Ég trúði því sem okkur var sagt að blómlegur afleiddur áliðnaður myndi fylgja í kjölfarið með framleiðslu vöru úr áli, allt frá þakplötum til umbúða. 

Nú er liðin tæp hálf öld og aldrei reis þessi umfangsmikli áliðnaður innanlands. 

Ástæða þess gátum séð ef við vildum,  að hagkvæmni stærðarinnar réði því að þessi iðnaður yrði erlendis en ekki hér.

Nú, hálfri öld síðar, halda menn áfram að trúa því að stóriðjan sé framtíð Íslendinga, þótt aðstæður séu allar gerbreyttar. 

Nú notar stóriðjan yfir 80% af raforku landsins og heittrúarmenn vilja hækka þessa tölu upp í 95%.

Þótt helstu rökin fyrir því að fara út í stóriðjuna fyrir tæpri hálfri öld hafi verið sú að ekki ætti að hafa öll eggin í sömu körfunni vilja áltrúarmenn endilega hafa það þannig hvað snertir þá auðlind sem raforkan er að öll raforkusalan verði í sömu körfunni. 

Rökin um stórar afmarkaðar virkjanaeiningar hafa nú snúist við varðandi jarðhitann.

Gagnstætt því sem á við um vatnsaflsvirkjanir, sem eru fyrirfram þekktar stórar einingar bendir orkumálastjóri á að skynsamlegast sé að virkja jarðvarmann jafnt og þétt í smærri einingum, vegna þess að orkan frá hverju svæði og hverri borholu sé ágiskunartala í upphafi og það komi ekki í ljós fyrr en eftir á hver orkan sé.

Þess vegna sé skynsamlegast að virkja yfirvegað og laða frekar að marga smærri kaupendur orkunnar en risastóra eins og álverin séu.

En þessi rök bíta ekki á áltrúarmenn. Þeir haga sér eins og ekkert hafi breyst eða gerst síðan 1960.

Þetta snýst ekki lengur um neina skynsemi, - þetta eru trúarbrögð.

Og heittrúarbrögð eru alger, - ekkert annað kemur til greina en það sem trúað er á.

Þótt bent sé á að við sex risaálver á Íslandi sem þurfi alla orku landsins muni aðeins 2% vinnuaflsins fá vinnu segja áltrúarmenn að áliiðnaðurinn sé eina lausnin í atvinnumálum landsmnanna. 

Þeir trúa því að jafnvel þótt öll orka Suðvesturlands nægi ekki fyrir þrjú risaálver nýtt risaálver plúst  eigi samt að ráðstafa henni allri til álvera og setja öll eggin í eina körfu. 

Í viðtali við framkvæmdastjóra Fjárfestingastofu hafa margir kaupendur orku gefið sig fram en hrökkva fljótlega frá þegar þeir sjá að risaálverin halda allri orkunni í gíslingu og gína yfir henni.

Og ekki nóg með það. Nú krefjast áltrúarmenn þess að álverið í Straumsvík verði stækkað í botn þótt álverið sjálft hafi ekki áform um slíkt.

Við blasir að hægt er að selja orkuna yfirvegað og af framsýni til kaupenda sem skapa fleiri og betri störf á hverja orkueiningu með minni mengun en þetta mega áltrúarmenn ekki heyra nefnt.

Þeir falla fram og ákalla álguðinn:

 

Ó, ál vors lands! Ó, lands vors ál !

Við lofum þitt heilaga, heilaga nafn!"

Úr borholum hveranna hnýta þér krans

þínir herskarar, mastranna safn.  

 


mbl.is Stækkun álvers í brennidepli á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. janúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband